131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Fyrirspurnir til ráðherra skv. 7. mgr. 49. gr. þingskapa.

[15:03]

Lára Stefánsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. samgönguráðherra að því hvort hann hyggist beita sér fyrir því að þeir sem eigi lénnöfn á internetinu án séríslenskra stafa geti nýtt sér sama lén með íslenskum stöfum.

Nú ber svo við að margir eiga lén sem gera má ráð fyrir að í væru íslenskir stafir en ekki hefur verið hægt að nýta vegna tækniörðugleika á netinu, eins og Morgunblaðið, RÚV, Reykjavík o.fl. eins og líka ég. Ég á lénið Lara.is og vildi gjarnan nýta Lára.is. Nú er þetta ekki hægt og sérstaklega rukkað fyrir það, og ekki nóg með það heldur er afnotagjald á hverju ári til framtíðar fyrir það að eiga bæði nöfnin. Því vil ég spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort hann vilji beita sér til þess að við getum notað bæði heitin á internetinu, þ.e. með íslenskum bókstöfum og án.