131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[18:50]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er einfaldlega að vísa til þess undir hvern verkefnið heyrir í Stjórnarráðinu vegna þess að verið er að ásaka mig um vanrækslu, verið er að ásaka mig um að hafa ekki fylgt eftir þingsályktuninni. Þingsályktuninni var ekki vísað til mín, henni var vísað til annars hæstv. ráðherra og sá ráðherra vinnur í málinu.

Varðandi það hvort sjávarútvegsráðherra gæti ekki lagt málinu lið, þ.e. að varðveita gömul skip og báta. Að sjálfsögðu gæti sjávarútvegsráðuneytið gert það og er alls ekkert ólíklegt að það geri það. Ég vil hins vegar ekki gera það á kostnað hafrannsókna. Ég vil að þeir fjármunir sem við höfum ákveðið á hv. Alþingi að renna eigi til hafrannsókna geri það. Ég vil ekki skerða þá, ég tel að þörf sé fyrir þá í hafrannsóknir.