131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Sala Símans, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:52]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Frú forseti. Ríkisstjórn Íslands hefur í hyggju að selja Landssíma Íslands hf. og um leið tryggja óheilbrigða samkeppni á markaði. Samkeppnin verður takmörkuð að því leyti að ríkisstjórnin hyggst einkavæða grunnnetsrekstur Landssíma Íslands hf. með fyrirtækinu og um leið tryggja nýju fyrirtæki á markaði einokunaraðstöðu á grunnnetssviði. Það er með ólíkindum að ríkisstjórn Íslands skuli ekki nota tækifærið og tryggja heilbrigða samkeppni á markaði með því að aðskilja grunnnetið frá fyrirtækinu og selja fyrirtækið án grunnnetsins.

Frú forseti. Hvert er söluandvirði grunnetsins á markaði nú og hversu hátt hlutfall er það talið vera af söluandvirði Landssíma Íslands hf.?

Engin haldbær svör hafa komið fram um þetta og engin rök hafa komið fram um að ógerlegt sé fyrir ríkið að selja fyrirtækið án grunnetsins. Svo virðist sem engar tæknilegar hindranir komi í veg fyrir aðskilnað grunnnetsins frá félaginu. Mér vitandi hefur engin vinna farið fram um hversu miklar tekjur ríkissjóður gæti haft af ríkisveitufyrirtæki sem annaðist rekstur og seldi aðgang til fyrirtækja að grunnnetinu.

Í umræðunni hefur margsinnis verið rætt um grunnnetskerfi Landssíma Íslands hf. Ég tel rétt að fólkið í landinu upplýsist betur um grunnnetið, úr hverju það er og hvaða hlutverki það gegnir. Einfalda hluti má misskilja og hætt er við að ryki sé kastað í augu almennings þegar jafnviðamikið hagsmunamál er til umfjöllunar í þjóðfélaginu.

Í fyrsta lagi má nefna koparnetið eða allar heimtaugar og leigulínur sem tengjast beint í hús til notanda. Þá kemur að ljósleiðaranetinu, en það er kerfið umhverfis landið og í þriðja lagi er svokallað SDH-net, en þar er um að ræða fjölrásakerfið sem byggt er ofan á kopar- og ljósleiðaranetið.

Fyrirtæki sem vilja veita almenna talsímaþjónustu eða ADSL-þjónustu verða að ráða yfir aðgangi að heimtaug til notandans með einum eða öðrum hætti. Hér á landi er einungis um eitt heildstætt grunnnet að ræða. Það er enginn annar kostur í stöðunni. Víða annars staðar eru fleiri kostir í stöðunni, m.a. í Benelux-ríkjunum. Uppbygging á nýju neti kostar óheyrilega mikið fjármagn en þess má geta að við skattborgarar greiddum fyrir grunnnetið eins og það liggur fyrir í dag. Því má segja að ef Landssími Íslands hf. fer á markað með grunnnetinu muni einokunarstaða fyrirtækisins ekkert breytast.

Frú forseti. Það hlýtur að vera okkur Íslendingum mikilvægt að eitt fyrirtæki á markaði skuli ekki vera ráðandi um gjaldtöku fyrir aðgangi að grunnnetinu og þar með almennri símaþjónustu í landinu. Við kappkostum þessa dagana við að upplýsa og uppræta hvert samráðið á fætur öðru í markaðsþjóðfélagi okkar. Það væri því mikil afturför hjá íslenskri þjóð að ýta undir tilveru fyrirtækis með einokunaraðstöðu á markaði. Ef einkavæða á Landssíma Íslands hf. verður sú einkavæðing að vera háð því skilyrði að fyrirtækinu verði skipt upp og grunnlínukerfi fjarskipta á Íslandi tilheyri áfram íslensku þjóðinni.

Frú forseti. Það er umhugsunarefni fyrir lífeyrissjóðina sem eru í eigu fólksins í landinu að stofna sérstakt félag með þjóðinni með það að markmiði að kaupa félagið frá ríkissjóði Íslands. Sú leið væri mér betur að skapi en nokkurn tímann að afhenda félagið ráðandi peningaöflum í þjóðfélaginu sem fyrst og síðast hugsa um eigin hag, en ekki hag almennings í landinu.