131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[17:00]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (frh.):

Hæstv. forseti. Ég vék að því í ræðu minni áðan að þróunarsjóðurinn hefði haft það verkefni á sínum tíma að úrelda fiskiskip og því væri það verðugt verkefni fyrir sjóðinn, sem reyndar var samþykkt á hv. Alþingi með samhljóða atkvæðum þingmanna fyrir u.þ.b. fimm árum, að hluti fjármuna hans færi í að varðveita brot af fiskiskipaflotanum sem til minja og varðveislu á atvinnusögu okkar mætti telja. Hef ég m.a. minnt á nokkur söfn og nokkur þeirra skipa sem varðveitt hafa verið hér á landi. Því til viðbótar er einnig rétt að nefna að sem betur fer eru enn nokkur af þessum eldri skipum í notkun og á floti. Sumum þeirra hafa verið fengin ný og verðug verkefni. Má þar t.d. nefna útgerð á Húsavík fyrir hvalaskoðun þar sem gerðir hafa verið upp eldri trébátar sem sérstaklega eru nýttir til að sýna ferðamönnum lífríki sjávar, hvali og annað sem lífríkið hefur upp á að bjóða. Hefur það gefist vel og verið mikil þátttaka í þeim ferðum og því sem boðið hefur verið upp á.

Það er auðvitað ekki aðeins á Húsavík sem slíkt hefur verið gert, það hefur einnig verið gert í Hafnarfirði og á fleiri stöðum í landinu að nýta gömul skip til slíkra verkefna og er það vel. Það er sjálfsagt að reyna að koma að því að styrkja slík verkefni í byrjun meðan verið er að koma þeim rekstri sem skipin geta nýst til á þann rekspöl að vel megi duga til framtíðar. Þannig mætti bæði finna eldri skipum ný verkefni og einnig varðveita söguna. Ég held að það sé mjög vel til fundið og sé eitt af þeim verkefnum sem við getum litið til þegar við tölum um að fjármuni vanti til þess að nýta eldri skip og sögulegar minjar í skipum sem ástæða væri til að varðveita.

Því miður er það svo, virðulegi forseti, að við urðum fyrir miklum skaða hvað varðar varðveislu sögunnar þegar bruni varð í Þjóðminjasafninu þar sem safnið missti stóran hluta af bátasafni sínu sem snýr að róðrabátum og smærri skipum sem safnið hafði talið sérstaka ástæðu til að varðveita. Er því enn meiri ástæða til að reyna að gera vel í því sem við getum verið sammála um að sé til að varðveita söguna og málinu til framdráttar að öllu leyti í framtíðinni sögulega og atvinnulega séð.

Þess vegna held ég að sú tillaga sem hv. Alþingi samþykkti á sínum tíma og 49 þingmenn greiddu samhljóða atkvæði eigi fullan rétt á sér. Ég tel að hæstv. sjávarútvegsráðherra og aðrir stjórnarliðar væru menn að meiri ef þeir staðfestu þann vilja sinn sem fram kom í sölum Alþingis þegar þingsályktun um að þróunarsjóðurinn fengi m.a. hlutverk í þessu efni með fjármunum sem yrðu eftir við uppgjör hans var samþykkt, og samþykktu þá breytingartillögu sem flutt er af minni hlutanum í sjávarútvegsnefnd um að marka fjármuni til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins þar sem menn geta sótt um til hafrannsókna.

Þó að meginhluti fjárins renni til Hafrannsóknastofnunar er samt eitthvað af fjármununum ætlað til annarra verkefna. Undir það tek ég og held að það sé eðlilegt og skynsamlegt sjónarmið að setja málið upp með þeim hætti og fagna því að það skuli þó vera niðurstaða um það hjá meiri hlutanum.

Hæstv. forseti. Ég ætla að enda ræðu mína á að lýsa því yfir að ég yrði mjög undrandi ef sú niðurstaða birtist í atkvæðagreiðslunni á hv. Alþingi að sömu þingmenn og greiddu tillögunni atkvæði fyrir fimm árum, þegar talað var um lægri fjárhæðir í þróunarsjóðnum en nú eru til staðar, legðust gegn þeirri breytingartillögu sem minni hlutinn flytur sem tryggir það fjármagn sem menn töldu að fara ætti til hafrannsókna og væri eign sjóðsins, þegar eign sjóðsins nú er meiri og auðvelt að verða við þeirri stefnumótun sem Alþingi samþykkti þá um varðveislu eldri skipa og sögu þeirra. Ég yrði afar undrandi ef þingmenn greiddu ekki slíkri tillögu atkvæði með hliðsjón af því að þeir studdu málið áður þegar fjárhagurinn var þrengri og málið jafnvel erfiðara viðfangs en nú er.

Ég held að hæstv. sjávarútvegsráðherra væri maður að meiri ef hann gengi fram fyrir skjöldu í þessu máli og féllist á að fara með málið með þeim hætti sem minni hlutinn leggur til í sérstakri breytingartillögu, og gengist fyrir því að málinu yrði lent með sátt og fullum sóma, af því að Alþingi væri þá að framkvæma samþykktir sínar og fylgja eftir stefnumótun sinni, að framkvæmdarvaldið féllist á það en beitti ekki í raun og veru ofríki með því að ganga yfir samþykktir Alþingis eins og núna stefnir í.