131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Fsp. 4.

[15:24]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þessi svör ollu mér vonbrigðum. Ég hefði frekar viljað heyra einhver svör um að búið væri að ákveða að leggja sérstaka áherslu á þessar rannsóknir núna á næstu vikum og mánuðum, til að mynda með því að senda út hafrannsóknaskip til sérstakra leiðangra til að mæta síldinni og fylgjast síðan með henni, göngum hennar og útbreiðslu. Það er alveg ljóst að þessi gögn skipta höfuðmáli í allri okkar röksemdafærslu í sambandi við samningaviðræður við erlendar þjóðir. Við þurfum að bæta samningsstöðu okkar.

Við sáum það nýlega að Norðmenn voru að færa sig upp á skaftið og ætla sér nú að veiða allt að 65% hlutdeild úr þessum stofni, juku hana úr að mig minnir 55% þannig að núna fer í hönd ögurstund hvað varðar nýtingu á þessum stofni. Hér eru milljarða verðmæti í húfi fyrir okkur Íslendinga og þess vegna er mjög áríðandi, eins og ég segi, að við höfum allar klær úti til að afla okkur sem allra bestra gagna til að nota í samningaviðræðum.