131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Ferðamál.

678. mál
[14:43]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er af mörgu að taka ef ætti að svara út í hörgul öllum atriðum sem hv. þm. Jón Bjarnason kom inn á í stuttri ræðu og vonandi gefst færi á að gera það í öðru en andsvari hér.

Fyrir það fyrsta vil ég undirstrika það sem ég sagði fyrr að hingað til hefur farið afskaplega vel á með þeim sem stunda nýtingu auðlinda okkar, orkulinda, og þeirra sem stunda ferðaþjónustu og vonandi verður svo áfram.

Aðeins út af afkomu greinarinnar þá er í sumum þáttum ferðaþjónustunnar betri afkoma núna en nokkru sinni fyrr. Lít ég þar t.d. til langstærsta ferðaþjónustufyrirtækisins, Flugleiða, sem eitt sinn hét svo. Staða þess fyrirtækis hefur aldrei verið betri. Staða flugfélaganna sem stunda innanlandsflug hefur aldrei verið betri en um þessar mundir. Engu að síður er staða fyrirtækja, minni fyrirtækja sérstaklega út um landið sem sinna þessari þjónustu allt árið, ekki nógu góð. Eina ráðið og það allra mikilvægasta og besta er að standa þannig að landkynningu og markaðsmálum og uppbyggingu þjónustunnar að ferðamenn séu hér sem mest allt árið eins og ég nefndi fyrr.

Hvað varðar niðurskurð þá ber ekki á nokkrum samdrætti í innflutningi ferðamanna til Íslands. Við höfum því staðið þannig að málum, hæstv. forseti, landkynningarmálum og uppbyggingarmálum, að það koma fleiri og fleiri ferðamenn og aldrei fleiri en nú og aukningin er sýnilega strax verulega á þessu ári. Stefna ríkisstjórnarinnar og stefna samgönguráðherrans sem ferðamálaráðherra er því að mínu mati alveg hárrétt. Við erum á réttri leið. (Forseti hringir.) Við munum að sjálfsögðu standa að uppbyggingu samgöngumannvirkjanna eins og við höfum verið að gera (Forseti hringir.) og leggja meira til þeirra en nokkru sinni áður.