131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Ferðamál.

678. mál
[15:27]

Ísólfur Gylfi Pálmason (F):

Herra forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um ferðamál og aldrei þessu vant er mikli eindrægni og samstaða í þingsalnum.

Ferðaþjónusta skiptir Ísland og Íslendinga gríðarlega miklu máli. Í þingsályktunartillögunni er tekið á flestum þeim þáttum sem skipta máli í ferðaþjónustu og ber að fagna henni sérstaklega og þakka hæstv. samgönguráðherra og því fólki sem unnið hefur að tillögunni. Hún markar ákveðna stefnu sem er eins konar varða á vegferð okkar í þessum málum.

Það er af mjög mörgu að taka þegar fjallað er um ferðamál og einn þáttur sem er eiginlega grunnþátturinn í ferðamálum er auðvitað samgöngumálin sem eru ákveðin undirstaða, flug til Íslands, siglingar til Íslands, vegakerfið, merkingar eins og talað hefur verið um, og síðan öll fjarskiptin sem eru ákveðinn grunnur að því að ferðamenn sæki Ísland heim, og að fyllsta öryggis sé gætt í hvívetna. Þjónustan skiptir auðvitað alltaf mjög miklu máli og henni hefur fleygt fram á Íslandi undanfarin missiri.

Hér koma líka fram meginmarkmið í ferðamálum, við erum að ræða meginmarkmið í ferðamálum á tímabilinu frá 2006–2015 og það er einmitt mjög jákvætt að horfa svo langt fram í tímann því að ferðaþjónusta og ferðamál eru afar spennandi atvinnugrein. Hún er spennandi fyrir það unga fólk sem bæði stundar nám og starfar við þjónustu hvað þetta varðar og hún er líka spennandi fyrir eldra fólkið sem hefur verið að byggja upp ferðaþjónustu vítt og breitt um landið.

Auðvitað hefur ferðaþjónustan líka mjög margar hliðargreinar. Margfeldisáhrif hennar eru gríðarleg. Nefna má handverk og hvers konar listsköpun, matvælaframleiðslu, ýmiss konar farþegaflutninga, rútur, bílaleigur og fararstjórn, gistingu, veitingarekstur og margt fleira. Þessi mál hafa verið að þróast mjög ört á Íslandi á undanförnum árum. Fjölbreytnin hefur aukist gríðarlega mikið og það er eitt af því sem útlendingar sækja mjög í þegar þeir koma til Íslands, þ.e. sérstöðuna.

Ég var á mjög merkilegri ferðamálaráðstefnu ekki alls fyrir löngu á Hvolsvelli þar sem vítt og breitt var rætt um ferðaþjónustu í landinu. Þá kom í ræðustól þýsk kona sem nú er búsett á Íslandi. Hún er hagfræðingur, vann hjá Benz-verksmiðjunum og fór yfir það þegar hún tekur á móti þýskum ferðaþjónustuaðilum. Þeir eru auðvitað, eins og við öll, með mismunandi þarfir og mismunandi áherslur. Ein ágæt kona sem borðar einungis grænmeti var svolítið að horfa í kringum sig þarna á þessum slóðum og sá íslensku sauðkindina þar sem hún beit gras einhvers staðar úti í haga og reyndar einhvers staðar til fjalla. Þessi ágæta grænmetisæta fór að velta fyrir sér hvað sauðkindin væri í raun og veru frjáls á Íslandi. Sumum finnst hún reyndar of frjáls á köflum, þ.e. þeir sem eru í skógrækt og öðru slíku, af því að hún á það til að skaða plöntur. En þessi ágæta þýska kona sem var gestkomandi á Íslandi hafði séð fyrir sér allt framleitt kjöt sem dýr í búri. Þarna gat hún allt í einu farið að hugsa sér að bragða á íslensku lambakjöti sem hún og gerði. Henni þótti það býsna gott þannig að hún fór að fá áhuga fyrir sauðkindinni, fór að hafa áhuga fyrir því hvað væri gimbur og hvað væri hrútur. Það eru auðvitað ákveðnar aðferðir við að finna út hvað er hrútur og hvað gimbur og í bréfi sem hún sendi að Herjaðarhóli í Rangárþingi ytra sagði að henni, þessum þýska gesti, hefði eiginlega þótt hvað skemmtilegast á Íslandi að finna út hvað væri hrútur og hvað gimbur. Við sjáum það, herra forseti, að það sem okkur þykja ótrúlega sjálfsagðir hlutir finnst útlendingum spennandi og merkilegt.

Annað sem ég hef haft talsverðar áhyggjur af varðandi ferðaþjónustu á Íslandi er hvalveiðarnar. Áðan var fullyrt í ræðustól að Ferðamálaráð væri einhuga í þeim efnum. Það er ekki þannig. Auðvitað hefur Ferðamálaráð áhyggjur af hvalveiðum eins og aðrir. Ekki það að hvalurinn sé endilega svo merkileg skepna, heldur er búið að markaðssetja hvalinn þannig að hann sé einhver óskaplega merkileg skepna og það er til fullt af börnum úti í heimi sem aldrei kemst í snertingu við dýr, við náttúruna. Þá verða allt í einu einhver kvikindi eins og Keikó, eða hvað þau heita nú, óskaplega merkileg í augum barnanna. Þess vegna hef ég alla tíð haft miklar áhyggjur af hvalveiðum. Þær mega ekki skaða okkur varðandi ferðamál. Þær tölur sem við höfum séð sýna að þær virðast ekki hafa skaðað okkur enn sem komið er.

Þetta eru atriði sem mér finnst full ástæða til að nefna. Við þurfum að fara gríðarlega varlega hvað þetta varðar. Þetta á líka auðvitað við um markaðsmál á fiskafurðum og öðru slíku þannig að hérna verðum við að stíga varlega til jarðar. Það er engin ástæða til að fullyrða, eins og gert var úr þessum ræðustól, að Ferðamálaráð væri einhuga í þessum efnum.

Annað sem ég vildi nefna sem skiptir mjög miklu máli í ferðaþjónustunni er hið íslenska hráefni, á hvern hátt við markaðssetjum matvælin sem við erum að framleiða. Ég hef barist fyrir því að aðstoða íslenska matreiðslumeistara og reyndar kjötiðnaðarmeistara líka því að engir eru betur til þess fallnir en íslenskir matreiðslumeistarar og kjötiðnaðarmeistarar að markaðssetja þessa vöru fyrir okkur. Við vitum það og erum sammála um að hún er gríðarlega heilnæm en það er ekki sama á hvern hátt við matreiðum þetta íslenska hráefni handa gestum sem hingað koma. Þetta eru grundvallaratriði sem ber að skoða og þarna eigum við gríðarlega mikla möguleika sem vert er að benda á.

Ég gleðst líka yfir því að fjölbreytni í samgöngum til Íslands hefur aukist. Flugleiðir standa sig gríðarlega vel í þessari þjónustu og það gerir Iceland Express líka. Þetta skiptir okkur miklu máli og það er auðvitað mjög margt sem benda má á í þessu sambandi sem ég vildi nefna. Ég nefni samstarf við Vestur-Norðurlönd, þ.e. Grænland og Færeyjar, þessar þjóðir sem eru okkur svo skyldar.

Svo er annað sem ég vil vekja athygli á, spurningunni um hverjir vinna við ferðaþjónustu. Á dögunum var ég að skoða mig um á Keflavíkurflugvelli, skoðaði starfsemina þar, og þá kemur í ljós að þeir sem vinna þar teljast ekki vinna við ferðaþjónustu, heldur við verslun, viðskipti o.s.frv. Þarna eru atriði sem (Forseti hringir.) vert er að benda á.