131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[17:14]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er algjörlega réttur skilningur hjá hv. þingmanni að stefnumótunin var afar skýr og það var beinlínis tilgreint að fé skyldi renna til þessara verkefna úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins.

Til viðbótar því sem áður hefur komið fram í umræðunni er rétt að upplýsa að þrisvar að mig minnir hefur verið spurt um meðferð þessa máls. Í eitt skiptið svaraði hæstv. forsætisráðherra fyrir málið vegna þess að þá beindust spurningarnar til hans um hvernig fylgt væri eftir samþykktum þingsins almennt.

Þar kom fram að málið væri falið menntamálaráðherra og ætlast til að sjávarútvegsráðherra og menntamálaráðherra fyndu lausn á málinu sameiginlega. Þrátt fyrir það og þessa eftirgangsmuni og síðan umræður núna nýlega um Þróunarsjóðinn og fjárveitingu varðandi hann og fyrirspurnir, hefur niðurstaðan orðið sú að hæstv. sjávarútvegsráðherra leggst gegn málinu. Ekki er hægt að draga neina aðra niðurstöðu af því hvernig málið er en þá að hæstv. ráðherra leggist gegn því að í þetta sé merkt fé. Ég furða mig satt að segja á því hvað ráðherranum gengur til í þessu máli. Ég er helst farinn að hallast að því að hæstv. ráðherra líti svo á að af því hann átti ekki frumkvæði að málinu þá skuli það ekki ganga í gegn frekar en önnur góð mál sem stjórnarandstaðan á frumkvæði að. Þetta er sem sagt hið virka lýðræði undir stjórn forseta þingsins í hv. Alþingi. Þetta er hið virka lýðræði þar sem ekkert er gert með samþykktir Alþingis.