131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Sala Símans, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:47]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Mikilvægi fjarskiptanetsins er eins og vegakerfisins. Það tengir landsmenn saman, skapar grundvöll fyrir hin fjölbreyttu samskipti sem er grunnur jafnræðis í búsetu og atvinnurekstri um allt land.

Ég tel að vel væri hægt að hugsa sér hliðstæða skipan með fjarskiptanetið. Það yrði öflugt flutningskerfi sem allir gætu nýtt sér á jafnréttisgrunni. Vegagerðin fer t.d. með uppbyggingu og viðhald þjónustu við vegakerfið ásamt sveitarfélögunum. Væri ekki tilvalið að koma á hliðstæðri skipan með fjarskiptum?

Við markaðsvæðingu raforkukerfisins var þó valið að hafa eitt flutningsnet, Landsnet raforku, og allir raforkuframleiðendur hafa þar aðgang.

Það er ekki eins og Síminn sé einhver rekstrarlegur baggi á ríkinu sem brýnt sé að losna við. Hagnaður af rekstri Landssímans í fyrra nam rúmum 3 milljörðum kr. og var það nærri milljarði kr. meiri hagnaður en árið áður. Athugið að þegar búið er að selja Landssímann kemur sá arður ekki inn í ríkissjóð. Og þegar verið er að guma af því að stofna eigi sjóð upp á 900 millj. kr. til að styrkja fjarskiptakerfið úti um land, svona ölmususjóð, fara þeir 3 milljarðar sem koma árlega í ríkissjóð út og eru ekki með. Sú nettóniðurstaða er því neikvæð. Þetta er því verulegur blekkingarmálflutningur sem hér er á ferðinni um að skapast muni aukið fé í ríkissjóð við að selja Landssímann og tapa arðinum. Arðurinn sem kemur nú af Landssímanum árlega mundi kannski greiða Landssímann upp á 10–15 árum. Hvers konar búskapur er þetta? Enginn bóndi í landinu mundi bera virðingu fyrir þeim sem seldi bestu mjólkurkúna sína með þessum hætti og ég held að bændur landsins beri litla virðingu fyrir þessum ákvörðunum ríkisstjórnarinnar.

Fyrirhuguð sala Landssímans er afar umdeild í þjóðfélaginu svo vægt sé til orða tekið. Skoðanakannanir hafa hvað eftir annað sýnt að meiri hluti landsmanna er andvígur sölu Landssímans með grunnnetinu. Þannig lýsti 61% svarenda andstöðu við söluna í Gallup-könnun sem gerð var í mars árið 2002. Í könnun sem félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði í febrúar 2005 kváðust rúm 70% vera andvíg sölu Landssímans með grunnnetinu. Ekki var mikill munur á afstöðu fólks eftir því hvort það var búsett á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni.

Í þjóðarpúlsi Gallup sem kynntur var í mars 2005, nú nýverið, var afgerandi meiri hluti aðspurðra andvígur sölu Símans og 76% voru andvíg sölu Símans með grunnnetinu. Hver skoðanakönnun á fætur annarri sýnir því vaxandi andstöðu samfélagsins gegn sölu Símans.

Einkavæðingarnefnd vinnur að sölu fyrirtækisins á vegum ríkisstjórnarinnar, héldum við þangað til við sáum í blöðunum nýverið að einkavæðingarnefnd gerir ekki neitt. Nei, það er handsal á milli Halldórs og Davíðs. Hvað var einkavæðingarnefndinni borgað fyrir að gera ekki neitt? Hvað var Morgan Stanley borgað fyrir að gera ekki neitt? Málin ráðast hér.

Því höfum við, frú forseti, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, lagt til að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um sölu Símans. (Gripið fram í: Hvað segir Morgan við því?) Morgan segir sennilega lítið við því, en við gætum kannski handsalað við Davíð og Halldór, hæstv. ráðherra, að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um sölu Símans eins og meiri hluti þjóðarinnar vill. Þá fáum við botn í það hver afstaða þjóðarinnar er (Forseti hringir.) og ríkisstjórnin verður bundin af henni. Þess vegna flytjum við, frú forseti, tillögu um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um sölu Símans.