131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[19:48]

Jóhann Ársælsson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Nú veit ég svo sem ekki hversu margir eru á mælendaskránni. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. forseti ætli að halda umræðunni áfram. En ég hefði áhuga á því að vita hve lengi hæstv. forseti ætlar að gera það. Varla getur það nú verið mjög lengi því að ekki hefur verið gert ráð fyrir að hér verði kvöldfundur. Mig langar því að spyrja hæstv. forseta hversu lengi umræðan eigi að standa. Mun henni ljúka hversu lengi sem hér verður talað í þessum ræðustól?

(Forseti (HBl): Ég hafði sagt að ég hafði hugsað mér að ljúka umræðunni, hv. þingmaður. Það eru tveir hv. þingmenn á mælendaskrá og ég hygg að það eigi að vera unnt að ljúka umræðunni í kvöld. Það eru mörg mál sem bíða afgreiðslu og gott ef hægt verður að ljúka þessu máli.)

Hæstv. forseti. Mér finnst það ekki góð framkoma við hv. þingmenn ef ekki er gert ráð fyrir því þegar menn ætla hér að hafa kvöldfundi. Mér finnst þess vegna að þegar það stendur til þá eigi að koma því á framfæri þannig að þingmenn geti mætt hér til þeirrar umræðu sem er ef það á að hafa hana fram eftir kvöldi og menn geti gert ráð fyrir því.

Það er líka þannig að ekki hefur verið gert ráð fyrir neinu matarkyns fyrir þingmenn. Það er nú ekki venja heldur að hér séu langir fundir fram eftir kvöldi án þess að þannig sé fyrir hlutunum haft. Hæstv. forseti er að taka upp ný vinnubrögð ef hann ætlar ekki að gera vel við sína þingmenn. Hann hefur fram að þessu gert það og ég hef svo sem litla ástæðu til að halda að hann ætli að bregða þeim vana sínum, en spyr að því svona í leiðinni.