131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

677. mál
[16:20]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það sem vekur athygli mína er að ekkert í þessu frumvarpi, að því er ég best fæ séð, er um t.d. starfsemi eins og Íslandsmarkað sem vistar allar ábyrgðir og innheimtir fyrir markaðina. Kom til greina að löggjöfin næði að einhverju leyti yfir þvílíka starfsemi? Hefði ekki komið til greina að setja lög og reyna að ná yfir deilumál sem upp kunna að koma um starfsemi fiskmarkaða? Þá dettur mér í hug deilumál sem hafa komið upp og munu örugglega koma upp, sérstaklega á fjarskiptamarkaði þar sem verið er að bjóða upp óséðan afla. Er ekki rétt að koma þeim deilumálum í einhvern farveg? Hefur það verið skoðað af hæstv. ráðherra?

Enn fremur væri fróðlegt að fá stefnumörkun ráðherrans í þessum málum, hvort stefna stjórnvalda sé sú að koma afla í meira mæli þannig fyrir að allir eigi aðgang að því að bjóða í hann.

Það kom fram í riti frá upplýsingaþjónustu Alþingis að selt er úr landi beint úr gámum fyrir gríðarháar upphæðir, mig minnir á sjöunda milljarð. Þetta eru verðmæti sem væri án efa hægt að nýta eða koma til vinnslu í íslenskum fiskvinnslufyrirtækjum og þau yrðu enn meiri virðisauki ef íslensk fyrirtæki stæðu jafnfætis.

Í gær vorum við að fjalla um dúneftirlitsmenn þar sem átti að banna að senda dún óhreinsaðan úr landi. Við erum ekki að tala um það, við erum eingöngu að tala um að íslensk fyrirtæki geti staðið (Forseti hringir.) jafnfætis í því að bjóða í afla sem er tekinn á Íslandsmiðum.