131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[19:15]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. sjávarútvegsráðherra talaði eins og þingsályktunartillagan sem títt hefur verið nefnd í dag væri marklaus, skipti engu máli. Sú þingsályktunartillaga var hugsuð út frá því að þegar að því kæmi að þessi sjóður yrði lagður niður og lögum yrði breytt á Alþingi tækju menn tillit til þingsályktunartillögunnar og það er nákvæmlega það sem hæstv. ráðherra stendur núna fyrir, þ.e. að breyta lögum til að leggja niður þennan sjóð. Það var þá sem þessi þingsályktunartillaga átti í raun og veru að gilda, fara að virka ef menn væru ekki búnir fyrr að marka einhverjum fjármunum farveg úr sjóðnum til þessara hluta sem gat auðvitað líka gerst ef menn hefðu unnið hratt í þessu máli. En fyrst og fremst voru menn að hugsa til loka sjóðsins eða það var a.m.k. mín skoðun á þeim tíma sem við fjölluðum um þetta, að menn væru að hugsa fyrst og fremst til loka sjóðsins þegar að þessu kæmi. Hæstv. ráðherra tók einhvern veginn þannig til orða áðan að ekkert samband væri milli þessara mála, þ.e. þess þingmáls, frumvarps sem nú liggur fyrir og þingsályktunartillögunnar.

Ég get ekki sætt mig við svona málflutning frá hendi hæstv. ráðherra því viljinn í þingsályktunartillögunni er ekkert vafamál. Það liggur algerlega í augum uppi hvað menn ætluðu sér og auðvitað er hægt að taka undir með hæstv. ráðherra að menn vilji, og hafi margsagt það í sölum Alþingis, styðja við það að meiri fjármunir séu til hafrannsókna. En viljinn til að taka á þessu máli liggur líka fyrir. Hann liggur fyrir í þingsályktunartillögunni.

Hæstv. ráðherra talaði eins og hann hefði enga ábyrgð á þessu máli. Hann er þó í ríkisstjórninni og hún hlýtur sem slík að bera ábyrgð á að framkvæma þingsályktunartillögur. Menn hljóta að þurfa að sameinast um að gera hlutina með skynsamlegum hætti þegar þeir hafa verið samþykktir á Alþingi. Þingsályktunartillagan liggur fyrir, henni er vísað til menntamálaráðherra til að framkvæma hana. Það er alger lágmarkskrafa að fyrir liggi hvernig menn ætla að uppfylla það sem í þeirri þingsályktun var þegar að lokum kemur eins og nú er, þ.e. að loka þessum sjóði. Ég ætla bara að segja að mér finnst Alþingi vera gerð mikil niðurlæging með þessari meðferð mála. Það er ekki boðlegt að svona sé farið með vilja Alþingis eins og hér stendur til að gera.

Þá kem ég að hlut hæstv. menntamálaráðherra í málinu. Hæstv. sjávarútvegsráðherra vitnaði í svör hæstv. menntamálaráðherra um það í hvaða farvegi þetta mál væri. Ég ætla svo sem ekkert að setja út á þann farveg sem hæstv. ráðherra hefur í nánd nema að einu leyti að svo virðist ekki vera að hæstv. menntamálaráðherra hafi fylgt þeim vilja Alþingis eftir sem kom fram í þingsályktunartillögunni og sóst eftir þeim fjármunum sem gert var ráð fyrir í þingsályktunartillögunni að yrðu til staðar. Það finnst mér vera til minnkunar hæstv. menntamálaráðherra að notfæra sér ekki þá möguleika sem eru til staðar í samkvæmt ályktun Alþingis til að tryggja fjármuni í þetta verkefni.

Ég ætla svo sem ekki að setja út á eða gera einhverjar sérstakar athugasemdir við það hvort hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur mikinn eða lítinn vilja til að standa að varðveislu gamalla skipa. Mér finnst að hæstv. ráðherra ætti að hafa mikinn vilja til þess. Mér finnst að þeir sem báru ábyrgð á þeim lögum sem voru um Þróunarsjóðinn og fylgdu eftir þeim vilja sem var í þeim lögum, sem var fylgt fram með því að bera á bálið hin bestu skip, höggva í spón og saga niður, mér finnst að þeir sem bera ábyrgð á þeirri vegferð allri eigi að finna til þeirrar ábyrgðar og ættu að ganga manna fremstir í því að reyna að bjarga því sem bjargað verður af því sem eftir er af þeim fulltrúum þessarar gömlu skipahefðar á Íslandi. Og það eru mörg verkefni sem þarna eru til staðar og eru í raun og veru að glatast að hluta til, drabbast niður, sem verður ekki til annars en að kostnaðurinn verður enn þá meiri en hann annars yrði við það að koma þeim í það ástand sem þau þyrftu að komast í. Við sjáum þetta allt í kringum okkur. Í heimabæ mínum standa t.d. tvö skip sem eru mjög góðir fulltrúar þess tíma sem þau voru notuð á. Kútter, sem var gríðarlega merkilegt skip á sínum tíma í upphafi síðustu aldar og skip, Höfrungur, sem var smíðað á Akranesi upp úr miðri síðustu öld og var í raun og veru fjölveiðiskip þess tíma, notað á vertíðum, notað við öll hugsanleg veiðarfæri, notað til síldveiða á sumrum. Skipið var íslensk hönnun og smíðað af Íslendingum, var happaskip og það er auðvitað alger fásinna að ekki skuli vera sá manndómur í okkur Íslendingum, að það skuli vera þannig að þessi fulltrúi þessa tíma sem Höfrungur er skuli ekki vera kominn fyrir löngu í almennilega varðveislu til framtíðar. Það eru auðvitað fleiri sem ættu þar að koma til, t.d. arftaki þess fyrirtækis sem átti þetta mikla happaskip og naut þess í gegnum áratugi hvað afraksturinn af rekstri þess skips var góður og hve vel hafði tekist til á allan hátt með smíði þess skips og eiginleikar þess voru rómaðir.

Ég er vissulega að tala um skip sem ég þekki en það er fullt af skipum í kringum landið til enn þá sem betur fer. Þau fóru ekki öll á bálið. Menn sáu að sér áður. Menn tóku kröfuna af um að höggva skyldi þessi skip í spón eða setja þau á bálið, höfðu hana ekki lengur að kvöð á útgerðarmönnum sem sóttust eftir fjármunum úr þróunarsjóði.

Þessi tillaga, breytingartillagan frá minni hluta sjávarútvegsnefndar, fer kannski eitthvað í taugarnar á hæstv. ráðherra en hún er í raun og veru mjög sanngjörn miðað við þær hugmyndir sem hæstv. ráðherra hafði á bak við lagafrumvarp sitt. Hæstv. ráðherra gerði ráð fyrir að hafa um 300–400 milljónir upp úr krafsinu þegar hann lagði fram frumvarp sitt. Breytingartillagan gengur út á að hæstv. ráðherra fái öllum sínum óskum fullnægt, hann fái 400 milljónir, hann fái hærri töluna en ef eitthvað verður eftir fram yfir það megi nýta það í öðru skyni. En það er ekki nóg, hæstv. ráðherra finnst það ekki nóg. Hann verður að fá það allt saman. Það veit svo sem enginn hvað það verður. En við sem erum í nefndinni töldum eftir samtal við þá sem best vita um ástand þessa sjóðs að einhverjir fjármunir yrðu eftir fram yfir þessar 400 milljónir og töldum að skynsamlegt væri og sanngjarnt að gera tillöguna með þeim hætti að hæstv. ráðherra fengi efri mörkin á draumum sínum uppfyllt en afgangurinn, ef hann yrði til staðar, væri þá til ráðstöfunar. En þetta dugar ekki hæstv. ráðherra. Honum finnst að hann verði að fá þetta allt saman og lemur okkur hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar með því að við séum á móti hafrannsóknum, af því að við viljum að staðið verði við þessa þingsályktun Alþingis. Mér finnst það ekki sanngjarnt og ég ætla að endurtaka það enn einu sinni, mér finnst það niðurlægjandi fyrir Alþingi að menn skuli ekki fara eftir þeim ályktunum sem þar eru gerðar og þó svo að hæstv. ráðherra finnist lög standa ofar en þingsályktanir verða menn að skoða málið í ljósi þess hvernig að þeim var staðið. Lögin um Þróunarsjóðinn voru til staðar þegar þingsályktun var sett og þingsályktun er auðvitað gerð löngu eftir að þróunarsjóðslögin tóku gildi þannig að Alþingi var í raun að lýsa vilja sínum á mjög skýran hátt þrátt fyrir lögin um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Ef ráðherra ætlar að halda sig við skýringar sínar á þessu máli er hann í raun og veru að segja að þeir sem samþykktu þessa þingsályktunartillögu, 49 þingmenn í sölum Alþingis, þar af átta ráðherrar, hafi ekkert í sinn haus vitað. Þeir hafi verið að samþykkja einhverja vitleysu, það hafi ekkert verið að marka þetta. Það er ekki nema von að menn verði argir í sölum Alþingis þegar á að ræða mál þar sem svona er í pottinn búið.

Mér finnst að hæstv. ráðherra ætti eins og nú háttar, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, að brjóta odd af oflæti sínu. Hæstv. ráðherra hlýtur að vera það ljóst að Alþingi gerði þessa ályktun með fullu ráði og rænu og Alþingi var ekki að gera þetta að gamni sínu heldur var vilji á bak við tillöguna. Það á auðvitað að virða þann vilja.

Ég verð að segja það alveg eins og er að ég trúi því ekki að þessi niðurstaða sem hæstv. ráðherra stendur að verði samþykkt í þinginu. Það er auðvitað niðurlægjandi fyrir þingið að gera það og þegar hv. þingmenn, stjórnarliðar, mæta í þingsal og þurfa að svara því við nafnakall hvort þeir séu tilbúnir að samþykkja þessa niðurstöðu verða þeir auðvitað minntir á áður en það nafnakall fer fram um hvað málið snýst. Það snýst um að þeir sem voru í þingsal á sínum tíma þegar þingsályktunartillagan var samþykkt snúi við blaðinu og taki aðra afstöðu en þeir höfðu þá. Og það snýst um það, ef niðurstaðan verður sú sem hæstv. ráðherra vill, að hér verði einu sinni sýnt fram á hvaða ofurtök ríkisstjórnin hefur á stjórnarliðinu. Það sé bara eins og sprellikarlar, hægt sé að kippa í spottann þegar ríkisstjórninni dettur það í hug. Þegar einhverjum hæstv. ráðherra dettur í hug að fara með mál í gegnum Alþingi skiptir engu máli þó að þingmenn hafi greitt atkvæði einhvern tíma öðruvísi áður. Ef ráðherra vill skal handleggurinn upp og á takkann, þann græna.

Háttvirtur formaður sjávarútvegsnefndar hefur ekki komið mikið til umræðu í dag. Hann mun ekki hafa verið einn af þeim sem greiddi atkvæði með málinu á sínum tíma. Hann sat þá í ríki sínu í Vestmannaeyjum. En hann ber ábyrgð í þessu máli, formaður sjávarútvegsnefndar. Hann ber sko sannarlega ábyrgð í þessu máli vegna þess að sjávarútvegsnefndin sjálf sameinaðist um þingsályktunartillöguna. Þótt hv. formaður sjávarútvegsnefndar hafi ekki verið í henni þá þá ætti hann að bera virðingu nefndarinnar fyrir brjósti og ekki ganga fram eins og þræll hæstv. sjávarútvegsráðherra í sal Alþingis, bara með það sem hann vill.

Það vantar eitthvað upp á að menn standi í lappirnar í sölum Alþingis. Mér finnst að stjórnarliðar þurfi að hugsa sitt mál betur. Það er ekki vansalaust hve oft þeir eru látnir greiða atkvæði, augljóslega gegn vilja sínum. Það getur ekki verið, t.d. í þessu tilfelli, að svo margir séu viljugir til að greiða atkvæði öðruvísi en þeir greiddu atkvæði fyrir fimm árum. Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur ekki með neinum hætti útskýrt hvað breyttist. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson spurði vendilega um hvað hefði breyst. Hæstv. ráðherra útskýrði það ekki svo að neitt hefði breyst. Ekki gat ég skilið það. Enda hefur nákvæmlega ekkert breyst annað en að nú, kannski svolítið fyrr en menn reiknuðu með, er komið að því að leggja niður sjóðinn. Ekki geta það verið rök fyrir því að fara ekki að vilja Alþingis. Það get ég ekki ímyndað mér.

Ég held að hæstv. forseti Alþingis hljóti að vera hugsi yfir þessu öllu saman. Hann hlýtur að bera virðingu Alþingis fyrir brjósti og hæstv. forseti Alþingis ætti alltaf að vera í brjóstvörninni fyrir virðingu Alþingis. Hann ætti auðvitað að hafa miklar áhyggjur af því ef hægt gengur að fylgja eftir niðurstöðum sem orðið hafa á Alþingi, ályktunum Alþingis. Hann hlýtur að hafa miklar áhyggjur af því ef menn ætla að hunsa þann vilja sem Alþingi hefur staðfest hér í þingsal.

Það hlýtur að vera komið að því að menn fari að ræða þessi mál. Mér finnst þetta mál prýðilegt dæmi til að menn fari yfir það hve langt er hægt að ganga gegn því sem hefur verið samþykkt í þessum þingsal. Ég sagði fyrr í dag að ég tel að það hefði verið allt annað ef ríkisstjórnin, og þá menntamálaráðherrann og sjávarútvegsráðherra, hefðu báðir mætt með hugmyndir um hvernig eigi að uppfylla þessa þingsályktun, ef það hefði legið fyrir með hvaða hætti menn ætluðu að gera það. Þá hefðu menn getað metið það í þingsal hvort vilja Alþingis væri með því fullnægt. Þær upplýsingar sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur komið með í umræðuna í dag benda alls ekki til þess að botn hafi fundist í það með hvaða hætti eigi að fjármagna varðveislu gamalla skipa og báta, eins og lögð voru drög að að yrði gert með áðurnefndri ályktun.

Hæstv. forseti. Ég man eftir þó nokkuð mörgum umræðum í sölum Alþingis frá því að lögin um þróunarsjóð voru með þeim hætti sem ég nefndi fyrr í ræðu minni, þ.e. meðan kvaðir voru á útgerðarmönnum sem fengu fjármuni úr sjóðnum um að þeir skyldu eyða þessum skipum. Þessum ákvæðum var fylgt býsna hart eftir. Það voru meira að segja sett upp heilu portin til þess að safna bátum í og því fylgt eftir að búið væri að saga nógu mikið úr eða kveikja í skipunum sem ætti að borga út, að örugglega væri búið að tortíma þeim þannig að ekki væri hægt að gera við þau. Þetta var ótrúleg hugmynd sem þar var fylgt eftir. Mér finnst að þeir sem bera ábyrgð á því ferli þurfi að koma til skjalanna og standa sig betur en þeir hafa gert fram að þessu í að bjarga því sem bjargað verður.

Þessi saga verður örugglega skrifuð einhvern tíma. Hún verður ekki þeim mönnum til frægðar sem þar báru ábyrgðina. Það var aldrei þörf á að gera hlutina með þessum hætti. Meira að segja þó að menn hefðu skrifað upp á allt sem þarna var gert þá var nóg að koma í veg fyrir að skipin fengju veiðileyfi. Það þurfti ekki að gera kröfu um að eyðileggja þau. En nei, nei, það var ekki nóg. Það varð að tortíma þeim.

Þarna var þjónað hugmyndum manna sem höfðu of mikil völd í þjóðfélaginu á þessum tíma og þeir fengu sitt fram. En auðvitað var ábyrgðin ekki hjá þeim. Ábyrgðin var hér í sölum Alþingis og getur aldrei verið annars staðar. Henni verður ekki kastað á menn úti í bæ. Hún á heima hér. Það er að mínu viti þess vegna sem þessi þingsályktun var samþykkt í sölum Alþingis. Ég taldi mig a.m.k. standa að þingsályktun sem orðið hefði til vegna þess að mönnum fyndist ástæða til — þar sem þessi vitleysa, þessi herför gegn skipum og bátum var ákveðin hér — að í þessum sama sal kæmu menn til baka með einhverja björgun. Til þess var þessi þingsályktun að mínu viti. Hún var til að bæta svolítið fyrir þessi alvarlegu brot.

En hæstv. sjávarútvegsráðherra virðist á annarri skoðun. Hann hefur þó verið á Alþingi allan þennan tíma og ber ekki minni ábyrgð en aðrir á þessu, á þessari herför, þessari eyðingarferð sem fram fór. Hæstv. forseti Alþingis ber líka ábyrgð. Mér finnst að hann hljóti að hafa áhyggjur af því að því sé ekki fylgt eftir sem Alþingi samþykkti fyrir fimm árum hvað þetta varðar. Ef menn ætla sér síðan að hlaupa frá þeirri samþykkt alfarið, eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra vill, þá hlýtur hæstv. forseti að hafa áhyggjur af því. Hann er auðvitað í forsvari fyrir virðingu Alþingis og hugsar um hana alla daga.

Ekki veit ég hvort hæstv. sjávarútvegsráðherra, sem hefur þó sýnt okkur þá virðingu að vera viðstaddur þessa umræðu og hlusta á það sem hér hefur verið sagt, hefur tekið mikið mark á orðum okkar. Svo var ekki að heyra á síðustu ræðu hans. En mér finnst að hann ætti að gera það. Mér finnst að hann eigi að viðurkenna ábyrgð sína á herförinni gegn gömlum skipum og bátum í landinu. Hann samþykkti hana og fylgdi henni eftir. Ég veit ekki betur en að hann hafi gert það nauðungarlaust. Hann hefur a.m.k. aldrei, svo ég viti til, talað um annað. Hann leiðréttir mig þá ef ég fer með rangt mál hvað það varðar.

En hvernig sem fortíðin er hjá hæstv. ráðherra þá finnst mér að hann, sem maður sem getur ráðið einhverju hvað þetta varðar, eigi að ganga fram og sýna að þeir sem stóðu fyrir þessu öllu saman séu tilbúnir að leggja eitthvað á sig til að bjarga því sem bjargað verður. Það var það sem menn ætluðu sér með títtnefndri þingsályktun.

Það er mikill skaði að hæstv. menntamálaráðherra skuli ekki vera hér. Hún hefði þurft að fara betur yfir það hver ætlunin væri að gera í málinu. Það er undarlegt ef hæstv. menntamálaráðherra hefur ekki haft áhuga á að sækjast eftir þeim fjármunum sem Alþingi benti ráðherra á að nýta í þessu skyni. Mér finnst hæstv. menntamálaráðherra alls ekki hafa staðið sig í stykkinu ef hún hefur ekki gert það. Orð hæstv. sjávarútvegsráðherra benda ekki til þess að hæstv. menntamálaráðherra hafi gert harða hríð að því að nálgast fjármuni í Þróunarsjóði, sem var þó meira en ástæða til að gera. Ég lít a.m.k. á það sem skyldu hæstv. menntamálaráðherra að nýta sér þá möguleika sem fyrir hendi eru til að fylgja eftir ályktunum Alþingis. Í sjálfri ályktuninni er gert ráð fyrir því að einhverjir fjármunir komi úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins og þá hlýtur hæstv. menntamálaráðherra að fylgja því eftir. Ráðherra á auðvitað ekki að gefa það eftir að fá eitthvað gegnum þá ályktun í það verkefni sem hæstv. ráðherra er ætlað að vinna að. Það hefði þess vegna verið full ástæða til að hæstv. menntamálaráðherra hefði verið hér og gefið skýrslu.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra, sem gegnir nú starfi menntamálaráðherra, hlýtur, ef sá möguleiki hefur verið fyrir hendi undir umræðunni núna, að hafa haft samband við hæstv. menntamálaráðherra og spurt hvort hæstv. menntamálaráðherra vildi koma einhverju á framfæri um hvað hann hefði verið að sýsla varðandi fjármögnun þess verkefnis sem fólst í þingsályktuninni. Menn vilja fá útskýringu á því af hverju menntamálaráðherra hefur ekki sóst eftir fjármunum til verkefnisins. Ég fer fram á það að hæstv. sjávarútvegsráðherra leiði okkur í allan sannleika um þetta úr því að hann er í hlutverki menntamálaráðherra. Ég tel að það sé full ástæða til þess.

Hæstv. forseti. Ég held að ég hafi komið því á framfæri sem ég vildi segja. Ég tel að það sé full ástæða til þess að ræða málið eins og gert hefur verið í dag. Ég held reyndar að við í sölum Alþingis höfum ekki staðið okkur nægilega vel á undanförnum árum í að ræða um þau málefni sem búa að baki, þau menningarverðmæti sem um er að ræða og það mikla slys og ótrúlega skilningsleysi á þessum menningarverðmætum sem herförin, sem fjármunir úr þróunarsjóði voru notaðir til, hafði í för með sér. Ég held að nú ætti að vera komið að þeirri stundu að þeir sem mesta ábyrgð bera á þeirri herför leggi sitt af mörkum og sjái til þess að gert verði átak sem eitthvað munar um. Sú tillaga sem núna liggur fyrir frá minni hluta sjávarútvegsnefndar er tilraun til að tryggja fjármuni í slíkt átak en ekki síst til að bjarga Alþingi frá þeirri niðurlægingu að ályktanir þess séu virtar að vettugi.