131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Sala Símans, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:35]

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefur gert Alþingi grein fyrir tillögum um framkvæmd sölu hlutabréfa ríkisins í Landssímanum og ég vil nota tækifærið og þakka hæstv. ráðherra fyrir það. Eins og við vitum öll hefur staðið lengi til að þessi sala færi fram, í mörg ár, hún hefur verið ítarlega undirbúin og birtist m.a. árangur þess í þeim tillögum sem hér hafa verið kynntar. Allt er þetta í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því að hún endurnýjaði samstarf sitt eftir síðustu alþingiskosningar og einnig vil ég nefna það að þetta er í samræmi við stefnu Framsóknarflokksins eins og hún birtist í nýsamþykktum ályktunum flokksþings.

En þetta mál er auðvitað þannig að það er eðlilegt að um það séu skiptar skoðanir og að sjálfsögðu ber að virða skoðanir manna í því. Þetta er stórt mál, nær yfir vítt svið og skiptir nánast alla Íslendinga einhverju máli.

Ég tel full rök fyrir því að ríkið selji hlutabréf sín í Símanum til einkaaðila. Síminn er í mikilli samkeppni á fjarskiptamarkaði við einkarekin fyrirtæki, ekki aðeins á íslenskum markaði heldur alþjóðlegum líka. Ég tel mjög óeðlilegt að ríkið standi í slíkum samkeppnisrekstri þar sem svo mikil og vaxandi samkeppni á sér stað á þeim markaði sem þetta fyrirtæki starfar á. Svo vitum við auðvitað öll að í nánast öllum ríkjum hafa ríkisstjórnir gengið í það að selja símafyrirtæki sín einkaaðilum.

Í umræðunni um sölu Símans hefur mest farið fyrir skiptum skoðunum um svokallað grunnnet, hvort eigi að skilja það frá við söluna eða ekki. Mér finnst og hefur fundist mjög margt óljóst í þessari umræðu af hálfu þeirra sem hafa viljað fara þá leið að skilja grunnnetið frá. Svo að ég nefni dæmi um það: Hvað eru menn að tala um þegar þeir tala um grunnnet? Hvað er grunnnetið? Í þessari umræðu hefur að mínu mati ekki komið fram skýr skýring á því. Menn tala um að ríkið eigi að eiga grunnnetið og reka það áfram. Ég verð að segja að mér finnst það fyrir mína parta ekki skynsamleg tillaga. Það hefur líka komið fram í umræðunni að menn telji hagsmunum landsbyggðarinnar best borgið með því að skilja grunnnetið frá og að ríkið reki það áfram. Gott og vel, það eru skoðanir manna og allt gott með það en ég tel að hagsmunum landsbyggðarinnar verði betur borgið með því að fara í þessa sölu með þeim hætti sem hér er lagt upp með, þ.e. að Síminn reki þetta fjarskiptanet áfram eins og nú er og hefur verið.

Síminn hefur verið þekktur fyrir það, ekki bara á Íslandi heldur í alþjóðlegu samstarfi fyrirtækja á þessu sviði, að vera mjög framarlega í allri tækniþróun og vera mjög fljótur að tileinka sér nýja tækni. Ég tel fulla ástæðu til að reikna með því að svo verði áfram. Síminn hefur verið með mjög hagstæða gjaldskrá fyrir neytendur hér á Íslandi og ég tel enga ástæðu til að ætla annað en að svo verði áfram. Öryggi í fjarskiptanetinu og aðgangurinn að því hefur verið mjög góður, ekki síst ef tekið er mið af fjarskiptamarkaði í öðrum löndum. Hæstv. forseti, ég tel að ekki hafi komið fram nægilega veigamikil rök fyrir því að það eigi að fara í að skilja grunnnetið frá.

Hér hefur komið fram að fjarskiptasjóður verði stofnaður sem stuðli að uppbyggingu fjarskiptaþjónustunnar. Það er vel, það er í fullu samræmi við áherslur okkar framsóknarmanna í þessu máli og ég lýsi sérstakri ánægju með að sú niðurstaða liggi hér fyrir.