131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[18:43]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jón Gunnarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að lýsa yfir vonbrigðum mínum með svör ráðherrans og hvernig hann tekur á því máli sem hér liggur fyrir.

Hæstv. ráðherra getur kannski upplýst okkur, hann gerði það ekki í svari sínu, hvernig hæstv. menntamálaráðherra hefur sóst eftir þeim fjármunum sem talað var um að ættu að koma úr Þróunarsjóði til að varðveita gömul skip og báta. Hann fór yfir hvað hæstv. menntamálaráðherra hefur gert með nefndarskipan og einhverjar tillögur sem uppi eru í því efni, en hæstv. ráðherra upplýsti okkur ekki um hvernig hæstv. menntamálaráðherra hefur sóst eftir þeim fjármunum sem þingsályktunartillagan gerði ráð fyrir að kæmu m.a. úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins í þetta verkefni.

Reyndar gerði hæstv. ráðherra lítið úr þeirri setningu í þingsályktunartillögunni, kallaði hana aukasetningu. Ég verð að viðurkenna, frú forseti, að ég áttaði mig ekki á því að þegar maður setur fram þingsályktunartillögur að þar væru aðalsetningar og aukasetningar. Ég hélt að þessi þingsályktunartillaga segði með mjög skýrum hætti að m.a. ætti þróunarsjóðurinn að taka þátt í því að varðveita gömul skip og báta.