131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Ferðamál.

678. mál
[15:36]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um ferðamál sem hæstv. samgönguráðherra flytur. Ég hef áður komið því að í stuttu andsvari við hæstv. ráðherra að ég telji það mjög lofsvert framtak, löngu tímabært í sjálfu sér, að skilgreina og búa út ramma fyrir ferðaþjónustu í landinu.

Eins og hér hefur komið fram, bæði hjá hæstv. ráðherra og í umræðunni, eru ferðamálin, ferðaþjónustan, sá atvinnuvegur sem vex hvað hraðast og hvað jafnast hér á landi og hefur gert á undanförnum árum og áratugum, og það er ekkert sem bendir til annars en að hún geti vaxið áfram. Hún er líklega nú þegar orðin annar eða þriðji mikilvægasti atvinnuvegurinn í að skaffa gjaldeyristekjur til þjóðarbúsins og hún hefur líka þá sérstöðu að hún tekur ekki til sín mikið af innfluttu hráefni til að búa til vörur og þjónustu úr. Hún byggir á staðbundnum verðmætum vítt og breitt um landið. Það er löngu tímabært að marka henni stöðu og þá er líka hægt á grundvelli þeirrar vinnu að gera kröfur til þess að hún hafi forgangsrétt að ákveðnum náttúruverðmætum eða öðru sem hana snertir og þá jafnframt að hún fái sess þegar verið að skipuleggja atvinnu- og efnahagsmál þjóðarinnar til lengri tíma. Á það hefur skort.

Eins og hér hefur rækilega komið fram í umræðunni hefur skort á að tekið væri tillit til mikilvægis og möguleika ferðaþjónustunnar í íslensku atvinnulífi. Það hefur meira verið látið reka á reiðanum og látið ráðast hvernig til tækist. Sú þingsályktunartillaga sem hæstv. ráðherra hefur hér mælt fyrir er tímabært og lofsvert framtak til þess að vinna í að skapa ferðaþjónustunni umgjörð og þá jafnframt möguleika á forgangskröfu til þeirra þátta sem byggja hana upp sem atvinnuveg.

Ég minntist í andsvari mínu á þá grunnþætti í umgjörð ferðaþjónustunnar sem eru í þessari þingsályktunartillögu. Það er vel til fundið að hafa á þeim lista sem starfshópur ráðherrans hefur gert að umgjörð þingsályktunartillögunnar punkt númer eitt náttúru Íslands, menningu þjóðarinnar og fagmennsku. Raunar má segja að allir liðirnir sem taldir eru upp þar á eftir séu bara til að undirstrika og útvíkka þann þátt sem settur er númer eitt, náttúru Íslands og menningu þjóðarinnar.

Hér hefur líka verið getið um hvernig ráðherra lét vinna þessa þingsályktunartillögu. Bakgrunnurinn í vinnunni er sá að kallaðir voru til hinir ýmsu aðilar í samfélaginu sem tengjast ferðaþjónustunni og framtíðarmöguleikum hennar og þeir settust niður með starfsmönnum ráðuneytisins til að setja þessa stefnumörkun fram. Ég tel einnig að þessi vinnubrögð af hálfu ráðherrans séu til fyrirmyndar — án þess að það megi hæla ráðherranum allt of mikið, hann á náttúrlega eftir að standa við þetta allt saman. Það er mjög mikilvægt að í grein sem þessari sem snertir svo mjög alla landsmenn, náttúruna og framtíðina sé unnið að málum á víðtækum grunni. Að minnsta kosti birtist okkur þessi vinna með þeim hætti, og þingsályktunartillagan er því gott veganesti í því sem hér er verið að leggja upp með, að skapa ferðaþjónustunni ákveðna umgjörð.

Ég treysti því að hv. formaður fjárlaganefndar, sem hér gekk í salinn, muni beita sér fyrir því með okkur öðrum í fjárlaganefnd að ferðamálin fái aukinn fjárstuðning af hálfu ríkisins til að byggja upp þá grunnþjónustu sem ríkinu ber skylda til að gera.

En það verður ekki bæði sleppt og haldið. Ég kom að því í andsvari mínu við hæstv. ráðherra að hvort tveggja verður ekki gert hér, að byggja upp mikla ferðaþjónustu á grundvelli íslenskrar náttúru og íslenskrar menningar og ætla að taka sömu náttúru, beisla hana í stórvirkjanir og reisa síðan álver, stóriðjuver, sem keyra efnahagslífið á hlið eins og við stöndum nú frammi fyrir. Það er því til upplýsingar fyrir hæstv. samgönguráðherra, sem hér flytur þessa ágætu þingsályktunartillögu um náttúru Íslands og umhverfisvernd, sem það er sagt að samtímis ríður hæstv. iðnaðarráðherra eða keyrir um héruð, héruð sem eru að byggja sig upp í ferðaþjónustu, búa náttúruperlur sínar þannig út að þær geti nýst sem best, vernda þær til uppbyggingar ferðaþjónustu, og segir: Heyrðu, við skulum taka þessar náttúruperlur, búa hér til virkjun og svo fáið þið álver.

Það væri fróðlegt ef hæstv. samgönguráðherra gæti upplýst hversu mikla peninga hæstv. iðnaðarráðherra fær til að reka áróður fyrir stóriðju sinni miðað við þá peninga sem hæstv. samgöngu- og ferðamálaráðherra fær til sinnar uppbyggingar. Ég held að þar skeiki nokkrum hundruðum milljónum króna.

Þess vegna styð ég hæstv. samgönguráðherra á allan hátt í að keyra áfram þá stefnu að byggja Ísland upp sem ferðamannaland á grundvelli ósnortinnar náttúru (Forseti hringir.) og jafnframt að stöðva hæstv. iðnaðarráðherra í að ráðast á sömu náttúruperlur til að byggja upp stóriðju.