131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[18:39]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jón Gunnarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég spurði hæstv. sjávarútvegsráðherra nokkurra spurninga í ræðu minni. Ein af þeim var hvort ráðherra liti ekki á þá þingsályktunartillögu sem við höfum verið að ræða sem kvöð á þróunarsjóðnum. Því svaraði ráðherra skýrt, hann telur ekki um það að ræða að þingsályktunartillagan sé nein kvöð á þróunarsjóðnum.

Ráðherrann lætur finnst mér eins og hann þekki ekki forsögu þessa máls. Hæstv. ráðherra gerir sér upp vankunnáttu, og það gera menn stundum þegar þeir standa frammi fyrir hlutum eins og hér, vegna þess að það vill þannig til að lagt var fram frumvarp um breytingu á lögum um þróunarsjóð. Ég veit að lögin um þróunarsjóð segja að þegar hann verður lagður niður eigi þeir fjármunir sem eftir verða, verði þeir einhverjir, að renna til hafrannsókna. En það voru fimm hv. þingmenn sem lögðu fram frumvarp um breytingu akkúrat á þeim lögum.

Það vill svo til að þessir sömu hv. þingmenn eru eða voru allir á þeim tíma í sjávarútvegsnefnd. Þegar málið kemur þangað inn eftir 1. umr. taka þessir hv. þingmenn sig til og breyta málinu í þingsályktunartillögu. Telur hæstv. ráðherra virkilega að allir þessir flutningsmenn frumvarpsins hafi talið sig vera með því að drepa málinu á dreif, tekið það úr sjávarútvegsnefnd til að drepa málinu á dreif?

Hæstv. ráðherra sagði að hv. þingmönnum tækist ekki oft eða ekki alltaf að koma hugðarefnum sínum í framkvæmd. Ég er viss um að þeir hv. þingmenn sem lögðu fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um þróunarsjóð og stóðu síðan allir sem einn að því að leggja fram þingsályktunartillögu um sama mál hafi talið sig hafa komið málum sínum í höfn. Þessir hv. þingmenn hafa ekki trúað því á þeim tíma að verið væri að tæla þá, verið væri að svíkja þá til þess að breyta frumvarpi um breytingu á lögum í þingsályktunartillögu til að hæstv. ráðherra gæti staðið hér fimm árum síðar og sagt: (Forseti hringir.) Ja, þetta er nú bara þingsályktunartillaga.