131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[18:41]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki að gera mér upp neina vankunnáttu og kannast ekki við að nein vankunnátta hafi komið fram hjá mér í málinu. En frumvarp hv. þingmanna sem var vitnað til, sem síðan var breytt í þingsályktunartillögu, snerist ekki um það sem eftir stæði af sjóðnum. Það snerist um starfsemi sjóðsins og hvernig fjármunum og tekjum sjóðsins væri varið. Við erum ekkert að fjalla um það núna.

Nú erum við fjalla um að uppfylla þau lög sem standa til þess að þeir fjármunir fari til hafrannsókna. Síðan er verkefnið Varðveisla gamalla skipa og báta á færi menntamálaráðherra og eins og ég sagði frá hérna áðan hefur hún skýrt frá því í hvaða farvegi það mál er í ráðuneytinu. Það eru ekki þau tengsl á milli þessara tveggja mála sem hér um ræðir.

Fjármunirnir sem eftir standa í þróunarsjóðnum urðu bara til á öðrum forsendum og það er við þær forsendur sem við eigum að standa. Síðan er þingsályktunartillagan annað mál og ég er alls ekki að lýsa mig mótfallinn því að varðveita gömul skip og báta. En það á ekki að rugla því saman við þá fjármuni sem eiga að renna til hafrannsókna og við eigum alls ekki í kappi okkar við að varðveita gömul skip og báta að skerða þá fjármuni sem til hafrannsókna fara. Við skulum frekar vinna að því að fá fjármuni til varðveislu gamalla skipa og báta en halda þeim fjármunum inni sem eiga að fara til hafrannsókna.