131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[17:43]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um frumvarp til laga um að leggja niður Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Út af fyrir sig stendur ekki deila um að það verði gert. Hins vegar hefur aðalumræðuefnið verið ályktun Alþingis fyrir fimm árum, um að nýta beri hluta af fjármunum þróunarsjóðs til varðveislu gamalla skipa og báta. Hver skyldi vera ástæðan fyrir því að menn bentu á þá fjármögnun? Jú, ástæðan er sú að sá sami sjóður var árum saman markvisst notaður í þeim tilgangi að láta fleygja á hauga og brenna, saga niður og höggva í spón, síðustu trébátana á Íslandi. Það var ekki fyrr en eftir umræður á Alþingi, harðar umræður um þessar aðferðir, að menn sáu loks að sér. Þá hættu menn að skylda útgerðarmenn, sem vildu af einhverjum ástæðum nálgast þá fjármuni sem hægt var að fá úr Þróunarsjóði, til að taka þessi skip úr notkun. Þá var tekið af ákvæði um að menn væru skyldugir til að eyða þessum skipum og mætti ekki einu sinni hafa þau til skemmtunar, hvað þá meira.

Býsna margir bátar voru eyðilagðir á þessum tíma. Þar fóru mikil verðmæti í súginn. Ég minni á að þetta gerðist á umbreytingatímum í skipasmíði og framleiðslu skipa á Íslandi. Við höfðum gert út trébáta á Íslandsmið. Vertíðarbátar okkar voru trébátar fram eftir allri síðustu öld. Stálskipin hófu innreið sína eitthvað að ráði um miðja öldina, auðvitað fyrst með togurunum og síðan var stærri og stærri hluti skipanna smíðaður úr stáli eftir því sem leið á öldina. En áfram var haldið að framleiða tréskip til að gera út fram á 8. áratuginn, a.m.k. að einhverju marki. En það liðu ekki mörg ár milli þess að menn hættu að framleiða þessa báta þar til þeir hófust handa, líkt og ég nefndi áðan, að ganga í að höggva þessi skip í spað. Kvað svo rammt að þessu á tímabili að tiltölulega nýlegum bátum, algerlega óskemmdum var eytt með þessum hætti. Að vísu voru dæmi um að skipum væri komið úr landi. Eitthvað tókst að selja lítils háttar af bátum hingað og þangað í löndin í kringum okkur en þeir voru örfáir.

Eins og ég sagði áðan urðu mörg slys, einmitt á þeim skipum sem hefðu átt að varðveita minninguna um verkþekkingu þessara tíma, eintök sem kostaði í sjálfu sér afar lítið að halda við inn í framtíðina vegna þess að þau voru í svo góðu ásigkomulagi. Þetta var hlutverk þróunarsjóðs, sjóðsins sem hér um ræðir. Því var ekki að ástæðulausu að menn ákváðu að benda á fjármögnun úr þessum sjóði. Það var einmitt vegna fyrra hlutverks sjóðsins að bent var á þessa leið til að skila að einhverju leyti til baka því sem þessi sjóður hafði unnið í tjónum hvað varðaði varðveislu skipa og báta á Íslandi. Það er eiginlega ótrúlegt að þeir sem vildu gera þessa hluti voru forsvarsmenn útgerðar á Íslandi. Þeir stjórnuðu þessari ferð og í sölum Alþingis var alltaf eins og mikill vilji til að fara að eins og þeir ágætu forsvarsmenn útgerðar á Íslandi höfðu viljað. Því miður var það gert allt of lengi. En eftir að hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson ásamt fleirum flutti frumvarp til laga um þetta mál, sem fór í sjávarútvegsnefndina, varð niðurstaðan í sjávarútvegsnefndinni sú að flytja þingsályktunartillögu sem búið er að lýsa mjög skýrt og vel hvernig átti að virka. Skýr vilji Alþingis kom fram um að hluti af þeim fjármunum sem yrðu til þegar þróunarsjóður yrði lagður niður, skyldi nýtast til að varðveita gömul skip og báta. Að mínu viti var það jafnframt friðþæging fyrir það hvernig opinberir fjármunir höfðu fram að því verið notaðir að þessu leyti.

Hvað gerist svo? Þetta mál fer auðvitað til ríkisstjórnarinnar og þar ákváðu menn að menntamálaráðherrann skyldi sjá um þetta málefni. Gott og vel. Allt í lagi með það. En nú birtist sjávarútvegsráðherra með frumvarp um að leggja niður þróunarsjóð og í því er ekki nokkur skapaður hlutur um það sem Alþingi ályktaði um á sínum tíma. Hann yppir bara öxlum og segir: Málið kemur mér ekki við, þetta er á verksviði menntamálaráðherra. Mér kemur málið ekkert við.

Þetta er ekki boðlegt og er fyrst og fremst óvirðing við Alþingi og ákvarðanir Alþingis. Ef ríkisstjórnin taldi best og skynsamlegast að fjármagna varðveislu gamalla skipa og báta öðruvísi en Alþingi samþykkti að gert yrði með þingsályktun þá átti ríkisstjórnin að leggja til, um leið og helst áður en niðurstaða fengist um að þeir vildu ekki nota til þess fjármuni úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins, hvernig ætti að standa að fjármögnuninni í staðinn þannig að Alþingi stæði þá frammi fyrir því að ríkisstjórnin hefði nýja tillögu í málinu. Sú tillaga liggur ekki fyrir og Alþingi hefur því enga möguleika á að meta það hvort hugmyndir ríkisstjórnarinnar um hvernig skuli standa að þessum málum séu fullnægjandi, miðað við það sem menn höfðu ætlað sér með tillögunni. Ég verð að segja að mér finnst löngu nóg komið af því að ríkisstjórnin niðurlægi Alþingi með þessum hætti. Mér finnst það komið langt út fyrir eðlileg mörk að almennir þingmenn skuli láta bjóða sér slíkt þegar fyrir liggja þingsályktanir um hvað Alþingi vill, að ríkisstjórnin skuli voga sér að koma með niðurstöðu eins og þessa inn án þess að fram komi hvað eigi að koma í staðinn og Alþingi geti metið það sé sambærilegt við það sem menn ætluðu áður.

Það er dapurlegra en tárum taki hvernig komið er fram við Alþingi þegar ríkisstjórnin á í hlut. Við höfum svo séð ýmis dæmi um að mönnum finnist í lagi að láta meiri hlutann sem fylgir ríkisstjórninni ganga nauðugan til atkvæðagreiðslna. Ég trúi því ekki að nokkur maður komi viljugur í sali Alþingis til að rétta upp hönd með þessu frumvarpi, sömu menn og samþykktu þingsályktunartillöguna áður. Ekki trúi ég því að menn séu viljugir að skipta um skoðun á máli eins og þessu án þess að nokkuð liggi fyrir um hvernig eigi að standa að málinu að öðru leyti. Þetta eru auðvitað ekki vinnubrögð sem er hægt að sætta sig við. Hæstv. sjávarútvegsráðherra ætti að brjóta odd af oflæti sínu, sem ég vil kalla það því að mér finnst það frumhlaup hjá honum að koma með mál inn í Alþingi ofan í þessa þingsályktunartillögu. Hann ætti að brjóta odd af oflæti sínu og fallast á þá tillögu sem hér liggur fyrir, sem er málamiðlunartillaga. Í frumvarpinu sem hæstv. ráðherra lagði fram var gert ráð fyrir að hægt yrði að ná 300–400 millj. kr. inn í sjóðinn hjá sjávarútvegsráðuneytinu. Við leggjum hreinlega til að hærri talan sé notuð, þ.e. 400 millj. kr., og það sem eftir verði, sem að vísu eru líkur á að verði umtalsverðir fjármunir, fari í ríkissjóð og verði ráðstafað með þeim hætti sem Alþingi hefur ályktað. Þetta er málamiðlunartillaga.

Mér fyndist hæstv. ráðherra fullsæmdur af því að ganga til móts við tillögu þessa vegna þess að hann er í verulega vondum málum að mér finnst. Það að ætlast til þess að samherjar hæstv. ráðherra á þingi, sem höfðu áður samþykkt þessa þingsályktunartillögu sem hér er margumrædd, mæti í þingsal til að greiða atkvæði með þeirri niðurstöðu sem kom úr nefndinni finnst mér óbilgirni af hinu versta tagi. Ég held að hæstv. ráðherra ætti að hugsa sig vandlega um undir þessari umræðu og koma til móts við þá sáttatillögu sem hér liggur fyrir. Hann væri maður að meiri ef hann gerði það.

Það er vont að hæstv. menntamálaráðherra skuli ekki vera hér. Mér fyndist undarlegt ef hæstv. menntamálaráðherra hefði ekki barist fyrir því, úr því að hún fékk það verkefni í sinn hlut að fást við þessa þingsályktunartillögu, þeim verkefnum sem henni fylgja, varðveislu báta og skipa, og um leið þeim vilja Alþingis að a.m.k. hluti af fjármunum þróunarsjóðs yrðu notaðir í því skyni. Hæstv. menntamálaráðherra ætti að grein fyrir því hvað hún hefur gert til að sjá til þess að ná þeim fjármunum í verkefnið. Því verður vart trúað að hæstv. menntamálaráðherra hafi ekki reynt að nálgast þá fjármuni sem hún hefur bent á að nota skuli í þessu skyni. Hvers konar gæsla væri það ef hæstv. menntamálaráðherra hefði ekki gert þetta? En það vill þannig til að nú býr í sama manninum forsvarið í sölum Alþingis fyrir bæði menntamálaráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti. Ég veit svo sem ekki hvað hæstv. sjávarútvegsráðherra er fær um að segja þar sem ég geri fastlega ráð fyrir því að hæstv. menntamálaráðherra hafi sóst eftir þessum fjármunum. Hafi niðurstaðan orðið eins og hér liggur fyrir, að hæstv. menntamálaráðherra hafi ekki borið neitt úr býtum, þá er hæstv. sjávarútvegsráðherra ekki rétti maðurinn til að segja frá þeim viðskiptum. En hafi hæstv. menntamálaráðherra ekkert gert til að nálgast þá fjármuni sem Alþingi lagði til að yrðu notaðir í þessu skyni þá hefur hún hreinlega brugðist skyldum sínum.

Ég held að menn verði að koma því á hreint hvernig þetta mál hefur gengið fyrir sig. Alþingi getur ekki sætt sig við vinnubrögð eins og þessi, að það sé ekki tekið mark á ályktunum þess, að hæstv. ráðherra geti fimm árum síðar lagt fram lagafrumvarp þar sem ekki er nokkurn skapaðan hlut tekið mark á því sem Alþingi samþykkti.

Ég ætla ekki að hafa ræðu mína mikið lengri, hæstv. forseti. En mér finnst þessi umræða snúast um tvennt. Hún snýst um varðveislu gamalla skipa og það að fá fram árangur í því máli í samræmi við þingsályktunartillögu Alþingis. Það er löngu kominn tími til að menn standi myndarlegar að þeim málum en gert hefur verið. En umræðan snýst að mínu viti ekki síður um virðingu Alþingis, um að menn hunsi ekki tillögur sem hér eru samþykktar. Hæstvirt ríkisstjórn ætti að gæta virðingar Alþingis alla daga og ætti ekki að ganga gegn virðingu Alþingis eins og gert er með þessu frumvarpi hæstv. ráðherra, vinnubrögðum við það frumvarp og þeirri niðurstöðu sem nú virðist komin í málið.