131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

677. mál
[16:35]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér heyrist á hv. þingmanni að honum finnist skorta á að það séu ítarlegri heimildir í þessum lögum en þar eru. Ég held þó að lögin geri ráð fyrir að hægt sé að nálgast það sem hann er að tala um og setja um það reglur sem nái utan um þá starfsemi. Ég held einmitt að frumvarpið sé þannig úr garði gert að hægt sé að gera það og vísa þá sérstaklega til 5. gr. m.a. um gagnsæi viðskipta sem þar er nefnt.

Hins vegar getur vel verið að rétt sé að fylla eitthvað meira út í þetta, tiltaka fleiri hluti ef menn hafa sérstakar áhyggjur af þeim, en almennt held ég að skynsamlegast sé ef við höldum okkur við rammalöggjafarfyrirkomulagið og að tekið sé á flestum þeim atriðum sem nefnd hafa verið í reglugerð. Eins og fram hefur komið hafa þessir markaðir þróast mjög hratt og munu eflaust gera það áfram. Þess vegna þarf að vera um löggjöf að ræða sem getur brugðist við þeim breytingum.

Hv. þingmaður spurði sérstaklega um hvað liði vinnu með vigtarreglugerð. Henni miðar ágætlega áfram en er þó ekki lokið. Ég get ekki alveg séð fyrir hvort og hvenær hægt er að kynna hana fyrir sjávarútvegsnefnd.

Hins vegar er það enn þá von mín að frumvarpið og þær reglugerðir sem síðan mundu fylgja þeim lögum sem yrðu eftir samþykkt frumvarpsins gætu fylgst að við það að vigtarreglugerð yrði endanleg eða gerð hennar yrði endanlega lokið.

Hv. þingmaður spurði síðan um samstarfið við fiskmarkaðina. Við þá var haft samband og málið kynnt fyrir þeim. Síðan var haldinn fundur með fulltrúum þeirra, ég sat meðal annarra þann fund sjálfur og var ekki var við annað en þeir væru sáttir við það sem fram var lagt og þær athugasemdir sem þeir höfðu þar fram að færa. Ef ég man rétt var orðið við þeim.