131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Ferðamál.

678. mál
[14:54]

Ísólfur Gylfi Pálmason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég get á vissan hátt deilt áhyggjum með hv. þingmanni varðandi umgengni við náttúru Íslands. Í máli hans áðan kom fram að hann hefði miklar áhyggjur af stóriðjustefnu þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr og talaði um að hann hefði verið kallaður í mjög mörg viðtöl vegna hennar, en síðan í næstu setningu talaði hann um áhyggjur sínar af því að allt of margir ferðamenn kæmu hingað til Íslands.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Hefur hann í fórum sínum upplýsingar um að dregið hafi úr komu ferðamanna til Íslands, m.a. vegna þess að verið er að virkja við Kárahnjúka? Mér fannst á vissan hátt gæta ákveðins tvískinnungs í máli hans. Annars vegar hafði hann miklar áhyggjur af náttúru Íslands vegna stóriðjustefnunnar og svo í næstu andrá talaði hann um að við þyrftum að gæta vel að því að ekki kæmu allt of margir ferðamenn til Íslands, en kúrfan hefur sýnt að æ fleiri ferðamenn hafa áhuga á að sækja Ísland heim. Ég tel það auðvitað mjög gott vegna þess að ferðaþjónustan skiptir mjög miklu máli, ekki einungis á höfuðborgarsvæðinu heldur á landinu öllu.

Ég get líka tekið undir orð hans varðandi Grænland og Færeyjar. Við eigum að kappkosta að vera í sem allra mestum samskiptum við þau lönd og í raun og veru aðstoða hvert annað í ferðaþjónustunni. En mér fannst þarna koma fram annars vegar þessar miklu áhyggjur af stóriðjustefnunni og hins vegar því að við fengjum allt of marga ferðamenn hingað til landsins.