131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Ferðamál.

678. mál
[15:00]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi áhrifin af stóriðjustefnunni og umræðunni sem orðið hefur t.d. um Kárahnjúkavirkjun held ég að of snemmt sé að gefa sér að þau áhrif séu öll komin fram. Sú umræða er enn í gangi og það eru enn að birtast greinar, þetta er að síast út í umfjöllun á alþjóðavettvangi. Ég held að það væri fróðlegt fyrir hv. þingmann, ef hann hefur ekki kynnt sér það nú þegar, að fara inn á síður þar sem eru listar yfir alla umfjöllun sem um þetta hefur verið í erlendum fjölmiðlum. Fyrir nokkru sá ég slíkan lista og mér brá í brún þegar ég sá hversu mörg, mörg hundruð stórblaða, tímarita og sjónvarpsstöðva hafa sérstaklega fjallað um þetta mál, jafnvel nýlega, eru með fréttaskýringar eða umfjöllun um þetta. Áhrifin eru þar af leiðandi að mínu mati alls ekki komin fram.

Áhrif af svona löguðu leggjast að sjálfsögðu saman. Ef við höldum áfram á þeirri braut og áfram verða harðvítugar deilur í landinu um mjög umdeildar framkvæmdir leggst það við. Þá fer ímynd landsins smátt og smátt að breytast meira og meira.

Það hefur líka einfaldlega verið þannig að við höfum verið heppin hvað það snertir að ýmislegt annað hefur lagst með okkur í ferðaþjónustunni á síðustu missirum. Hlutir eins og ófriður, pestir eða hryðjuverk í öðrum heimshlutum hafa frekar beint ferðamönnum til landa eins og Íslands þar sem menn telja sig örugga, jafnvel gera ósköp einfaldlega miklir sumarhitar á meginlandi Evrópu eða Ameríku það fýsilegt að ferðast norður í svalann o.s.frv. Það hefur því margt orðið til þess að við höfum verið „heppin“ í þeim efnum.

Ég tel að eitt allra mesta verðmætið sé hálendið, víðernin og myndirnar þaðan. Það dregur mjög marga að og er stimplað sterkt inn í ímynd ekki bara ferðamannanna heldur (Forseti hringir.) þeirra sem bjóða þjónustuna. Þess vegna er mikið í húfi þar (Forseti hringir.) sem við þurfum að gæta að.