131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Ferðamál.

678. mál
[15:52]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég sá ástæðu til að kveðja mér hljóðs til að lýsa einfaldlega yfir ánægju minni með að loks skuli mælt fyrir þingsályktunartillögu um ferðamál, með þeirri áætlun henni fylgir, á hinu háa Alþingi. Ég var fulltrúi flokks míns í hópi stjórnmálamanna, sem í voru fulltrúar allra flokka á þingi, sem komu að vinnunni við gerð þessarar áætlunar og við höfðum einnig auga með því þegar fylgiskjalið var útbúið. Ég fæ nú ekki betur séð en það starf hafi lukkast ágætlega.

Ég skal gjarnan viðurkenna að ég hef ekki lesið fylgiskjalið, mér hefur ekki gefist tími til þess, en þessi skýrsla, í öllu sínu veldi, kom ekki í pósthólf mitt fyrr en nú í morgun, af einhverjum ástæðum. Ég vil nota tækifærið til að lýsa furðu yfir því en nóg um það.

Það er enginn vafi á því að ferðaþjónustan gefur okkur tækifæri til mikillar sóknar inn í framtíðina á næstu árum. Það er augljóst að ef okkur á að takast vel upp þá verðum við að halda vel á spilunum. Ég vona sannarlega að skýrsla þessi hjálpi okkur við það. Hér hafa aðrir þingmenn flutt ágætar ræður og minnst á þætti sem ég hafði hugsað mér að koma að. Ég lýsi mig efnislega sammála mörgu af því sem sagt hefur verið og sé í raun enga ástæðu til að endurtaka það í mörgum orðum. Það má náttúrlega minna á þætti eins og mikilvægi góðra samgangna, að við höldum þar áfram uppbyggingu til að tryggja aðgengi að ferðamannastöðum. Við verðum einnig að halda áfram uppbyggingu á ýmiss konar þjónustu, aðstöðu og þannig má lengi telja. Að sjálfsögðu megum við ekki gleyma kynningarþættinum.

Mig langar einnig að nota smáræði af tíma mínum til að minna á mikilvægi þess, virðulegi forseti, að landið er nú lítils virði sem ferðamannaland ef ekkert í því fólkið. Þetta höfum við í Frjálslynda flokknum margoft sagt. Það hefur að hluta til verið ástæðan fyrir því að við höfum barist mjög hatrammlega fyrir hagsmunum hinna dreifðu byggða á Íslandi. Það er ekki síst vegna þess að okkar sannfæring er sú að landið sé lítils virði, m.a. með tilliti til uppbyggingar ferðaþjónustu, ef engin búseta er í landinu. Erlendir ferðamenn koma ekki bara til að skoða náttúru landsins heldur líka til að kynnast lífsháttum okkar og menningu, til að sjá okkur Íslendinga í okkar eigin umhverfi. Okkur, íbúum þessa lands, þykir margt í umhverfi okkar sjálfsagt og eðlilegt sem hinu glögga gestsauga þykir í raun alveg stórmerkilegt, alls konar hversdagslegir hlutir.

Ég var á fundi í kjördæmi mínu fyrir nokkrum vikum, austur á Kirkjubæjarklaustri. Þar horfði fólk til framtíðar atvinnuuppbyggingar á staðnum, m.a. vegna þess að þar verður sláturhúsinu lokað í vetur. Þar var auðheyrt að fólk horfði einmitt mjög til uppbyggingar ferðamála og skyldi engan undra því að þar er mjög fagurt umhverfi, margar náttúruperlur og ætti heldur betur að vera hægt að gera skurk í að auka ferðaþjónustu á því svæði.

Ég man að þar stóð upp leiðsögumaður sem hafði haft lifibrauð sitt af því að vera leiðsögumaður fyrir erlenda ferðamenn á Íslandi í mörg ár. Hann benti t.d. á að eftirsóknarvert þætti að geta farið með ferðamenn á íslenskan bóndabæ, hversdagslegan íslenskan sveitabæ, ósköp venjulegan, sýnt þeim slíkan sveitabæ en ekki einhverja fegraða mynd af einhverjum sveitabæ fyrir túrista. Þá væru menn ekki að tala um einhvern húsdýragarð heldur ósköp venjulegan sveitabæ þar sem hundurinn liggur á hlaðinu, hænurnar vappa um, kýr eru á beit, bóndinn gengur til mjalta o.s.frv. Það þykir erlendum ferðamönnum forvitnilegt.

Leiðsögumaðurinn sagði líka aðra sögu. Hann sagði frá því að hann væri nýkominn úr ferð með hóp af frönskum ferðamönnum og hann hefði farið með þá austur á Skeiðarársand. Hann sagðist hafa selt þeim kvöldið áður hlut sem hann hafði aldrei selt fyrr. Hvað var það? Það var ekki neitt. Hann seldi þeim ekki neitt. Hvernig fór hann að því? Jú, hann bað rútubílstjórann að beygja út af veginum, keyra inn á sandinn, stöðva rútuna þar, drepa á henni og slökkva öll ljós. Svo gekk hann út með ferðamennina, út í myrkrið og þögnina, út í auðnina þar sem ekki var stingandi strá, ekkert líf, enginn fugl, bara vindurinn, tunglið, stjörnurnar á himinhvolfinu og svo auðnin allt í kring. Fyrir þessa erlendu ferðamenn var þetta stórkostleg upplifun, að fá að upplifa ekki neitt. Fyrir að fá að upplifa ekki neitt voru þessir ferðamenn reiðubúnir að greiða, bæði fyrir leiðsögn og aðra þjónustu, vegna þess að hin ósnortna náttúra, þögnin og það sem við getum kallað ekkert er að verða nokkuð sjaldgæft úti í hinum stóra heimi. Menn þurfa að leggja mikið á sig í Evrópu til að finna staði, ef þeir eru þá yfir höfuð til, staði sem til að mynda jafnast á við Skeiðarársand. Öræfi Íslands, ósnortin náttúra sem okkur kann að virðast hrjóstrug, nauðaómerkileg og jafnvel ljót, kann að vera stórmerkileg upplifun í augum erlendra gesta sem koma hingað til að heimsækja okkur.

Virðulegi forseti. Mér datt í hug að segja þessa litlu sögu auk þess að reyna að koma ýmsu öðru að. Ég ætla ekki að hafa mál mitt mikið lengra um þetta að sinni. Ég reikna með að þessi þingsályktunartillaga fari til umfjöllunar í þingnefnd, að einhverjar umsagnir komi um hana og hún verði vonandi afgreidd frá hinu háa Alþingi áður en þingi lýkur um miðjan maí.