131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[19:51]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Undir þessum lið um fundarstjórn forseta vil ég vekja athygli hæstv. forseta á því að sú þingsályktun sem komið hefur hér mikið inn í umræðuna í dag og verið bitbein í þessari umræðu dálítið var samþykkt með því fororði að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar en ekki einstaks ráðherra og hefði átt að framkvæmast sem slík eftir efni sínu. Við höfum hins vegar kannski fullan skilning á því í hv. Alþingi að málið geti verið með þeim hætti vegna stöðunnar í Þróunarsjóðnum að menn vilji hinkra með niðurstöðu málsins.

Ég vil mælast til þess við hæstv. forseta þingsins að menntamálaráðherra komi hér til umræðunnar á morgun. Þar sem sjávarútvegsráðherra er nú bæði sjávarútvegsráðherra og menntamálaráðherra í dag þá fáum við væntanlega menntamálaráðherra hér á morgun ef hann víkur af þinginu annarra starfa vegna og þá gætum við átt málefnalega umræðu við hæstv. menntamálaráðherra um þetta mál. Það væri fróðlegt að fá það upplýst hvort málið sé þannig í pottinn búið að hæstv. menntamálaráðherra verði hér viðstaddur umræðuna ef hún gæti haldið áfram á morgun, hæstv. forseti.