131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Fsp. 4.

[15:22]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það er eins og kom fram hjá hv. þingmanni mjög ánægjuleg þróun hvað varðar íslensk-norsku síldina. Hins vegar eru blikur á lofti, eins og hv. þingmenn vita, um það hvernig eigi að standa að stjórninni. Við höfum fylgst með þróun þessara mála, Hafrannsóknastofnunin fyrir hönd ráðuneytisins og okkar allra að sjálfsögðu. Þar verður auðvitað leitast við að sinna þeim rannsóknum sem taldar eru nauðsynlegar á hverjum tíma. Ekki hafa verið lagðar fram neinar sérstakar áætlanir sem hafa komið til minna kasta vegna þessa einmitt núna. Á sumrin er farið hefðbundið í leiðangra til að mæla og meta uppsjávarstofnana. Auðvitað er grunnurinn að þeim upplýsingum sem hér hafa komið fram þær rannsóknir sem hafa farið fram á undanförnum árum og eru í megindráttum í samræmi við það sem vísindamenn hafa átt von á.

Hvort getgátur Rögnvaldar Hannessonar munu reynast réttar, að hún gangi inn í íslensku landhelgina aftur, taki upp sitt fyrra göngumunstur og eyði meiri tíma hér við fæðuöflun en hún hefur gert að undanförnu og hversu mikið hún mun svo hafa vetursetu, er of snemmt að segja um. Við munum hins vegar fylgjast vel með þessu eins og kostur er á hverjum tíma.