131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[18:51]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég sé mig tilknúinn að koma aftur í ræðustól og ræða þetta mál nokkru nánar en gert var í dag, m.a. út frá þeim orðum sem komu fram í máli hæstv. ráðherra áðan.

Í fyrsta lagi vil ég upplýsa, hæstv. forseti, að sú þingsályktunartillaga sem málinu var breytt í af sjávarútvegsnefnd á sínum tíma var gerð með fullum vilja og vitund allra sjávarútvegsnefndarmanna, menn ræddu það einnig við fulltrúa frá þróunarsjóðnum — ef ég man rétt mættu þeir á fund nefndarinnar eða hvort það barst minnisblað frá þróunarsjóðnum— og síðan fram komu upplýsingar frá starfsmanni sjávarútvegsráðuneytisins, á minnisblaði sem átti uppruna sinn hjá starfsmanni þróunarsjóðsins, um að fjármunir í sjóðnum yrðu örugglega meiri en menn hefðu gert ráð fyrir vegna þess að þar hefðu komið til inngreiðslu eða innlausnar hlutdeildarskírteini sem menn höfðu áður talið verðlaus og voru tengd hlutafjársjóði atvinnutryggingardeildar sjávarútvegsins. Þegar farið var að sameina fyrirtæki var kvöð um að innleysa þessi skírteini og þróunarsjóðnum var falið að innheimta þetta fé og þar af leiðandi komu fjármunir í sjóðinn sem menn höfðu kannski áður talið að þyrfti að afskrifa og var jafnvel búið að afskrifa. Ég skora á hæstv. sjávarútvegsráðherra, áður en við ljúkum umræðunni, að fá þessar upplýsingar svart á hvítu. Þær eru örugglega til í ráðuneytinu, hjá starfsmanni sjávarútvegsráðuneytisins sem útvegaði mér þær á sínum tíma eftir að ég fór fram á að upplýsingarnar lægju fyrir í þinginu. Ég get svo sem fundið þær ef okkur tekst að verða sammála um að fresta umræðunni og koma henni í þann farveg að við séum tilbúnir að finna sátt í málinu .

Ég held hins vegar að túlkun á meðferð málsins megi ekki fara í þann farveg sem mér fannst hæstv. sjávarútvegsráðherra hálfpartinn beina því, að þar væri aðalsetning og síðan einhver sérstök aukasetning í þingsályktuninni um þetta. Þingsályktunin er heildstæð. Hún er ekki löng, hún er bara rétt rúmlega þrjár línur. Ég held að hæstv. ráðherra geti varla gert svo lítið úr okkur sem störfuðum í sjávarútvegsnefnd á þessum tíma að ætla að við höfum ekki vitað hvernig lögin um Þróunarsjóð sjávarútvegsins voru. Okkur var algerlega ljóst hvaða hlutverk Þróunarsjóður sjávarútvegsins hafði. Frumvarpið sem við lögðum fram, fimm þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkunum, um fjármögnun úr sjóðnum vegna þess að þar væru til meiri fjármunir en menn höfðu gert ráð fyrir byggði m.a. á því að okkur var algerlega ljóst hvernig þróunarsjóðurinn starfaði og að þar væru til fjármunir. Þess vegna var sömu þingmönnum algerlega ljóst, að viðbættum þeim sem í sjávarútvegsnefnd voru, hvaða efni stæðu til þess að breyta málinu í þingsályktunartillögu vegna þess að fjármunirnir væru til staðar. Hins vegar með því að breyta málinu í þingsályktunartillögu væri málinu veitt í þann farveg að sjávarútvegsráðherra gæti haft áhrif á það, m.a. hvaða fjárveitingar yrðu settar út í þessu skyni en um það hafði birst ákveðin tillaga í frumvarpinu á sínum tíma þar sem miðað var við brúttórúmlestir skipa og styrk í því sambandi miðað við ákveðið ár, sem mig minnir að hafi verið 1990. Enda þótt ráðherra reyni að verja skoðun sína í málinu og ekki eigi að taka tillit til þingsályktunarinnar má hann ekki ætla okkur hv. þingmönnum það að við höfum ekki vitað hvernig lögin um Þróunarsjóð sjávarútvegsins voru. Okkur var það algerlega ljóst. Við töldum í raun og veru að með því að breyta málinu í þingsályktunartillögu og öll nefndin væri sammála um það og formaður nefndarinnar, starfandi á þeim tíma, flytti málið með samþykki allra sjávarútvegsnefndarmanna og málið þyrfti ekki að fara aftur til nefndar vegna þess að menn væru algerlega sammála, væri ígildi þess að um væri að ræða skýran vilja sem þyrfti ekki frekari umfjöllun. Við værum búnir að skoða málið frá öllum hliðum og með því að breyta því í þingsályktunartillögu væri í raun og veru verið að færa ráðherra það vald að hafa áhrif á þróun málsins án þess að hafna því, en það finnst mér ráðherra gera. Ráðherra hafnar málinu.

Með þingsályktuninni var auðvitað verið að færa honum það vald að hafa áhrif á afgreiðslu málsins og móta m.a. tillögur um hvaða upphæð hann gæti hugsanlega fallist á að varið yrði í þetta verkefni úr þróunarsjóðnum, þ.e. að í því sambandi yrðu mótaðar reglur um fjármögnun og m.a. að Þróunarsjóður sjávarútvegsins tæki þátt í því. Með því að breyta málinu í þingsályktunartillögu var ráðherra auðvitað gefið það vald að hafa áhrif á hversu miklir fjármunir rynnu í verkefnið, hvenær þeim yrði varið til þess, og ég hef kannski leyft mér að skilja ráðherra þannig undanfarin ár, frá árinu 2000 þegar tillagan var samþykkt en þar sagði m.a. í greinargerð, ef ég man rétt, að ríkisstjórninni sé falið að taka tillit til þessarar samþykktar þegar á því ári. Ég er ekki með hana fyrir framan mig, virðulegi forseti, en það var árið 2000 sem tillagan var samþykkt, 9. maí 2000, ef ég man rétt. Þar af leiðandi var ráðherra gefið þetta svigrúm að móta tillögur eða reglur. Ég hef leyft mér að skilja það svo að á því ári, árinu 2000, hafi menn ekki náð saman um þá niðurstöðu og lét því kyrrt liggja allt það ár en spurði hins vegar um það á árinu 2001 í lok þings, ef ég man rétt, hvert málið væri að þróast og fékk þá svör frá hæstv. forsætisráðherra um meðferð þingsályktana almennt. Ég held að þau séu til í sérstöku þingskjali sem hæstv. forsætisráðherra lét útbúa þar sem m.a. var vitnað til þess að menntamálaráðherra fengi málið til skoðunar, og að sjálfsögðu þar sem málið sneri að Þróunarsjóði sjávarútvegsins hafði hæstv. sjávarútvegsráðherra veruleg tök á því að hafa mótandi áhrif á niðurstöðu tillögunnar.

Það hvarflaði aldrei að okkur sem afgreiddum þessa tillögu út úr sjávarútvegsnefnd að niðurstaðan yrði sú að svigrúmið sem sjávarútvegsráðherra fékk með tillögunni yrði svo notað til þess að hafna málinu algjörlega. Það er algjör rangtúlkun á vilja sjávarútvegsnefndar og rangtúlkun á vilja Alþingis og sjávarútvegsráðherra kemst bara ekki upp með að halda málinu í þeim farvegi og með þeim rökstuðningi. Við verðum þá að ræða það inn í nóttina eða daginn á morgun ef við ætlum að fara í þá umræðu.

Hæstv. ráðherra vék líka að því að ekki yrði fyrirséð um að fé yrði afgreitt úr þróunarsjóði. En eins og ég hef áður nefnt lágu þær upplýsingar fyrir þegar á árinu 2000 að það væru örugglega meiri fjármunir til í þróunarsjóðnum en menn hefðu gert ráð fyrir.

Hæstv. ráðherra vék einnig að auðlindagjaldinu og að það tæki við þegar þróunarsjóðurinn yrði lagður niður. Ég veit ekki hvort ég skildi ráðherrann rétt í sambandi við það, en ég spyr: Er hæstv. ráðherra að ýja að því að í auðlindagjaldinu verði sett ákveðin fjármögnun til varðveislu gamalla skipa? Á maður að skilja ráðherrann þannig? Ég hef ekki getað heyrt það á ráðherranum í dag að hann vilji leggja tillögunni lið eins og hún er fram sett eða breytingartillögu minni hluta sjávarútvegsnefndar um að 400 millj. yrðu markaðar í verkefnasjóðinn og þaðan til hafrannsókna. Það gætu verið mótaðar reglur til framtíðar um það sem út af stæði í samræmi við þingsályktunartillöguna um hvenær og hvernig það yrði greitt út og í hvaða verkefni. Sjávarútvegsráðherra gæti tekið upp samstarf við menntamálaráðherra um það. Mér fannst reyndar hálfpartinn að hæstv. ráðherra væri að lýsa því áðan að hann vildi hugsanlega taka upp eitthvert samstarf um varðveislu gamalla skipa og gæti hugsað sér eitthvert fjármagn í því sambandi. Þess vegna spyr ég: Var hæstv. ráðherra að ýja að því að um það gæti e.t.v. verið flötur að eitthvað af fjármagninu lægi til hliðar og um það yrði samið að það færi í þetta verkefni og ráðherrann gæti haft áhrif á það?

Ef það er eingöngu metnaður ráðherrans að hann geti fengið að úthluta einhverju fé, hvort sem það er í gegnum verkefnasjóðinn eða frá sjálfum sér og ráðuneytinu til varðveislu gamalla skipa, geri ég ráð fyrir að við hv. þingmenn sem viljum málinu framgang mundum sætta okkur við það ef það fullnægir metnaði ráðherrans. Þó veit ég það ekki. En ég vona að málið snúist ekki um það hjá hæstv. ráðherra heldur snúist það almennt um að vilja koma að málinu þó að hann sé búinn að koma sér í þá leiðinlegu stöðu að vera á móti mjög þörfu og góðu máli og hefur reynt að misskilja það og leggja út af því með þeim hætti að þetta sé alls ekki verkefni sjóðsins og engar kvaðir eða kröfur séu á þróunarsjóðnum í þá veru.

Þegar hv. Alþingi hefur samþykkt þingsályktun sem allir eru sammála í atkvæðagreiðslu og vitnað er til þess í þingsályktun að þróunarsjóður komi m.a. að þeim verkefnum og taki þátt í þeim tel ég algjörlega skýrt að búið sé að samþykkja kröfur eða kvaðir á þróunarsjóðinn. Ég get ekki skilið málið öðruvísi. Ef það er ekki réttur skilningur held ég að við þurfum æðioft að fara nákvæmar ofan í efni þingsályktunartillagna í framtíðinni, ef það þýðir ekki neitt þó að sagt sé í þingsályktun að fé skuli renna úr fjárlögum eða fé skuli renna einhvers staðar annars staðar frá úr einhverjum sjóðum sem eru til staðar, og þeir eru nú fjölmargir í þjóðfélaginu, eða úr ákveðnum verkefnum sem tekið hefur verið frá til ákveðinna verkefna. Ef það þýðir ekki neitt þurfa starfsmenn þingsins að leiðbeina okkur alveg upp á nýtt og sérstaklega hæstv. forseta við samningu þingsályktunartillagna. Þá gengur ekki að hafa þær svona. Þá þurfum við að fá nýja kennslustund í meðferð þingsályktunartillagna. Ég kem því formlega á framfæri við forsetaembættið að það dugar ekki að hafa textana eins og þeir eru vegna þess að sjávarútvegsráðherra skilur þá alls ekki eins og við hin.

Ég veit að starfsfólk þingsins er algjörlega í stakk búið til að leggja okkur lið í því að orða þetta með þeim hætti að hæstv. sjávarútvegsráðherra geti skilið þetta og er viss um að okkur muni takast það. Ráðherrann er langskólagenginn maður en ég veit náttúrlega að hann var á öðru sviði en skipasviði þegar hann var að læra. Það var meira um líffræði og jafnvel færanlega hluti eins og lifandi skepnur o.s.frv. En ráðherra er bráðskarpur maður og getur örugglega skilið málið eins og við skiljum það og viljum meina að þingsályktunartillagan sé. Þess vegna held ég að ef svo er komið fyrir okkur að ráðherra skilur tillöguna alls ekki eins og við samþykktum hana þurfum við að vanda okkur í framtíðinni varðandi þingsályktanir að þessu leyti.

Hæstv. ráðherra minntist á að við hefðum talað um tekjur úr þróunarsjóðnum til varðveislu gamalla skipa á þeim tíma þegar frumvarpið kom fram. Ég er því miður ekki með þingmálið fyrir framan mig en í meðfylgjandi greinargerð var sérstök upptalning á þeim fjármunum sem talið var að væru að koma í þróunarsjóð eða væru komnir þangað sem var áður búið að afskrifa í reikningum sjóðsins. Það tengdist þeim sjóði sem kallaður var hlutafjársjóður, ef ég man rétt, og var ætlaður til að leggja fyrirtækjum sem voru í erfiðleikum stödd til aukið hlutafé og rekstrarfé.

Hæstv. forseti. Ég vona svo sannarlega að þessi ræða mín valdi því ekki að ráðherra verði meira á móti málinu en áður. Hann hefur verið frekar í bakkgír með málið. Ég átta mig hins vegar ekki á því hvers vegna hann vill ekki taka upp viðræður við hæstv. menntamálaráðherra um málið, en það eru hæg heimatökin núna þar sem hæstv. sjávarútvegsráðherra gegnir menntamálaráðherrahlutverkinu. Ég ráðlegg honum, af því að klukkan er meira en sjö og við frestum sem sagt málinu, að prófa að vakna í nótt og fara öðrum megin fram úr rúminu en í morgun og skoða málið með því sjónarhorni og athuga hvort við getum ekki lent málinu. Ég trúi ekki að hæstv. sjávarútvegsráðherra sé með neinn illvilja í málinu. Ég held að hann sé haldinn einhverjum misskilningi sem þarf að leiðrétta og hann getur auðvitað áttað sig á þessu í rólegheitum og við þá tekið málið til betri meðferðar.

Ég vil að lokum, hæstv. forseti, skora á ráðherrann í fullri alvöru að skoða málið betur og velta því virkilega vel fyrir sér hvort ekki sé rétt að hann og menntamálaráðherra — sem er sami maðurinn þessa stundina — skiptist svolítið á skoðunum um hvernig lenda mætti málinu.

Ég ræddi þetta mál aðeins við hæstv. menntamálaráðherra um daginn og gat ekki annað heyrt á henni en hún hefði mikinn áhuga á því að koma málinu í höfn og að sjálfsagt væri að sækjast eftir einhverjum fjármunum frá meðráðherranum, sjávarútvegsráðherra í þessu tilviki. Ég veit ekki hvort hún hafi mætt mjög neikvæðri afstöðu og þar af leiðandi sé málið komið í einhvern allt annan farveg en ég taldi að það væri í.

Ég tel hins vegar að sú breytingartillaga sem minni hlutinn kemur fram með sé mikil sáttaleið í málinu og sé enga ástæðu til annars en að hæstv. ráðherra skoði þá tillögu með miklum velvilja. Hann kæmist frá málinu með fullum sóma með því að taka tillit til þeirrar tillögu og ég legg til að hann beiti sér fyrir því að við náum góðri og jákvæðri lendingu í málinu þannig að allir megi sæmilega sáttir upp standa.