131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Sala Símans, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:39]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir þau sjónarmið sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson setti fram áðan þar sem hann fór yfir sjónarmið okkar í Samfylkingunni hvað þessa sölu varðar. Ég tek einnig undir með honum hvað það dæmi varðar sem hæstv. forsætisráðherra tók í upphafi máls síns frá Svíþjóð, það á engan veginn við hér á landi eða gagnvart þeim hugmyndum sem menn hafa hér sett fram.

Hins vegar finnst mér í þessu samhengi vert að reyna að átta sig á því hvaða aðferðafræði eigi að beita við sölu á bréfum í eigu ríkisins í þetta skiptið. Það er afar athyglisvert hvernig menn setja kaupendahópinn saman. Það er ljóst að þarna getur orðið um þrjá aðila að ræða sem geta náð saman um kaup á Símanum. Það er ljóst að fyrirtækið á að vera íslenskt og skráð hér og ákvæði er þess efnis að selja skuli almenningi 30% innan tveggja ára eða svo.

Þessi skilyrði virðast vera heimatilbúin og sérsaumuð og virðast hafa það markmið að útiloka útlendinga frá því að kaupa Símann. Það er varla hægt að skilja þessi markmið á annan hátt. Auðvitað vaknar spurningin: Af hverju er almenningi ekki gefinn kostur á því að kaupa strax? Af hverju má almenningur ekki njóta gengishagnaðar af þessu? Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þessi kvöð sé ekki komin frá Morgan Stanley, hún kemur einhvers staðar annars staðar frá.

Virðulegi forseti. Tortryggni og grunsemdir ríkja í garð ríkisstjórnarinnar í þessu máli, að málinu sé handstýrt að ofan og að ætlunin sé að selja Símann vildarvinum ríkisstjórnarinnar. Sporin hræða. Í dag er í gangi málarekstur gagnvart Íslenskum aðalverktökum og sölunni á þeim bréfum á sínum tíma og menn horfa til þess að Landsbankinn var á sínum tíma knúinn til að selja bréf sín í VÍS og þá voru þau seld Keri, forustufélagi í S-hópnum, nánar tiltekið í ágúst 2002. Ker seldi bréfin aftur 10 vikum síðar með góðum hagnaði, þ.e. 1,1 milljarðs hagnaði.

Þá er samantekt tímaritsins Frjálsrar verslunar frá í desember 2002 afar athyglisverð. Þar kemur fram að félag í eigu Fiskiðjunnar Skagfirðings og Skinneyjar – Þinganess hafi haft frumkvæði og völd í S-hópnum svokallaða á þessum tíma vegna stöðu sinnar í Keri hf. meðan viðræður voru í gangi um kaup hópsins á 45,8% hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Þau seldu svo sinn hlut í Keri hf. með 700 millj. kr. hagnaði daginn áður en samkomulag ríkisstjórnarinnar og S-hópsins var gert að því er tímaritið Frjáls verslun greinir frá. Daginn eftir var hin fræga fréttamynd tekin af fyrrverandi varaformanni Framsóknarflokksins þar sem talað var um að hann æki á brott með Búnaðarbankann í skottinu.

Allir vita að það eru órofa tengsl milli Framsóknarflokksins og ýmissa viðskiptahópa. Engar lagareglur eru í gildi um störf einkavæðingarnefndar. Samkvæmt opinberum upplýsingum virðast undarlegir hlutir hafa átt sér stað varðandi einkavæðingu Búnaðarbankans. Í viðskiptalífinu er uppi þrálátur og sterkur orðrómur um að búið sé að ákveða fyrir fram hverjir eigi að fá að kaupa Símann. Þegar til viðbótar bætast ófrávíkjanleg og fráleit skilyrði sem bera keim af því að þau séu teiknuð upp til að koma verðmætum til vildarvina ríkisstjórnarinnar, og kannski ekki síst Framsóknarflokksins, er ekki óeðlilegt að menn velti því fyrir sér á þessum tímapunkti hvort við munum aftur sjá sambærilega fréttamynd þar sem fyrrverandi varaformaður Framsóknarflokksins keyrir burt með Símann í skottinu.