131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[18:38]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það eru ekki svik þótt hv. þingmenn komi ekki öllum hugðarefnum sínum fram. Það vita allir sem vilja vita að þeir hv. þingmenn sem hér um ræðir hafa staðið vel fyrir sínum málum og reynt að koma þeim fram en þeim hefur einfaldlega ekki tekist það. Þeir hafa því þurft að gera málamiðlanir og komið þannig hagsmunum umbjóðenda sinna vel fyrir borð.

Síðan varðandi hæstv. heilbrigðisráðherra var það sjálfsagt mismæli hjá hv. þingmanni þegar hann sagði 500 milljónir. Það sem heilbrigðisráðherra skrifaði undir var 1 milljarður og við það stóð hann.