131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Sala Símans, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:12]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þetta mál ber allt saman mikinn blæ af hrossakaupum og baktjaldamakki, og ræða hæstv. forsætisráðherra svaraði færri spurningum en hún vakti.

Ég spyr t.d.: Hvað veldur þessu flókna kerfi um eignarhald á þeim hópi sem má kaupa Landssímann? Af hverju þurfa það endilega að vera a.m.k. þrír aðilar sem kaupa Símann? Er svarið kannski það að með þessu er verið að hámarka líkurnar á því að ýmis vildarfyrirtæki sem standa í skjóli ríkisstjórnarinnar komist að kjötkötlunum?

Ég spyr líka, herra forseti: Hvernig stendur á því að ef það á á endanum að selja 30% til almennra borgara í landinu, af hverju má ekki selja þau strax og leyfa þá almennum borgurum hugsanlega að hagnast á þessu eða a.m.k. taka áhættuna?

Þessum spurningum hefði þurft að svara í þessari ræðu en það var ekki gert. Það vakti eftirtekt mína, herra forseti, að hæstv. forsætisráðherra eyddi töluverðum tíma af upphafi ræðu sinnar til að verja það að Framsóknarflokkurinn hefur fallið frá því að skilja grunnnetið frá Símanum áður en hann verður seldur.

Hæstv. forsætisráðherra varði það með tveimur röksemdum.

Í fyrsta lagi sagði hann að ríkisstjórnin hefði lagst gegn því á þeirri forsendu að það hefði hvergi verið gert í allri Evrópu. Það er rétt hjá hæstv. forsætisráðherra, en mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því um aldamót þegar verið var að einkavæða símafyrirtækin stóru. Staðreyndin er sú að reynslan í Evrópu hefur sýnt að þetta var rangt. Í vaxandi mæli eru menn að komast að þeirri niðurstöðu að það hafi verið rangt að skilja ekki grunnnetin frá ríkissímafyrirtækjunum áður en þau voru sett á markaði.

Nýlega lagði framkvæmdastjórn Evrópu t.d. fram skýrslu þar sem bent var á að ofurtök þessara gömlu fyrirtækja sem búið er að einkavæða á fjarskiptamarkaði Evrópu stafa einmitt af því að þau hafa þessi sterku tök í gegnum grunnnetið. Má ég rifja það upp fyrir hæstv. forsætisráðherra að breska fjarskiptastofnunin er nákvæmlega núna þessa dagana að sýna fram á það að British Telecom hafi gríðarlega sterk tök sem stappa nærri einokun á breska fjarskiptamarkaðnum vegna þess að grunnnetið var ekki skilið frá? Breska fjarskiptastofnunin er einmitt að velta því upp þessa dagana að ef byttu verði ekki skotið undir þennan leka og gerð bragarbót á muni stofnunin leggja til að British Telecom verði skipt upp.

En þá er það íslenska ríkisstjórnin, sem getur notfært sér reynslu Evrópuþjóðanna, sem fellur í sömu gryfjuna. Hún er að gera sömu mistökin aftur. Hvers vegna? Vegna þess auðvitað að fyrirtækin sem ætla sér að kaupa Símann þurfa þessi ofurtök til að græða sem mest. Svo kemur hæstv. forsætisráðherra og vísar í nýlegan úrskurð framkvæmdastjórnar Evrópu gagnvart sænska ríkinu.

Hafi ég skilið hæstv. ráðherra rétt fór hann ekki alveg rétt með. Framsóknarflokkurinn, m.a. aðstoðarmaður forsætisráðherra, hefur borið því við og mér heyrðist hæstv. ráðherra gera það líka að það sé óheimilt að hafa grunnnetsfyrirtæki í ríkiseigu að EES-rétti og vísar til þessa máls framkvæmdastjórnar gagnvart Svíþjóð í þessu sambandi. Hið rétta er að það er óheimilt að veita ríkisfyrirtæki, eða öðru fyrirtæki ef því er að skipta, einkarétt á því að veita fjarskiptaþjónustu eða grunnnetsþjónustu. Það er ekki hægt að vísa í þennan úrskurð, virðulegi forseti.

Það hefur verið algert skilyrði okkar í Samfylkingunni að Síminn verði ekki seldur nema grunnnetið verði skilið frá. Við erum þeirrar skoðunar að grunnnetið sé eins og þjóðvegakerfið sem allir eiga að komast inn á og að engar tæknilegar hindranir eigi að verða á vegi þeirra sem vilja nota það. Ríkisstjórnin ætlar sér greinilega að selja grunnnetið. Það er búið að beygja Framsóknarflokkinn og það er að okkar mati fullkomið klúður sem í þessu felst, bæði þegar horft er til hagsmuna neytenda og líka markaðarins í heild.

Við teljum að sala Símans í heilu lagi með grunnnetinu sé í andstöðu við hagsmuni almennings. Hún er sérstaklega andstæð landsbyggðinni og hún viðheldur þeirri gríðarlegu samkeppnisskekkju sem er einkenni fjarskiptamarkaðarins í dag vegna þess hreðjataks sem Landssíminn hefur á markaðnum. Aðferð ríkisstjórnarinnar vinnur þess vegna gegn heilbrigðri samkeppni. Ég fæ með engu móti skilið, herra forseti, að ríkisstjórnin skuli á því herrans ári 2005 fara þessa leið og læra ekki af reynslu annarra þjóða. Hvers vegna horfa menn ekki til reynslu Breta? Hér er maðkur í mysunni.

Ég vil líka segja það að þingið hefur ekki lengur neina aðkomu að þessu máli. Ríkisstjórnin getur tekið þessa ákvörðun en mér finnst að það sé í nafni þingræðis og lýðræðis algjör frumkrafa af okkar hálfu sem sitjum á þinginu að áður en lokaákvörðun verði tekin verði þetta mál kynnt fagnefndum þingsins í sumar þegar á að leiða það til lykta.

Herra forseti. Við í Samfylkingunni styðjum samkeppni og við styðjum jöfn tækifæri allra fyrirtækja á markaði. Þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar um sölu grunnnetsins vinnur gegn þeim markmiðum. Það er einfaldlega algjörlega óeðlilegt að fjarskiptafyrirtæki, stór eða lítil, þurfi að semja við sinn helsta keppinaut, og það er það sem þetta mál snýst ekki síst um.