131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Ferðamál.

678. mál
[15:02]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þessi tillaga til þingsályktunar um ferðamál er komin fram í þinginu og vil geta þess að ég tel að viðhöfð hafi verið góð vinnubrögð við vinnslu málsins. Margir voru kallaðir til og sett var á góð og mikil vinna þar sem menn gátu komist að verkefninu í gegnum vefsvæðin. Notuð voru nútímaleg vinnubrögð við vinnuna og haldin voru málþing og fleira í þá veru til að koma verkinu í þetta form.

Vissulega er ferðaþjónustan okkur ákaflega mikilvæg og það eru mjög mörg sóknarfæri fyrir okkur í ferðaþjónustunni. Stefnumótunin sem fyrir var er frá 1996 og vissulega hefur mjög margt gerst og mjög mikil þróun og breyting orðið í ferðaþjónustu frá þeim tíma vegna tækniþróunar, tilkomu internetsins o.fl. Nú er það jafnvel orðin undantekning að menn fari í gegnum ferðaskrifstofur þegar þeir ætla að ferðast heldur er farið inn á netið og fólk sér sjálft um ferðamál sín og er sín eigin ferðaskrifstofa. Þar vil ég líka nefna flugið. Menn eru farnir að kaupa farseðla sína í gegnum netið o.s.frv.

Hér væri náttúrlega hægt að taka á ýmsu við umræðuna en mig langar að nefna nokkur atriði. Ég vil nefna vistvæna þáttinn sérstaklega því að ég hef lagt þó nokkuð til málanna í sambandi við vistvæna ferðaþjónustu, var með þingsályktun um græna ferðamennsku sem þáverandi samgönguráðherra, Halldór Blöndal, tók síðan upp og gerði sérstaklega að stefnu sinni. Það eru mjög margir ferðamenn náttúruunnendur sem leggja mikið upp úr því að það sé vistvæn ferðaþjónusta á þeim stöðum sem þeir ferðast um.

Ég vil líka taka undir hve mikilvægt er að lengja ferðatímabilið. Það hefur reynst okkur erfitt hve stuttan ferðaþjónustutíma við höfum en við eigum auðvitað að geta nýtt veturinn því að náttúra Íslands býður upp á að hægt sé að laða að ferðamenn á nánast öllum árstímum og við þurfum að leggja miklu meiri áherslu á það.

Sömuleiðis varðandi markaðsátak þá þarf það að vera víðar en á þeim stöðum sem við erum með í dag. Þjóðirnar í kringum okkur hafa lagt mjög upp úr því að ná ferðamönnum langt að og eins og bent var á fyrr í umræðunni fer að verða auðveldara fyrir okkur að fá ferðamenn frá Asíu, Ástralíu og langar leiðir að vegna góðra tengsla okkar við umheiminn í gegnum flugfélögin okkar.

Einnig er mjög mikilvægt þegar menn fara í markaðsátak að raunveruleikinn sé í takt við það sem verið er að kynna. Að hin fagra ímynd landsins og áherslan sem lögð er á náttúru og menningu verði ekki til þess að menn verði fyrir vonbrigðum þegar þeir koma til landsins.

Varðandi ímyndina var talað um Kárahnjúkavirkjun áðan og orkustefnuna og ég get tekið undir að örugglega eru áhrif þeirrar virkjunar ekki öll komin í ljós. Það sem ég hef áhyggjur af er að hún muni eyðileggja fyrir okkur landið til lengri tíma litið, sérstaklega leirburðurinn sem mun koma til vegna orkuversins. Óttast ég mjög að það muni eyðileggja verulega fyrir okkur, en ég ætla ekki að vera með bölsýni í þessu ágæta þingmáli.

Mig langar að nefna annað og það eru hvalveiðarnar. Hv. þm. Mörður Árnason óskaði eftir skýrslu um áhrif hvalveiða á ferðaþjónustuna og þar með ímynd Íslands. Ég held að í framhaldi af þeirri vinnu sem vinna þarf í sambandi við ferðamálin þurfi að gera úttekt á þeim málum þar sem óvilhallir aðilar vinna verkið. Ferðamálaráð vann skýrsluna sem var pólitískt skipað og formaður þess einnig, sem hefur ákveðnar skoðanir í sambandi við hvalveiðarnar og ferðaþjónustuna. Ég held að mjög mikilvægt sé að við fáum óvilhalla úttekt á því hvaða áhrif hvalveiðarnar hafa á ferðaþjónustuna og ímynd okkar sem ferðaþjónustulands.

Í sambandi við þingsályktunartillöguna þurfum við auðvitað að huga að því hvernig við ætlum að ná markmiðunum þar og það er auðvitað viðkomandi ráðherra að sinna því hvernig hann hyggst ná þeim markmiðum sem sett eru hér fram.

Mig langar að nefna eitt í viðbót og það eru leiðbeiningar á erlendum tungumálum. Á síðasta þingi var samþykkt þingsályktunartillaga mín og fleiri um að bæta vegamerkingar og koma með leiðbeiningar á erlendum tungumálum sem virðist oft hafa vantað nokkuð upp á. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvað þeirri vinnu líður sem óskað var eftir eða Alþingi samþykkti í þeirri þingsályktunartillögu og hvort menn séu farnir af stað með að auka kynningar, leiðbeiningar og merkingar á erlendum tungumálum.

Mig langar einnig að nefna öryggismálin, en ég kom einmitt að því við gerð þingmálsins að leggja áherslu á hve mikilvægt væri að öryggi ferðamanna væri tryggt. Við þurfum að vera með bæði gott eftirlit með þeim sem veita þjónustuna og að allir hafi tilskilin leyfi, en það þarf líka að vera auðvelt að komast að ferðamanninum þegar hann er á ferð um landið. Þá vil ég nefna neyðarnúmerið, sem ég hef áður nefnt í þingsölum, að við þurfum að hafa það þannig að það sé ekki bara 112 sem svari neyðarhringingu heldur líka númer sem erlendir ferðamenn þekkja og nota heima fyrir, þannig að neyðarlínan svari einnig því númeri ef upp koma vandræði, þ.e. 911. (Forseti hringir.)

Ég er greinilega búin með tímann minn og hefði gjarnan viljað koma að mörgum öðrum þáttum. Það getur vel verið að ég komi í aðra ræðu. En mig langar í lok ræðu minnar að fá svör frá hæstv. ráðherra um þau atriði sem ég nefndi.