131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

677. mál
[16:18]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er vissulega rétt hjá hv. þingmanni að þetta er lítið frumvarp en það er líka rétt hjá honum að þetta fjallar um stórt mál. Það er einmitt vegna þess sem fram kom hjá honum — hann vitnaði til skýrslunnar góðu um fiskmarkaðina þar sem fram komu mjög ólík sjónarmið um ýmsa þætti og annars staðar eru mjög fjölbreytilegar reglur um fiskmarkaði. Jafnframt eru reglugerðir sem hafa mikil áhrif á fiskmarkaðina eins og vigtarreglugerðin og eins og ég nefndi áðan lög og reglugerðir varðandi meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafla.

Vegna alls þessa er talið rétt að halda áfram því formi sem er í dag, að hafa um málið rammalöggjöf en þó þannig að almennar reglur gildi um alla starfsemina og alla markaðina, samræmdar en ekki reglur um einstaka markaði, og að leyfin séu ótímabundin en ekki bara til eins árs eins og er í dag. Sá háttur er hafður á til þess að geta tekið tillit til fjölbreytileikans og til þess að geta tekið tillit til þeirrar þróunar sem á sér stað. Ég held að þessi aðferð hafi í meginatriðum reynst ágætlega og að við eigum að halda henni áfram. Ég á von á því að markaðirnir muni halda áfram að þróast og það þarf að vera mögulegt að bregðast við því snögglega.