131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[18:25]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég held að óhætt sé að segja að umræðan hafi farið um víðan völl, meira að segja á Þingvöll. En ég verð í upphafi að segja að enn gengur hv. þm. Sigurjón Þórðarson fram af mér með orðfæri sínu. Með fullri virðingu og allri vinsemd finnst mér það orðfæri sem hann notaði í dag, þegar hann ásakar kollega sína á hv. Alþingi með þeim orðum sem hann notaði, ekki vera við hæfi.

Málefnið sem er til umræðu er lög um Þróunarsjóð sjávarútvegsins frá 1994 og frumvarp til breytinga á þeim lögum. Lögin eins og þau eru í dag standa til þess að þegar sjóðurinn verði gerður upp, að verkefnum hans loknum sem voru skilgreind verkefni, og verði einhver afgangur þá gangi hann til hafrannsókna. Það sem ég legg til með stjórnarfrumvarpinu er að flýta því að sjóðurinn verði gerður upp og að öðru leyti að fara að lögunum eins og þau eru í dag.

Umræðan fór síðan að snúast um varðveislu gamalla skipa og báta, söfn og minjar sem út af fyrir sig er áhugavert umræðuefni en er ekki á starfssviði sjávarútvegsráðuneytisins. Síðan hefur verið vitnað þráfaldlega til þingsályktunar um varðveislu gamalla skipa og báta sem samþykkt var árið 2000 á Alþingi. Hv. þingmenn telja að á þeim grundvelli eigi málaflokkurinn varðveisla gamalla skipa og báta kröfu í það sem eftir stendur af þessum sjóði. Kröfuna byggja hv. þingmenn á aukasetningu í þingsályktunartillögunni. Þingsályktunin gengur út á að fela ríkisstjórninni að undirbúa varðveislu gamalla skipa og báta þar sem m.a.. Þróunarsjóður sjávarútvegsins taki þátt. Ég leyfi mér að líta á það sem einhvers konar tillögu flutningsmanna um hvar ríkisstjórnin eigi að leita fjármuna til að fjármagna það verkefni sem tillagan gengur út á.

Hefði hins vegar verið flutt frumvarp um þróunarsjóðinn til að uppfylla það markmið sem þingsályktunartillagan fjallaði um þá hefði þurft að breyta lögum um þróunarsjóð, skilgreina hlutverk þróunarsjóðs upp á nýtt og taka tillit til þeirra verkefna sem honum hafa verið falin sem var ólokið á þeim tíma er tillagan var samþykkt. Rannsóknaskipið Árni Friðriksson var þá í smíðum. Það var ekki komið til landsins og ekki komið í notkun. Þá var staða sjóðsins óljós hvað þetta varðar og á þeim tíma engin leið að sjá fyrir að það yrði endilega einhver afgangur af sjóðnum sem gæti runnið til hafrannsókna eins og lögin þá og eins og lögin nú standa til.

Með öðrum orðum hefði þurft að endurskilgreina hlutverk sjóðsins og jafnvel að gera ráð fyrir því að afla honum aukinna tekna til viðbótar við þær tekjur sem hann hafði þá enda var ekki fyrir séð hvernig sjóðurinn ætti að standa skil á sínum málum þegar þar var komið sögu. Hugsanlega hefði þurft að framlengja hlutverk þróunarsjóðsins og halda áfram gjaldtökunni eftir að veiðigjaldið hefur verið tekið upp. En eins og hv. þingmenn vita hefur þróunarsjóðsgjaldið verið lagt af og veiðigjald tekið upp í stað þess. Ég lít því ekki svo á að nein kvöð hvíli á Þróunarsjóði sjávarútvegsins, jafnvel þótt hann sé nefndur í aukasetningu þessarar þingsályktunar, um að hann eigi að taka að sér einhver verkefni tengd gömlum skipum og bátum heldur kveði lögin um þróunarsjóð á um það að verði einhver afgangur þá renni hann til hafrannsókna, að þau lög gildi og eigi að ganga eftir.

Hv. þingmenn hafa því spurt: Hvað hefur menntamálaráðherra, sem þingsályktunartillögunni var vísað til, því að þessi mál heyra undir hann, gert til að uppfylla þessa þingsályktun? Reyndar hefur komið fram hjá hv. þingmönnum að þeir hafa efasemdir um að ég geti svarað því hér í dag.

Það vill hins vegar þannig til að u.þ.b. tveimur og hálfum mánuði eftir að frumvarpið sem hér er til umræðu var lagt fram, um breytingar á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, svaraði hæstv. menntamálaráðherra fyrirspurn um þetta efni hér í þinginu. Þar kemur fram að menntamálaráðherra skipaði nefnd í framhaldi af þingsályktunartillögunni. Sú nefnd hefur lagt hugmyndir sínar fyrir menntamálaráðherra og í helstu dráttum eru tillögurnar eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Heimilt verði að friðlýsa gamla báta í neyðartilvikum.

Leita þurfi álits „skipavarðveislunefndar“ um stórvægilegar breytingar, förgun eða sölu gamalla báta úr landi, t.d. öllum sem smíðaðir eru fyrir 1940.

Í þjóðminjalögum verði nánari ákvæði um meðferð og varðveislu gamalla báta og skipsflaka.

Stofnaður verði skipavarðveislusjóður með framlögum úr ríkissjóði og lágu gjaldi á alla haffæra báta.

Skipavarðveislunefnd verði sett á laggirnar til að sjá um ofangreind efni.

Eigendum gamalla báta verði gert auðveldara að hirða um þá með lækkun opinberra gjalda gegn því að notkun bátanna verði takmörkum háð (sumarsiglingar, ekki í atvinnuskyni o.s.frv.).“

Í svarinu kemur fram að menntamálaráðherra hafði ráðfært sig við Þjóðminjasafnið og í lokin segir hæstv. menntamálaráðherra að að mörgu sé að hyggja í málinu og þessar tillögur séu til sérstakrar skoðunar og þá ekki síst í ljósi þess að hæstv. ráðherra hefur ákveðið að fram fari endurskoðun á þjóðminjalögum. Það er í þessum farvegi sem málið er hjá hæstv. menntamálaráðherra í framhaldi af samþykkt þingsályktunartillögunnar.

Þar af leiðandi tel ég að engar kröfur séu áhvílandi á þróunarsjóðnum sem snúa að gömlum skipum og bátum og því sé það einfaldlega bæði rétt og réttmætt að þeir fjármunir sem eftir kunna að standa renni til hafrannsókna eins og lögin hafa alltaf gert ráð fyrir, eins og lögin gerðu ráð fyrir þegar verkefnið var skilgreint og eins og þeir sem greiddu gjöldin í sjóðinn gerðu ráð fyrir að fjármunum yrði varið ef eitthvað stæði eftir.

Ef þetta hefði átt að vera einhvern veginn öðruvísi hefði þurft að breyta lögunum um Þróunarsjóðinn, það hefði þurft að skilgreina hann upp á nýtt, jafnvel sjá honum fyrir öðrum tekjum. Ég verð að segja, frú forseti, og ég veit að ég hef sagt það áður úr þessum ræðustóli, að ég undrast það mjög að einmitt þeir hv. þingmenn sem hér hafa talað skuli leggja til að fjármunir til hafrannsókna verði skornir niður.

Ég veit að þeir tala um að leita eigi þessara fjármuna annars staðar. En hvers vegna er betra að taka fjármuni frá hafrannsóknum og færa þá til gamalla skipa og báta og leita síðan einhverra annarra fjármuna til hafrannsókna? Af hverju ekki bara einfaldlega að leyfa þeim fjármunum sem eiga að fara til hafrannsókna að fara til hafrannsókna og leita síðan með hæstv. menntamálaráðherra að fjármunum til verkefnisins Varðveisla gamalla báta og skipa? Ég get ekki skilið, sérstaklega ekki með tilliti til þess hvernig hv. þingmenn hafa talað á síðustu missirum, hvað þeir hafa talað mikið, oft og í sumum tilfellum hátt um að bæta þurfi hafrannsóknir, að auka þurfi þá fjármuni sem þangað eiga að renna.

Ég hef tekið undir með hv. þingmönnum hvað þetta varðar og er að leitast við að tryggja að þeir fjármunir sem lög standa til að renni til hafrannsókna geri það. Því legg ég til að frumvarpið verði samþykkt eins og það kemur frá meiri hluta hv. sjávarútvegsnefndar.