131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[21:28]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að halda áfram þar sem frá var horfið í fyrri ræðu minni um það mál sem hér er til umræðu, um breytingar á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, sem felst í rauninni í að hann sé lagður niður.

Í raun hafa ekki komið nein frambærileg rök fyrir því hvers vegna er verið að flýta því að leggja sjóðinn niður. Sjóðurinn hefur haft hlutverk sem hagræðingarsjóður og er reyndar afsprengi af sjóði sem áður hét Hagræðingarsjóður, þótti eitthvað fínna að breyta nafninu í Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Það er nú svona þegar verið er að reyna að skreyta og mála lélegar fjaðrir. Hann hefur eða á að hafa það hlutverk að hagræða, styrkja og efla sjávarútveg í landinu. Þótt hlutverk hans að höggva niður skip sé kannski ekki orðið meginmál í dag getum við ekki séð annað en sjávarútvegurinn þurfi áfram á slíkum stuðningi að halda sem hægt er að sækja í gegnum Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Þannig að rökin fyrir að flýta því að leggja hann niður hafa ekki komið fram, herra forseti.

Það hefur ekki komið fram á Alþingi að fullreynt sé hve mikið sé hægt að hagræða í sjávarútvegi. Eða hve mikið sé hægt að styrkja og efla sjávarútveginn enda upplifum við það nánast vikulega að fiskvinnslustöðvum sé lokað eða að bátar verði að hætta sjósókn vegna þess að aflakvóta skorti til að sækja sjóinn. Í þessum sjóði er talið að séu 300–500 millj. kr. Það hefði t.d. þótt mikill stuðningur hefði ekki verið veitt nema 10–20 millj. kr. til fiskvinnslunnar á Hofsósi til að styrkja og efla sjávarútveginn þar, þróa hann eins og stendur í lögum um þróunarsjóð. Það hefði verið styrkur af því. Ekkert í lögum sjóðsins bannar að hann komi þar að og, eins og nafnið gefur til kynna, þrói og efli sjávarútveginn þar eða á Stöðvarfirði, eða sjávarplássunum kringum Vestfirði, eða á Skagaströnd og Blönduósi. Allt eru þetta staðir sem eiga undir högg að sækja, m.a. vegna stefnunnar í sjávarútvegsmálum og hvernig hún hefur verið keyrð fram. Þessi sjóður hefur einnig verið notaður til að eyðileggja atvinnulíf í mörgum byggðum. Í lögum um breyting á lögum um forvera þessa sjóðs, Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins, frá 1992, stendur í 6. gr., með leyfi forseta, þar sem kveðið er á um hverjir og hvernig megi úrelda skip:

„Skilyrði fyrir veitingu loforðs um styrk vegna úreldingar fiskiskips er að eigandi þess lýsi því yfir að skipið verði tekið af skipaskrá, að réttur til endurnýjunar þess verði ekki nýttur og enn fremur að allar veiðiheimildir skipsins verði varanlega sameinaðar aflaheimildum annarra fiskiskipa.

Óheimilt er að greiða úreldingarstyrk fyrr en fyrir liggur vottorð Siglingamálastofnunar ríkisins um afskráningu skipsins af skipaskrá og yfirlýsing frá sjávarútvegsráðuneytinu um að allar aflaheimildir skipsins hafi varanlega verið sameinaðar aflaheimildum annarra skipa og að fallið hafi verið frá rétti til endurnýjunar skipsins.“

Hv. þingmenn hafa lýst því að þeir hafi séð með eigin augum þegar þessi skip voru höggvin niður til þess að fullnægja þessum kröfum, í heilu lagi, skip sem voru vel sjófær. Forseti, hvaða vit er í slíku vinnulagi, að höggva niður vel haffær skip, atvinnutæki heilla byggðarlaga? Það stendur í lögunum að eigandi fiskiskipsins ráði því. Eigandinn er ekki einangrað fyrirbrigði í einu sjávarplássi. Þar eiga allir aðrir sitt undir því að skipið haldi til veiða. En honum er mútað til að höggva það niður. Íbúarnir eru ekki spurðir. Ætla íbúarnir á Hofsósi hafi verið spurðir? Ætli íbúarnir á Flateyri hafi verið spurðir? Nei, eigandinn er annaðhvort skikkaður eða honum með óbeinum hætti mútað til að taka skipið úr notkun en eftir situr byggðarlagið atvinnulaust. Þannig hefur Þróunarsjóður sjávarútvegsins lagt sitt af mörkum til að marka hin djúpu sár sem eru í sjávarútvegi vítt og breitt um landið.

Þetta minnir á herferðina sem á undanförnum árum hefur verið rekin gagnvart sláturhúsum í landinu. Nákvæmlega það sama. Peningarnir fyrir hin höggnu skip runnu ekki til byggðarlagsins til að efla nýtt atvinnulíf. Eða var það, herra forseti? Ekki held ég. Þeir runnu ekki til byggðarlagsins. Sama upplifum við nú, að ríkið beitir ríkisfjármagni til að svipta byggðarlög atvinnu sinni eins og með úreldingu á sláturhúsum. Ríkið borgar fyrir að leggja niður lítil en hagkvæm sláturhús í byggðarlögunum, að því er virðist til að skapa svigrúm og möguleika á að ná arðsemi úr offjárfestingum í stórum sláturhúsunum.

Nýjasta dæmið er á Kirkjubæjarklaustri. Þar á að úrelda sláturhús, gott sláturhús sem þarf að sjálfsögðu eðlilegt viðhald. Peningarnir sem ríkið greiðir fyrir það að loka þessu sláturhúsi á Kirkjubæjarklaustri renna ekki til fólksins á Kirkjubæjarklaustri. Nei, þeir renna í stóra hít sem heitir Sláturfélag Suðurlands. Menn höfðu ekki einu sinni fyrir því að hafa samband við fólkið á Kirkjubæjarklaustri áður en þeir ákváðu að loka og sækja um peninga frá ríkinu til að hagræða sláturhúsið burt. Við erum að upplifa nákvæmlega hið sama þar og gert var með þessum sjóði, Þróunarsjóði sjávarútvegsins.

Líklega hefði verið best að taka þessa peninga, þessar 400 eða 500 millj. kr. og deila til þeirra sjávarplássa sem urðu harðast úti í misbeitingu þessa sjóðs, sjávarþorpanna á Vestfjörðum, sjávarþorpanna á Norðurlandi, Austurlandi og hringinn í kringum landið þar sem íbúarnir höfðu ekkert um það að segja þegar ríkið keypti frá þeim atvinnutækifærin. Það fólk ætti að fá þessa peninga til baka, ef sjóðurinn sér ekki þörf á að taka þátt í uppbyggingu sjávarútvegs á þessum stöðum. Engin rök hafa verið færð fyrir því hvers vegna flýta þurfi því að leggja þennan sjóð niður.

Áður en hann yrði lagður niður væri fróðlegt að gera úttekt á sporaslóð þessa sjóðs, aðgerðum hans, hvar þær hafa komið harðast niður, hvar flest skipin voru höggvin, hvar flest fólk missti atvinnu sína vegna þess að skipin voru eyðilögð og tekin úr notkun. Hvar kom þetta harðast niður? Réttast væri að gera þá úttekt og skila peningunum aftur til fólksins.

Herra forseti. Maður verður dapur þegar maður hugsar til þess að ríkið, ríkisvaldið, skuli ganga fram með þessum hætti, að kaupa burt atvinnutækifæri fólks eins og beita til þess sjóðum undir flaggi hagræðingar.

Ég vonast til þess að herra forseti finni af hinni löngu og ítarlegu umræðu sem fram fer um þetta mál að þetta mál er alls ekki tilbúið til afgreiðslu af hálfu þingsins. Það eru engin rök fyrir því að flýta því að leggja niður sjóðinn. Áður en sjóðurinn verður lagður niður væri kannski réttast að kanna hvernig bæta megi fyrir gjörðir hans, hvar þær hafi komið harðast niður, hvað sjóðurinn hefur hagrætt burt, keypt burt fiskiskipin og hvar hann skilur eftir verstu sárin. Kanna þyrfti hvar hann gæti komið inn í og bætt um. Ég tel þetta mikilvægt áður en sjóðnum verður ráðstafað til sjávarútvegsráðherra sem ásamt undirmönnum sínum ráðstafar honum að vild.

Önnur hlið á meðferð þessa máls hefur einnig verið rakin, þar sem greint hefur verið frá samþykkt þingsályktunartillögu um verndun skipa til að reyna að bjarga nokkrum af þeim menningarverðmætum sem hafa sloppið undan öxinni, sloppið undan eyðingu sjóðsins. Hún gengur út á að við eigum þótt ekki væri nema eitt, tvö eða þrjú skip sem minni á gamla góða tíma í sjávarútvegi meðan veiðar voru stundaðar á þessum skipum, eikarbátum sem áttu sinn þátt í að gera Ísland að því efnahagslega veldi sem það er nú. Þetta muna sjómenn sem reru á þessum skipum, fólkið sem vann í landi og vann fiskinn af þessum skipum sem síðan voru höggvin niður í nafni hagræðingar.

Alþingi samþykkir síðan þingsályktunartillögu samhljóða um að nokkru fjármagni skuli varið til þess að vernda þennan menningararf. En þá verða meiri hlutinn, ríkisstjórnin, ráðherrann, hæstv. sjávarútvegsráðherra, svo litlir að það er ekki einu sinni hægt að verða við þeirri samþykkt Alþingis. Nei, lítið er geð guma.

Meira að segja er það svo, herra forseti, að sjávarútvegsnefnd flytur heil og óskipt um þetta tillögu á Alþingi árið 2000. Þar segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa tillögur um hvernig skuli staðið að varðveislu gamalla skipa og báta sem eru mikilsverðar minjar um atvinnu og byggðasögu.“

Auðvitað vildum við ekki að þetta væru minjar. Að sjálfsögðu vildum við að frá þeim stöðum þar sem þessir bátar gegndu lykilhlutverki að þær væri öflug útgerð, öflug dagróðrabátaútgerð og fiskvinnsla. Auðvitað vildum við að við þyrftum ekki að ræða um að setja þennan kafla atvinnusögu þjóðarinnar á safn eða varðveita sem minjar. Auðvitað er það dapurt í sjálfu sér og ætti að gera allt til að koma í veg fyrir að svo þurfi að vera. Það styður þá kröfu mína um að þessum sjóði verði varið til að efla dagróðraflotann aftur á þeim stöðum þar sem hann var höggvinn burt.

En í þessari tillögu er ítrekað bent á að Þróunarsjóður sjávarútvegsins taki þátt í þessu verkefni. Í greinargerð með tillögunni, sem sjávarútvegsnefnd öll flytur, segir, með leyfi forseta:

„Nefndin flytur þessa tillögu í framhaldi af umfjöllun um 102. mál, frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 92/1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum. Í því er lagt til að Þróunarsjóður sjávarútvegsins veiti byggðasöfnum og sjóminjasöfnum styrki til varðveislu skipa samkvæmt nánar skilgreindum reglum. Frumvarpið var flutt af þingmönnum allra þingflokka sem sæti eiga á Alþingi.“

Það fer ekkert á milli mála hér hver vilji Alþingis er. Hann er kýrskýr. Það er dapurt ef hæstv. sjávarútvegsráðherra telur sig umkominn að ganga þvert og berlega gegn einlægri samþykkt Alþingis. Ég trúi því ekki að hæstv. forseti, sem á það til að vera réttsýnn og getur oft verið það, láti slíka ósvinnu viðgangast og að Alþingi sé sýnd þessi lítilsvirðing. Auk þess held ég að þegar þetta var samþykkt, og forseti getur leiðrétt mig ef hann greiddi þessu ekki atkvæði á sínum tíma, að þá hafi hæstv. forseti verið því fylgjandi að bátar væru varðveittir með þessum hætti.

Maður veltir því fyrir sér hvort sjávarútvegsráðherra sé eitthvað í nöp við þessa báta, við þessa atvinnusögu þjóðarinnar. Skammast hann sín fyrir hana á einhvern hátt? Telur hann sig bera ábyrgð á því að bátarnir hafi verið höggnir og byggðarlögin skilin eftir með skerta atvinnu og atvinnumöguleika? Skammast hann sín kannski fyrir þennan kafla í atvinnusögunni, vill hann helst breiða yfir hana og ekki viðurkenna að sagan hafi verið til? Það er ámælisvert hvernig þróunarsjóðnum var oft og tíðum beitt til að höggva burt atvinnu í sjávarbyggðunum. Þá er eins gott að ráðherrann segi að honum finnist að það ætti að gleyma þeirri sögu. Það eru rök fyrir því að hafna því að fjármagn fari í að varðveita skipin. Menn geta verið á móti því að sögunni sé haldið til haga. Ef hæstv. ráðherra kemur ekki og leiðréttir það held ég að líta verði svo á, því það eru rök í málinu. En það eru ekki rök í málinu að segjast vera fylgjandi því að þetta sé gert og finnast allt gott um samþykkt Alþingis en vera staðráðinn í að hafa hana að engu. Það eru ekki heiðarleg vinnubrögð.

Herra forseti. Ég veit ekki hvað þarf að tína til mörg rök til að forseti átti sig á því að hér er verið að keyra í gegn mál á afar óeðlilegan hátt. Eins og ég hef rakið er ástæða til að gera úttekt á því hvar hagræðingaraðgerðir í sjávarútvegi hafa komið harðast niður, hvar höggvin hafa verið burt í nafni hagræðingar flest störfin á litlu sjávarbyggðunum vítt og breitt um landið, hvernig bæta mætti þar úr, hvernig hægt væri að beita sjóðnum til að bæta þar fyrir og styrkja atvinnulífið, hvort sem er í sjávarplássunum á Vestfjörðum, Norðurlandi eða Austurlandi. Hæstv. forseti ætti t.d. að hafa áhyggjur af málum á Stöðvarfirði. Væri ekki hægt að nýta fjármagnið til að styrkja sjávarútveginn þar?

Ég er ekki að gera lítið úr verkefnum og mikilvægi Hafrannsóknastofnunar, en Hafrannsóknastofnun er A-hluta stofnun og fær fjármagn sitt á fjárlögum. Þingið afgreiðir fjárlög til A-hluta stofnana. Það eiga ekki að vera neinir sjálftökusjóðir í ráðuneytum til útdeilingar fyrir A-hluta stofnanir. Það stríðir gegn fjárreiðulögunum. Að vísu hefur núverandi ríkisstjórn, hæstv. fjármálaráðherra og aðrir ráðherrar farið mjög á svig við fjárreiðulögin og fundist það í lagi. En fjárreiðulögin voru sett til að fara eftir þeim og til að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og láta þau fylgja lögum og ákvörðunum Alþingis. A-hluta stofnanir eiga að fá fjármagn sitt á fjárlögum. Lög kveða á um það, en ekki að fá ótilteknar úthlutanir frá einhverjum sjóðum eða pottum í ráðuneytunum.

Ríkisendurskoðun hefur ítrekað gert athugasemdir við þá sjóði og potta sem ráðuneytin fá til að útdeila að eigin geðþótta. Ég er ekki að segja að þeim sé illa ráðstafað en það er heldur engin trygging fyrir því að þeim sé vel ráðstafað. Fyrir utan það þá er það á svig við lög að fjármagna stofnunina með þessum hætti. Hafrannsóknastofnun á að hafa alla burði til að sýna fram á þörf fyrir rannsóknir og við þingmenn eigum líka að hafa alla burði til að skilja og meta þá þörf og veita til þess fjármagn á fjárlögum. Það að búa til einhverja aðra potta til að fjármagna Hafrannsóknastofnun er bara flótti, vantraust á þingið og vantraust á hæstv. sjávarútvegsráðherra að geta ekki haldið málum stofnunar sinnar til haga með þeim hætti að Alþingi veiti til hennar nægilegt fé og þurfa að fara bakdyramegin með það.

Málið er því af mörgum ástæðum, sem ég hef rakið, vanbúið til afgreiðslu. Ég legg til að hæstv. forseti sjái það og geri sér grein fyrir að ef koma á í veg fyrir óhæfi í vinnu beri að fresta afgreiðslu málsins og láta það fara aftur til sjávarútvegsnefndar. Þar er hægt að gera á því þær nauðsynlegu lagfæringar sem þarf að gera, samþykkja þá breytingartillögu sem hér liggur fyrir af hálfu minni hlutans og skýra betur hvers vegna flýta þarf því að sjóðurinn verði lagður niður, skoða hvaða ábyrgð sjóðurinn ber á gjörðum sínum gagnvart sjávarplássunum, gagnvart fólkinu meðfram ströndinni vítt og breitt um landið og hvernig hægt er að beita fjármagninu sem sjóðurinn á enn til að bæta úr því tjóni sem hann olli í hinum ýmsu sjávarbyggðum og þær hafa ekki enn bitið úr nálinni með.

Herra forseti. Ég treysti því að réttsýni forseta nái það langt að hann sjái að málið er fullkomlega vanreifað til lokaafgreiðslu.