131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[17:16]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jón Gunnarsson) (Sf):

Frú forseti. Við ræðum nú í 3. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 152 frá því í desember 1996, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Þó að komið sé í 3. umr. lít ég þannig á að talsvert sé órætt í þessu máli og vísa í því sambandi til ræðu hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar áðan um hvernig málið er til komið sem við erum að leggja áherslu á og hvernig sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnin hunsar vilja Alþingis í málinu.

Mér þætti gott ef frú forseti gæti kannað fyrir mig hvort sjávarútvegsráðherra er í húsinu — og sé að hann birtist nú í salnum — því ég átti þess ekki kost að eiga orðastað við hæstv. ráðherra í 2. umr. því hann var þá með fjarvistarleyfi og ég var með fjarvistarleyfi í 1. umr. Ég vil því nota þetta tækifæri nú til að leggja spurningar fyrir hæstv. ráðherra og fagna því að hann skuli vera í salnum til að ræða þetta við okkur.

Eins og áður kemur fram er verið að leggja niður Þróunarsjóð sjávarútvegsins með frumvarpi því sem hér um ræðir. Þegar verið er að leggja niður sjóði eins og þennan, alveg á sama hátt og ef menn leggja niður lögaðila eða fyrirtæki, hljóta menn að verða að skoða hvaða eignir eru í sjóðnum, hvaða skuldir þarf að gera upp á móti og hvort einhverjar kvaðir hvíli á sjóðnum sem uppfylla þarf áður en hægt er að leggja sjóðinn niður með lögum.

Maður veltir því fyrir sér hvort það hafi verið gert í þessu tilviki vegna þess að þingsályktunartillaga var samþykkt á Alþingi um að Þróunarsjóðurinn eigi að taka þátt í ákveðnu verkefni, að hæstv. ráðherra virðist ekki líta á það sem kvöð á Þróunarsjóðnum að gera það. Ákvörðun Alþingis um að sjóðurinn eigi að taka þátt í að vernda gömul skip og báta skiptir hæstv. ráðherra engu máli þegar ákveðið er að koma með frumvarp um að leggja niður þennan sama sjóð. Slík vinnubrögð mundu menn ekki leyfa sér við það að leggja niður fyrirtæki. Svona vinnubrögð mundu menn ekki leyfa sér við það að leggja niður félagsskap, sameignarfyrirtæki eða hvaða annan félagsskap sem um ræðir. Ég átta mig ekki alveg á hvernig á því stendur að inn í sali Alþingis getur komið frumvarp til laga um að leggja niður sjóð sem að mínu viti ákveðnar kvaðir hvíla á, kvaðir um að taka þátt í að vernda gömul skip og báta.

Búið er að fara yfir það áður í umræðunni að á 125. löggjafarþingi á árinu 1999–2000 samþykkti Alþingi með 49 samhljóða atkvæðum tillögu til þingsályktunar sem þá var á þingskjali 1186 og flutt var af sjávarútvegsnefnd í heild sinni um varðveislu báta og skipa. Með þeirri þingsályktunartillögu var ríkisstjórninni falið að undirbúa tillögur um hvernig staðið skyldi að varðveislu gamalla skipa og báta og móta í því sambandi reglur um fjármögnun sem Þróunarsjóður sjávarútvegsins tæki m.a. þátt í.

Í þingsályktunartillögunni segir, með leyfi forseta:

„Leggur nefndin áherslu á að málinu verði lokið af hálfu ríkisstjórnarinnar á þessu ári.“ — Þ.e. á árinu 2000.

Þetta er niðurstaðan í greinargerð sem fylgdi þingsályktunartillögu frá sjávarútvegsnefnd allri um að sjávarútvegsnefnd leggi áherslu á að þessu máli sem um ræðir verði lokið af hálfu ríkisstjórnarinnar strax á árinu 2000. Nú er komið árið 2005 og enn hefur ekkert gerst og enn á ekkert að gera til að uppfylla þá þingsályktunartillögu sem þarna var samþykkt.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra varðandi Þróunarsjóðinn og það að leggja hann niður: Telur hæstv. ráðherra enga kvöð liggja á Þróunarsjóð sjávarútvegsins um að taka þátt í að vernda gömul skip og báta eftir að Alþingi hefur samþykkt þingsályktunartillögu akkúrat um það efni?

Ég tel mikilvægt að við fáum svar við þeirri spurningu, þannig að við fáum það bara kvitt og klárt hvort ráðherrann hæstv. telur sig ekkert þurfa að gera með þann vilja Alþingis sem þarna kemur fram í þingsályktunartillögu, eða hvort hann telji að ríkisstjórnin eigi með einhverjum öðrum hætti að uppfylla hana og þá á annan hátt en kemur fram í tillögunni, því tillagan segir algjörlega skýrt að Þróunarsjóður sjávarútvegsins eigi að koma að þessu verkefni.

Það verður að segjast alveg eins og er að mjög illa er staðið að verndun gamalla skipa og báta hjá okkur og á það við í raun um sjóminjar almennt, ekki bara skip og báta, heldur er ótrúlega illa staðið að því að vernda minjar um atvinnusögu í sjávarútvegi. Við horfum á söfn sem tengjast öðrum atvinnugreinum byggð upp á metnaðarfullan og framsækinn hátt en þegar kemur að því að vernda gömul skip og báta eða vernda atvinnusögu okkar í sjávarútvegi virðist ekki vera sami metnaður uppi þó að sem betur fer hafi ákveðnir einstaklingar og sveitarfélög reynt að taka frumkvæðið í því og af veikum mætti oft tekist að gera það alveg ótrúlega vel.

Að mínu viti er full ástæða til, frú forseti, að gera bragarbót þar á. Það sem yfirleitt vantar svo hægt sé að ráðast í svona verkefni eru fjármunir. Nú var búið að eyrnamerkja fjármuni úr ákveðnum sjóði til þess að ráðast í þetta verkefni og það eina sem virðist skorta til að það geti orðið að veruleika er vilji hjá hæstv. ríkisstjórn til að framkvæma vilja Alþingis. Það er alveg sama þó að Alþingi hafi lýst vilja sínum til að gera sérstakt átak í þessu máli, framkvæmdarvaldið þumbast við og virðist ætla að komast upp með að hunsa vilja Alþingis.

Ég trúi því ekki að meiri hluti þingmanna sé svo miklar lyddur að þeir þori ekki að standa við sannfæringu sína og áður yfirlýstar skoðanir í þessu máli. Það liggur algjörlega fyrir að það er meiri hluti hér á Alþingi fyrir því að taka hluta af fjármunum Þróunarsjóðs til þessa verkefnis.

Það er búið að fara vel yfir það fyrr í umræðunni hver ferill þessa máls er. Fyrst lagt fram lagafrumvarp sem fer eftir 1. umr. til sjávarútvegsnefndar. Það kemur úr sjávarútvegsnefnd sem þingsályktunartillaga sem nefndin öll í heild sinni flytur. Varaformaður nefndarinnar mælti fyrir málinu á Alþingi, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Það sést á þeirri umræðu að algjör sátt var um málið. Ekki urðu miklar umræður um það og ekki talin þörf á því að vísa þeirri þingsályktunartillögu aftur til sjávarútvegsnefndar vegna þess hve sáttin var mikil í málinu.

Lítið er gert með þá sátt hjá framkvæmdarvaldinu þó að hún komi fram með þessu móti á hinu háa Alþingi. Þegar greidd voru atkvæði greiddu 49 þingmenn atkvæði með málinu, einn sat hjá og 13 voru fjarstaddir. Af þeim sem greiddu atkvæði með málinu eru enn 34 þingmenn á þingi í dag. Einnig hafa komið inn nýir þingmenn, eins og sá sem hér stendur sem hefur fullan hug á því að standa við þessa þingsályktunartillögu sem Alþingi samþykkti. Það er því mjög stór meiri hluti fyrir þessu máli á Alþingi, þ.e. ef þeir þingmenn sem greiddu því atkvæði sitt á sínum tíma eru trúir sinni fyrri skoðun um að Þróunarsjóðurinn eigi að taka þátt í að fjármagna varðveislu gamalla skipa og báta.

Við heyrðum hæstv. forsætisráðherra í umræðunni um sölu Símans tala um að stjórnarandstöðuþingmenn hlypu eftir kjaftasögum og fyrirsögnum í blaði. Það sem ég er að lýsa hér er engin kjaftasaga, frú forseti, og engin fyrirsögn í blaði. Hér er staðfestur vilji Alþingis á ferðinni en það virðist ekki einu sinni duga til.

Rýnum aðeins í þessa atkvæðagreiðslu á sínum tíma.

Átta núverandi hæstv. ráðherrar greiða tillögunni atkvæði sitt. Með leyfi forseta ætla ég að rúlla yfir hverjir það voru. Hæstv. fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, sagði já. Hæstv. landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, sagði já. Hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, sagði já. Hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Jón Kristjánsson, sagði já. Hæstv. umhverfisráðherra, Sigríður A. Þórðardóttir, sagði já. Hæstv. samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, sagði já. Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, sagði já. Hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, sagði já. Sjávarútvegsráðherra var fjarstaddur þegar þetta átti sér stað. (Gripið fram í: Hann var með leyfi.) Það voru 13 þingmenn (Gripið fram í: Hann var með leyfi.) með fjarvistarleyfi væntanlega á þessum tíma og greiddu þar af leiðandi ekki atkvæði í þeirri atkvæðagreiðslu en, frú forseti, átta hæstv. ráðherrar sem nú sitja í ríkisstjórn greiddu atkvæði með því að Þróunarsjóður sjávarútvegsins ætti að taka þátt í að varðveita gömul skip og báta.

Hvað hefur breyst? Það sem hefur breyst er að nú vill hæstv. sjávarútvegsráðherra leggja niður Þróunarsjóðinn fyrr en ráð var fyrir gert og það hefur breyst að meiri peningar eru til í uppgjöri á Þróunarsjóðnum en áður var ráð fyrir gert. Aðstæður eru sem sagt betri til að uppfylla vilja Alþingis en áður var, átta núverandi hæstv. ráðherrar voru á þessari skoðun á sínum tíma. Það er ekkert sem hefur gerst í málinu sem ætti að hafa breytt þeirri skoðun. Ég lýsi bara eftir skoðun þessara hæstv. ráðherra, hvort hún hafi breyst eða hvort hún er enn sú sama og hún var. Takist ekki að fá þá hér í 3. umr. til að lýsa skoðun sinni verður væntanlega hægt að kalla eftir þeirri skoðun með nafnakalli í atkvæðagreiðslu um tillögu minni hlutans sem hér liggur fyrir.

Hæstv. menntamálaráðherra ber faglega ábyrgð á málinu, sagði hæstv. sjávarútvegsráðherra við atkvæðagreiðslu um málið í 2. umr. Þar sagði hæstv. sjávarútvegsráðherra, með leyfi forseta:

„Hv. þingmaður hefur borið á mig tvennar ásakanir í umræðu um atkvæðagreiðsluna. Annars vegar þá að ég hafi ekkert gert í því að sinna þingsályktunartillögunni. Það vill hins vegar þannig til að þingsályktunartillögunni var vísað til hæstv. menntamálaráðherra, ekki til sjávarútvegsráðherra. Það er því ekki á starfssviði sjávarútvegsráðherra að sinna málinu enda er varðveisla gamalla skipa ekki á verksviði sjávarútvegsráðuneytisins.

Í öðru lagi bar hv. þingmaður á mig þær sakir að hann hefði ekki getað rætt þessi mál við mig við umræðu í þinginu, en við 1. umr. var einmitt umræða um hvernig ætti að ráðstafa þessu.“

Það er gott að hafa hæstv. sjávarútvegsráðherra hér til að geta þá tekið þessa umræðu í 3. umr., en það væri einnig gott, frú forseti, að hafa hæstv. menntamálaráðherra hér ef hægt er að kalla hana til þings, því að samkvæmt því sem hæstv. sjávarútvegsráðherra segir er það á verksviði hæstv. menntamálaráðherra að sinna þessu máli. — Ber nú vel í veiði. Ég var að fá upplýsingar um að sitjandi starfandi hæstv. menntamálaráðherra er núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, þannig að væntanlega getur hann svarað fyrir báða þessa ráðherra á eftir.

Að öllu gamni slepptu segir í nefndaráliti minni hluta sjávarútvegsnefndar sem hér var lagt fram við 2. umr., með leyfi forseta:

„Á 125. löggjafarþingi, 1999–2000, samþykkti Alþingi með 49 samhljóða atkvæðum tillögu til þingsályktunar sem flutt var af sjávarútvegsnefnd um varðveislu báta og skipa. Með þingsályktuninni var ríkisstjórninni falið að undirbúa tillögur um hvernig staðið skyldi að varðveislu gamalla skipa og báta og móta í því sambandi reglur um fjármögnun sem Þróunarsjóður sjávarútvegsins tæki m.a. þátt í. Í ljósi þess hve Alþingi hefur með skýrum hætti látið í ljós vilja sinn til að ráðstafa a.m.k. hluta af fjármunum Þróunarsjóðs sjávarútvegsins til þessara verkefna telur minni hlutinn einsýnt að Alþingi hrindi þeim vilja sínum í framkvæmd við afgreiðslu þess frumvarps sem hér er til umfjöllunar. Er það í raun ámælisvert hvernig ríkisstjórnin hefur með aðgerðaleysi sínu frá því að framangreind þingsályktunartillaga var samþykkt kosið að virða vilja Alþingis að vettugi í þessu máli. Er framlagning þessa frumvarps nú enn fremur staðfesting á því að aldrei hefur staðið til af hálfu ríkisstjórnarinnar og sjávarútvegsráðherra að virða vilja Alþingis í málinu. Hvað sem því líður liggur nú beint við að Alþingi árétti og staðfesti vilja sinn með skýrum og skuldbindandi hætti. Gerir minni hlutinn það því að tillögu sinni að hluti eigna Þróunarsjóðsins renni til varðveislu gamalla báta og skipa.“

Full ástæða er til að ræða aðeins betur við hæstvirta ráðherra akkúrat um það sem fram kemur í þessu nefndaráliti. Það er full ástæða til að inna ráðherrana eftir því hvers vegna ríkisstjórnin fer ekki að vilja Alþingis og hvort þeir telji verjandi í ljósi þess að vilji Alþingis liggur eins skýrt fyrir og raun ber vitni að sniðganga hann með því að gera ekki ráð fyrir því við niðurlagningu Þróunarsjóðsins að hluti þeirra fjármuna sem í honum eru renni til varðveislu gamalla báta og skipa. Þetta er grundvallarspurning að mínu viti um hvort vegi þyngra, vilji Alþingis eins og hann kemur fram hér í atkvæðagreiðslum eða vilji einstakra hæstv. ráðherra eða framkvæmdarvaldsins ef þeir telja sig ekki þurfa að fara eftir því sem samþykkt er á Alþingi.

Rifjum aðeins betur upp þessa atkvæðagreiðslu um þingsályktunartillöguna. Eins og áður hefur komið fram greiddu átta hæstv. ráðherrar þingsályktunartillögunni atkvæði sitt. Nokkuð stór hópur hv. stjórnarþingmanna sem sögðu já sitja enn á þingi. Þeir eru: Arnbjörg Sveinsdóttir, Drífa Hjartardóttir, Einar Kristinn Guðfinnsson, Einar Oddur Kristjánsson, Guðmundur Hallvarðsson, Gunnar I. Birgisson, Halldór Blöndal, Hjálmar Árnason, Jónína Bjartmarz og Kristinn H. Gunnarsson. Það þarf nú ekki marga hv. þingmenn með hryggbein til þess að tillaga minni hlutans verði samþykkt á Alþingi. Við þurfum ekki alla þessa þingmenn sem sögðu já. Við þurfum ekki alla þessa hæstv. ráðherra sem sögðu já. Við þurfum handfylli stjórnarþingmanna með bein í bakinu til þess að standa að virðingu Alþingis til þess að tryggja að sú tillaga sem hér var lögð fram um að Þróunarsjóðurinn taki þátt í þessu verkefni sem Alþingi hefur ályktað um verði að veruleika, handfylli af stjórnarþingmönnum með hryggbein. Eru þeir til? Ég veit það ekki.

Ég vil leyfa mér við þessa umræðu að lýsa eftir skoðun þeirra hv. þingmanna sem ég var að lesa hér upp. Hver er þeirra skoðun í dag? Hefur hún breyst? Ef hún hefur breyst, af hverju hefur hún þá breyst? Hvað hefur breyst í málinu? Ef hún hefur ekki breyst, ætla þeir þá að greiða atkvæði með tillögu minni hlutans þegar hún kemur til atkvæða hér á eftir eða á morgun, ef það verður svo?

Þessir hv. þingmenn skulda þessu verkefni, varðveislu gamalla báta og skipa, skýringu á því ef þeir hafa skipt um skoðun eða þá að þeir skulda þessu verkefni það að standa hér með bein í baki og greiða atkvæði á sama hátt og þeir gerðu fyrir fimm árum því ekkert hefur breyst í málinu nema að hæstv. ráðherrar þumbast við og vilja ekki fara að vilja Alþingis.

Meira að segja væri nóg, frú forseti, að þeir stjórnarþingmenn sem enn eru á þingi og sátu í sjávarútvegsnefnd á þeim tíma sem þetta var lagt fram, þ.e. eru flutningsmenn að þessari þingsályktunartillögu, mundu standa með þeirri tillögu sem þeir fluttu á Alþingi. Það þarf ekki meira. Bara þeir. Og hverjir eru þeir sem enn sitja á þingi, hv. stjórnarþingmenn sem lögðu fram þessa þingsályktunartillögu sem hér á að hunsa? (Gripið fram í.) Þeir eru hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, hv. þm. Hjálmar Árnason, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Það þarf nú ekki marga til viðbótar. Spurningin er hvort þeir ætla að heykjast á því að fylgja eftir máli sem þeir sjálfir voru flutningsmenn að. Það var hlegið hér að hv. þingmanni, man ég, fyrst eftir að ég byrjaði á þingi fyrir að hann greiddi atkvæði á móti máli sem hann hafði flutt sjálfur. Menn sögðu: „Þetta hefur aldrei gerst. Þetta er hlægilegt, hneisa.“ Muna hv. þingmenn eftir þessu? Hvað er að gerast hér? Nákvæmlega það sama. Ef þeir hv. þingmenn sem fluttu þessa þingsályktunartillögu ætla að greiða atkvæði með því á morgun eða seinni partinn í dag að þróunarsjóðurinn verði lagður niður án þess að fjármunir komi úr honum til að tryggja þessu verkefni fjármuni þá eru þeir að gera nákvæmlega það sama og ég var hér að lýsa. Þá eru þeir að greiða atkvæði gegn sinni eigin þingsályktunartillögu sem þeir voru meðflutningsmenn að.

Tillaga minni hluta sjávarútvegsnefndar liggur frammi í þessu máli. Við ákváðum að láta ekki greiða um hana atkvæði í 2. umr. Við drógum hana til baka til 3. umr. í þeirri von að einhverjir stjórnarþingmenn sýndu að þeir hefðu bein í baki til þess að standa hér óstuddir og greiða atkvæði. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Efnismálsliðir 1. gr. orðist svo: Lögin gilda til 1. október 2005. Skulu 400 millj. kr. af eignum sjóðsins umfram skuldir að loknum gildistíma laganna renna til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og andvirði þeirra varið til hafrannsókna. Andvirði eigna sjóðsins sem eru umfram 400 millj. kr. skal renna í ríkissjóð og því ráðstafað til varðveislu gamalla báta og skipa.“

Tillagan gengur einfaldlega út á það að virða þessa þingsályktunartillögu eins og hún var samþykkt í sölum Alþingis fyrir fimm árum.

Frú forseti. Vonandi er meiri hluti fyrir þessari tillögu á hinu háa Alþingi. Ég tel að full ástæða sé til þess að hv. þingmenn sýni framkvæmdarvaldinu að vilji þingsins gengur fyrir þrjósku einstakra hæstv. ráðherra til að framkvæma það sem samþykkt er á Alþingi. Það er ekki oft sem við fáum jafnlýsandi dæmi um yfirgang framkvæmdarvaldsins gagnvart Alþingi og þeim ákvörðunum sem hér eru teknar. Ef þessi tillaga verður ekki samþykkt þá er ekki oft sem við fáum jafnlýsandi dæmi um aumingjaskap hv. þingmanna gagnvart ráðherrum ríkisstjórnarinnar.