131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

677. mál
[16:37]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg réttur skilningur hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra að ég mundi vilja sjá lagarammann aðeins ítarlegri en hér er, t.d. hvað varðar starfsemi miðlægs uppboðshaldara, eins og Íslandsmarkaðar, vegna þess að í 8. gr. segir að „leyfishafi skal hafa í þjónustu sinni a.m.k. einn starfsmann sem sér um framkvæmd uppboðs, uppboðsstjóra, og skal hann hafa löggildingu til starfans. Sjávarútvegsráðherra veitir löggildingu.“ Þetta þýðir einfaldlega að hver einasti leyfishafi verður þá að ráða til sín uppboðsstjóra og sá uppboðsstjóri verður að hafa löggildingu til starfans, jafnvel þó að fiskmarkaður í þessu tilviki geri samning við miðlægan uppboðshaldara, eins og Íslandsmarkað, um að sjá um framkvæmd uppboðsins, þá þarf þessi sami markaður eftir sem áður að ráða uppboðsstjóra eins og laganna hljóðan er þarna.

Í sambandi við skilgreiningarnar er kannski spurning hvort hæstv. ráðherra gæti í seinna andsvari farið aðeins yfir það hvað t.d. uppboðsmarkaður er og hvað er uppboðsstaður, því að tiltölulega þröngar skilgreiningar eru á því hvað uppboðsmarkaður er. Þar eiga aðilar að hafa tækifæri til að kynna sér ástand aflans á uppboðsstað og uppboðsstaður síðan skilgreindur sem staður þar sem aðilar geta kynnt sér afla sem seldur verður á uppboði.

Ég veit að hæstv. ráðherra þekkir það jafn vel og ég að á mörgum fiskmörkuðum á Íslandi í dag er aflinn ekki inni á gólfi nema í ákaflega litlum mæli. Aflinn er um borð í bátunum. Aflann er jafnvel, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, verið að draga um borð í bátana á þeim tíma sem hann er seldur. Spurning hvort þetta stífar skilgreiningar með þeim hætti sem þarna koma fram geti ekki orðið til vandræða og hamlað þróun fiskmarkaða, því að þróunin hefur verið geysilega ör og sem betur fer hefur tekist að þróa þessa starfsemi þrátt fyrir mjög þröngan og lítinn lagaramma.