131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Ferðamál.

678. mál
[14:41]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekkert að biðja hæstv. ráðherra að reyna að verja iðnaðarráðherrann eða stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar, alls ekki. Ég styð ráðherrann heils hugar í þeirri stefnumörkun sem hér er lögð fram sem gengur þvert á stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Mér finnst það bara gott. Einn aðalvandi ferðaþjónustunnar, eins og hæstv. ráðherra tæpti á í ræðu sinni, er afkoman, fjárhagurinn. Og hver er mesta ógnin við ferðaþjónustuna núna? Það er gengisþróunin, það er hið háa gengi íslensku krónunnar og lágt engi á erlendum gjaldmiðlum hér. Af hverju stafar þessi gengisþróun? Af stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Sú stefna ríkisstjórnarinnar snertir því ferðaþjónustuna á tvennan hátt; annars vegar með því að ráðast á náttúruperlurnar og hins vegar með því að stóriðjustefnan hefur áhrif á gengið og skerðir þannig afkomu og samkeppnismöguleika í þessari stóru grein sem vex hratt og skilar mestum þjóðhagslegum ábata.

Ég vil líka benda hæstv. ráðherra á fjárlögin. Því miður er dregið úr framlögum til ferðamála á fjárlögum þessa árs frá því sem var áður á um annað hundrað milljóna króna, að mig minnir, sem var ætlað í markaðsátak og í langtímaáætlun eða fjögurra ára áætlun um fjármagn til ferðamála er heldur dregið úr því í þeim fjárlögum sem við nú störfum eftir. Sama má segja um niðurskurð á vegamálum eða vegáætlun sem er grunnþáttur fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu.

Ég bara trúi því og treysti og hef heyrt hæstv. ráðherra lýsa því að hann sé ekki sáttur við að vera settur svona undir hnífinn sem einmitt bitnar á uppbyggingu ferðaþjónustunnar. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hefur hann einhverja von til þess að vinna þessu máli enn þá meira fylgi innan ríkisstjórnarinnar hvað (Forseti hringir.) varðar fjárlög, framlög á fjármunum til (Forseti hringir.) grunnþátta ferðaþjónustunnar og bættra samgangna?