131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[17:39]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jón Gunnarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kallaði það í ræðu minni aumingjaskap ef hv. þingmenn treysta sér ekki til að standa á skoðun sinni verði þeir fyrir einhverjum þrýstingi frá hæstv. ráðherrum um að sú skoðun sem þeir hafa haft eða kannski héldu að þeir hefðu haldi ekki, þ.e. ef einhver hæstv. ráðherra andar á þá og segir þeim að þeir eigi ekki að hafa þessa skoðun. Þetta kallaði ég aumingjaskap. Ég vil nú ekki taka undir orð hv. þingmanns um að kannski sé rétt að kalla þetta óheiðarleika. Við getum svo sem verið eitthvað ósammála um túlkun orða í íslensku máli. En ég er alveg sannfærður um það og stend á því hvar sem ég kem og hvar sem ég er að verði tillaga minni hlutans um þingsályktunartillögu sem hér var samþykkt um að Þróunarsjóðurinn tæki þátt í að varðveita gamla báta og skip algjörlega hunsuð, eins og lítur nú út fyrir samkvæmt þeim umræðum sem fram hafa farið á þingi, þá kalla ég það aumingjaskap, í fyrsta lagi þeirra hv. þingmanna sem fluttu þingsályktunartillöguna, í öðru lagi hv. þingmanna sem greiddu þingsályktunartillögunni sitt atkvæði á sínum tíma og í þriðja lagi hæstvirtra ráðherra sem greiddu sömu tillögu sitt atkvæði á þeim tíma vegna þess að enginn þessara hv. þingmanna og hæstv. ráðherra hafa séð ástæðu til þess að koma og upplýsa þingheim um hvað hafi breyst, þ.e. ef eitthvað hefur breyst. Það væri þó heiðarlegt af þeirra hálfu að koma í ræðustól og segja: Ég get ekki staðið við þá skoðun sem ég hafði fyrir fimm árum. Ástæðan fyrir því er þessi eða hin. En það eru engar slíkar skýringar. Um leið og þetta mál er tekið fyrir í sölum Alþingis þá eru allir þessir þingmenn á braut horfnir. Enginn hv. þingmaður sem greiddi þessari þingsályktunartillögu atkvæði sitt er hér í salnum til að taka þátt í þessari umræðu — enginn hv. stjórnarþingmaður, vildi ég sagt hafa, sem greiddi þessari þingsályktunartillögu atkvæði sitt — telur að hann skuldi Alþingi skýringu á því hafi hann skipt um skoðun. Nei, frú forseti. Þeir láta ekki sjá sig við þessa umræðu.