131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[22:04]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég beið eftir því að hæstv. sjávarútvegsráðherra svaraði þeim spurningum sem ég beindi til hans í ræðu minni. Ef hann hefur ekki lagt við hlustir, sem ég reikna allt eins með vegna þess að það virðist lítið koma út úr því að hlýða honum yfir árangursleysi og vitleysisgang stjórnunar sinnar undanfarin ár, þá vil ég beina þeim orðum til hans hvort hann geti ekki séð sóma sinn í því að svara þeim spurningum sem ég bar upp í ræðu minni. Þær voru á þessa leið: Hvað varð til þess að Alþingi eða hæstv. ráðherra breytti um stefnu, þ.e. að virða ekki fyrri samþykktir Alþingis og gera ekkert með það að setja eitthvað af fjármunum þróunarsjóðsins til varðveislu gamalla báta og skipa? Hvað var það sem breytti þessu og að allir fjármunirnir fari til Hafrannsóknastofnunar eða til hafrannsókna?

Það hljóta að vera einhverjar ástæður fyrir þessari stefnubreytingu hæstv. ráðherra. Ég nefndi hvort það gæti verið mögulegt að nýjar fréttir úr ralli Hafrannsóknastofnunar gefi til kynna að þeir þurfi aukna fjármuni, eða þá að fara eigi fram enn ein úttekt á þessu kerfi vegna þess að við fyrri úttekt á aflareglu voru það sömu menn sem gerðu úttektina og bjuggu til regluna, sem er óskiljanlegt og ekki fyrir nokkurn mann að skilja að menn séu látnir taka út sín eigin verk. Það hlýtur að vera einsdæmi að ekki sé hægt að finna einhverja aðra til þess.

Varðandi aflaregluna þá var leitað alla leið til Bandaríkjanna. Jú, jú, það var í sjálfu sér ágætt að fara þangað, en þar var fenginn græningi, Rosenberg, sem er í rauninni á móti veiðum og er með mjög sérstakar skoðanir og er að reikna t.d. þorskstofna 150 eða jafnvel 170 ár aftur í tímann. Auðvitað sjá allir sem velta þessu eitthvað fyrir sér að það að ætla að reikna 170 ár aftur í tímann með einhverri vissu er bara hrein og klár della þegar menn geta ekki sagt fyrir um þorskaflann á næsta ári og hvað þá á þarnæsta ári, að þá séu menn að reikna áratugi og jafnvel aldir aftur í tímann. Þetta var maðurinn sem hæstv. sjávarútvegsráðherra fékk til að gera úttekt á þessari aflareglu sem því miður hefur engu skilað.

Menn hljóta því að spyrja hvort von sé á stefnubreytingu, hvort hæstv. sjávarútvegsráðherra ætli að fara í einhverja úttekt á árangursleysinu og það sé einmitt það sem þessir fjármunir eigi að fara í. Það hlýtur að vera eðlilegt að svara þeirri spurningu ef ekki er hægt að sjá á eftir örfáum milljónum til varðveislu verðugra verkefna sem hið háa Alþingi hefur samþykkt. Menn hljóta að þurfa að svara fyrir hvað það er sem kallar á þessa skyndilegu stefnubreytingu. Ég vona að hæstv. sjávarútvegsráðherra sjái sóma sinn í að svara því hér, og t.d. hvort hann muni veita fjármuni í að kanna kenningar sem komið hafa fram hér á landi þar sem verið er að gagnrýna Hafrannsóknastofnun. Til dæmis vil ég nefna ágætan mann norður í landi, fyrrum þingmann Sjálfstæðisflokksins, Kristin Pétursson, sem hefur komið fram með mjög áhugaverðar kenningar. Mun ráðherra frekar leita til hans en græningja í Bandaríkjunum sem eru að reikna áratugi og aldir aftur í tímann og það verði einmitt verkefni þeirra fjármuna sem fást út úr því þegar þróunarsjóðurinn verður lagður niður.

Fleiri má nefna, t.d. Jón Kristjánsson fiskifræðing sem hefur skilað gríðarlegum árangri í Færeyjum. Þar virðast menn vera að veiða nokkuð jafnt og þeir hafa gert gegnum síðustu öld og ganga þokkalega. En hæstv. sjávarútvegsráðherra fór til Bandaríkjanna og fékk græningja til að gera úttekt á kerfi okkar sem hefur engu skilað og síðan sömu menn og bjuggu til aflaregluna. Það hlýtur að vera mjög sérstakt.

Megum við eiga von á einhverri stefnubreytingu hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra? Ég vona að skynsemin ráði og að ráðherra, sem var að vanda um við menn fyrr í umræðunni að gæta orða sinna, sem ég reyni nú að taka tillit til, taki einnig tillit til orða minna hér og svari þeim fyrirspurnum sem beint er í bróðerni til hans.