131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[17:09]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson fór nánast yfir það hvernig þetta mál bar að. Það er hárrétt að fyrst kom fram frumvarp sem við fluttum, þingmenn að mig minnir bara úr öllum flokkum, ég skal þó ekki fullyrða að það hafi náðst samstaða í öllum flokkum, um að sett yrðu lög um að ákveðið fjármagn úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins rynni til gamalla skipa. Umræða fór fram og málinu var vísað til sjávarútvegsnefndar. Niðurstaðan í sjávarútvegsnefnd varð sú að í stað þess að afgreiða frumvarpið samþykkti nefndin í heild sinni að frumkvæði þáverandi formanns, Kristins H. Gunnarssonar, að leggja fram þingsályktunartillögu sem nefndin flytti og þáverandi formaður sjávarútvegsnefndar mælti fyrir, um að fjárveitingar yrðu fengnar úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins til þess að varðveita gömul skip og styrkja m.a. byggðasöfnin út um landið og Þjóðminjasafnið til að viðhalda þeirri sögulegu hefð sem við eigum í skipum og skipasmíði og atvinnuháttum.

Tillagan var lögð fram í þinginu og var samþykkt þar sem þingsályktun frá sjávarútvegsnefnd og var meiri hlutinn sammála minni hlutanum. Þáverandi formaður sjávarútvegsnefndar, Kristinn H. Gunnarsson, mælti fyrir tillögunni og hún var samþykkt með 49 atkvæðum sem ályktun Alþingis um að hluti af fjármunum Þróunarsjóðs sjávarútvegsins yrði beinlínis notaður í þetta verkefni. Þannig var ferill málsins og við vorum út af fyrir sig algerlega sáttir við að ljúka því þannig og töldum að málið væri í góðum farvegi og um það yrði leitað sátta og réttrar meðferðar af hálfu forustumanna ríkisstjórnarinnar.