131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[15:38]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér er komið til 3. umr. málefni er varðar Þróunarsjóð sjávarútvegsins og málefni honum tengd. Svo hagar til í þessu máli að um ráðstöfun á fjármunum og eignum Þróunarsjóðs sjávarútvegsins hefur verið samþykkt tillaga í hv. Alþingi. Á 125. löggjafarþingi var samþykkt þingsályktunartillaga um að m.a. þeim fjármunum sem voru til ráðstöfunar úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins skyldi að hluta varið til að varðveita gömul skip sem teldust til sögulegra minja miðað við staðhætti, útgerðarhætti og fiskveiðisögu landsmanna. Ef ég man rétt greiddu allir þingmenn sem þá voru staddir í þingsal tillögunni atkvæði. Hún var samþykkt samhljóða.

Málið sem hér er til lokaafgreiðslu gengur út á að allir þeir fjármunir sem verða til við lokauppgjör á Þróunarsjóði sjávarútvegsins gangi óskiptir til Hafrannsóknastofnunar. Ég geri ekki lítið úr því að Hafrannsóknastofnun þurfi fé til verkefna sinna. Ég styð að sjálfsögðu að megnið af þeim fjármunum sem í þróunarsjóðnum eru við lokauppgjör hans renni til hafrannsókna þótt ekki sé sérstaklega tilgreint að Hafrannsóknastofnun ein fái aðgang að því fé enda renni það til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins. Ég get út af fyrir sig stutt þá tillögu enda tel ég að slíkt fyrirkomulag tryggi að Hafrannsóknastofnun og aðrir vísindamenn sem áhuga hafa á að stunda rannsóknir geti sótt um fé til verkefnasjóðsins til rannsókna.

Á Alþingi hafa farið fram margvíslegar umræður um rannsóknir á lífríki sjávar, fisktegundum sem þar dvelja. Ég minnist m.a. umræðu um að sá frægi vatna- og sjávarfiskur laxinn yrði einnig rannsakaður í hafinu, svo hann sé nefndur til sögunnar. Vitanlega er unnið að ýmsum rannsóknum sem vert væri að nefna í umræðum um áherslur í hafrannsóknum á þeim breytingatímum sem nú eru í lífríkinu í Norðurhöfum. Fyrr á þessum fundi var minnst á breytilega göngu síldarinnar og því að ef til vill færu stærri göngur norsk-íslensku síldarinnar á íslenskt hafsvæði. Það er því af fjöldamörgu að taka, virðulegi forseti, í þeim efnum og skal ekki gert lítið úr því . Með þessari ræðu minni vil ég ekki gera lítið úr athugunum á þessu, hæstv. forseti.

Ég legg hins vegar áherslu á að í þessu máli hefur verið samþykkt sérstök þingsályktun um að hluta af fé þróunarsjóðsins verði varið til að varðveita eintök af gömlum skipum sem við teljum hafa verið merkilegan þátt í atvinnusköpun landsmanna og eru merkilegur þáttur í að varðveita söguna og sögugildið. Ég vek athygli á því að slík tillaga fór í gegnum Alþingi með miklum meiri hluta og var samhljóða samþykkt af Alþingi.

Ríkisstjórninni var falin framkvæmd tillögunnar og þó nokkrum sinnum hefur verið gengið eftir upplýsingum um hvað því verkefni líði. Því hefur verið svarað út og suður og ég man einna best er hæstv. forsætisráðherra svaraði því til í þessum ræðustól að verkefnið væri falið til úrlausnar menntamálaráðherra í samstarfi við sjávarútvegsráðherra. Hins vegar hefur ekkert gerst í þeim málum, þrátt fyrir mjög afgerandi niðurstöðu á þingi. Þróunarsjóðurinn fékk það hlutverk á ákveðnu tímaskeiði í sögu okkar að úrelda fiskiskip, ganga frá þeim til niðursögunar og brennslu. Stundum var full ástæða til slíks en stundum held ég að menn hafi farið offari í þeim aðgerðum.

En vissulega eru enn þá eftir nokkur eintök af hinum eldri tréskipum sem eðlilegt væri að varðveita. Því miður vorum við ekki svo heppin að eiga til þá framsýni að reyna að halda einu eintaki af gömlu síðutogurunum hér í landinu, hvorki þeim sem byggðir voru fyrir stríð eða nýsköpunartogurunum eftir stríð, til varðveislu. En það hefði vissulega verið verðugt verkefni í þessu sambandi.

Ég hef í umræðum um þessi mál, virðulegur forseti, stundum nefnt til sögunnar dæmi um skip eins og kútter Sigurfara á Akranesi, sem væri mjög þarft að taka til gagngerrar endurbyggingar til að halda við þeim minjum sem skipið er. Það verður ekki gert nema með verulegum fjármunum, eins og ástand þess er í dag. Ég hefði talið eðlilegt, þar sem það liggur fyrir, hygg ég, að það komi meiri fjármunir við uppgjör á Þróunarsjóðnum en menn höfðu gert ráð fyrir, að samþykkja þá tillögu sem minni hlutinn flutti við 2. umr. sem ég tek fyllilega undir, þ.e. að þótt tryggt sé að 400 millj. kr. renni til hafrannsókna geti ekki verið annað en ásættanleg fyrir hæstv. ráðherra, sérstaklega í ljósi áðurnefndrar niðurstöðu hv. Alþingis, að verja ákveðnum hluta af þeim fjármunum sem í sjóðnum eru til sameiginlegra verkefna við varðveislu skipa. Sú ákvörðun var meira að segja tekin áður en menn gerðu sér grein fyrir því að sjóðurinn yrði það öflugur að afgangurinn yrði upp á meira en 400 millj. kr.

Ég tel því að röksemdirnar séu algjörlega skotheldar að því leyti til að þegar Alþingi tók þessa ákvörðun á sínum tíma, með 49 samhljóða atkvæðum, var hún tekin miðað við lægri fjárhæðir við lokauppgjör sjóðsins en í dag. Það er því ekki hægt að halda því fram að svo litlir fjármunir séu eftir í þróunarsjóðnum við uppgjör hans nú að sérstök ástæða sé til þess að líta svo á að Alþingi hafi ekki á sínum tíma áttað sig á því hvaða skuldbindingar það væri að leggja upp með með samþykktum sínum, en vissulega er ætlast til þess að framkvæmdarvaldið fari eftir samþykktum Alþingis. Ég hef viljað skilja stjórnskipunina þannig að Alþingi setji lögin og lýsi vilja sínum og síðan sé það framkvæmdarvaldsins að framkvæma það eftir bestu getu.

Í þessu máli hagar því þannig til að það er ekkert því til vandræða að framkvæma málið. Ráðherra getur gert það með fullum sóma og þeir þingmenn sem studdu málið á Alþingi á sínum tíma og styðja væntanlega enn því ekkert efnislegt hefur breyst til að breyta sannfæringu þeirra. Rökin fara öll í hina áttina að sannfæring þeirra hafi verið algjörlega rétt og rökrétt. Það ætti því að geta verið sátt um að afgreiða málið með þeim hætti sem breytingartillagan gengur út á, að tryggja 400 millj. til hafrannsókna og að það sem yrði umfram yrði notað í þau verkefni sem við höfum rætt um varðandi varðveislu sögulegra minja, eldri skipa, sögulegra útgerðarhátta eða merkrar sögu sem þeim tengjast.

Við höfum vissulega ekki valið þann kostinn, Íslendingar, að varðveita hverja einustu fleytu, enda væri það óðs manns æði. En við höfum reynt að varðveita einstök eintök af skipum sem byggð hafa verið, bæði miðað við landsvæði og útgerðarháttasögu og eins miðað við tímabil í útgerðarsögu okkar Íslendinga. Dæmin eru auðvitað þekkt um varðveislu skipa vítt og breitt um landið í verstöðvum. Nefna má Vestmannaeyjar, Patreksfjörð, Ísafjörð, staði á Norðurlandi, Austfjörðum og Snæfellsnesi, að ógleymdu Akranesi.

Allt er þetta í þá veru að við erum að tryggja að hluti sögunnar sé til staðar sem sýningargripur og að gera megi söguna meira lifandi en ella, sýna hvernig við stunduðum þennan atvinnuveg á árum áður og hvaða skip og tæki við notuðum til að byggja upp þetta þjóðfélag okkar, rífa það upp úr fátækt fyrri alda til þess nútíma sem við lifum í.

Þetta held ég að allir hugsandi menn og góðviljaðir hljóti að sjá. Við tölum jafnframt um að við ætlum að byggja hér upp ferðamannaþjónustu, auka hana mjög mikið, og stefnum á milljón ferðamenn hingað á ári innan tíu ára. Við ætlum væntanlega að selja þeim sögu okkar eða kynna hana, bæði menningartengda og atvinnutengda, en menning og atvinnuhættir þjóðarinnar fara auðvitað saman.

Ég lít svo á að sá vilji sem birst hefur í Alþingi á undanförnum árum um að ástæða sé til að stuðla að aukinni ferðaþjónustu í landinu og efla söguþekkingu, menningarþekkingu og staðháttaþekkingu til að geta kynnt hana og veitt aðgang að henni þeim sem vildu heimsækja okkur, að hluti af því sé að koma í veg fyrir að of mikið af fiskiskipum landsmanna sé eytt.

Sum verkefni í þá veru eru fjármagnsfrekari en önnur. Ég hef nefnt eitt verkefni á Akranesi. Vissulega eru fleiri verkefni sem takast þarf á við. Við höfum verið að byggja upp söfn eins og Síldarminjasafnið á Siglufirði þar sem varðveitt eru gömul skip og við höfum reynt að efla byggðasöfnin á landinu. Þar höfum við líka reynt að varðveita gömul skip sem hluta af sögunni. Allt hnígur þetta því í sömu átt, að full ástæða er til að reyna að tryggja fjármuni til þessa. Við höfum horft á samþykkt tillögunnar í fimm ár án þess að því hafi fylgt bein aðgerð að reyna að framkvæma hana, þó vissulega hafi á fjárlögum hvers árs verið annað slagið settir inn nokkrir fjármunir í að byggja upp skip, oft minni skip og árabáta, sem bjargað hefur verið frá algjörri niðurníðslu og því að ónýtast algjörlega. Það er vissulega þakkarvert.

Ég held að gott sé að snúa því hlutverki sem þróunarsjóðurinn fékk á sínum tíma, að úrelda flotann, við og varðveita þau fáu eintök sem við eigum eftir af vertíðarflotanum og tréskipum mörgum hverjum, því eins og við vitum er samsetning flotans að breytast og mun sjálfsagt lítið verða smíðað af tréskipum í framtíðinni, ef nokkurt, til þeirra fyrri hátta að sækja sjó sem atvinnu og fiskveiðar.

Þess vegna, virðulegur forseti, lýsi ég stuðningi mínum við þá tillögu sem hv. þm. Jón Gunnarsson og hv. þm. Jóhann Ársælsson fluttu við 2. umr. málsins og var dregin aftur til 3. ef ég veit rétt.

(Forseti (HBl): Á hv. þingmaður mikið eftir af ræðu sinni?)

Já, þó nokkuð.

(Forseti (HBl): Þá verður fundi nú frestað og fram haldið klukkan fjögur.)