131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Jafnréttismál í landbúnaði.

[13:42]

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka frummælanda fyrir að taka upp þessa utandagskrárumræðu um jafnréttismál í landbúnaði. Tilefnin eru ærin þó að svör hæstv. landbúnaðarráðherra við fyrirspurn hv. þm. Önnu Kristínar Gunnarsdóttur um jafnréttisáætlun og skipan í stöður innan landbúnaðarráðuneytisins gefi ein og sér ástæðu til að skoða málin mjög alvarlega. Það er ljóst að mikill kynjahalli er við ráðningu starfsmanna og við skipan í nefndir og ráð á vegum landbúnaðarráðuneytisins hvort heldur er í fastanefndir eða tímabundnar nefndir. Af öllum samanlögðum nefndarskipununum eru 217 karlar á móti 40 konum. Bændasamtökin eiga sjálf þarna hlut að máli þar sem þau eða búnaðarsamtökin hafa ekki gætt jafnréttissjónarmiða við tilnefningu í ráð og nefndir.

Af vettvangi Bændasamtaka Íslands og búnaðarsambandanna er svipaða sögu að segja og því ekki að undra að konur í landbúnaði hafi nú tekið sig saman og myndað grasrótarhreyfingu til að bæta stöðu kvenna. Samtakamáttur kvenna skilaði sér inn á nýliðið búnaðarþing með samþykkt jafnréttisáætlunar Bændasamtaka Íslands.

Konur í sveitum landsins hafa frá aldaöðli staðið jafnt að verkum og karlar þótt verkaskipting hafi lengst af verið hefðbundin eftir kynjum. Stöðu kvenna í landbúnaði má að mörgu leyti líkja við stöðu heimavinnandi húsmæðra fyrr á tíð. Störf þeirra og þekking eru ekki metin að verðleikum, eru ekki sýnileg í opinberum tölum og lífeyrisréttindi allt of margra eru takmörkuð.

Hæstv. forseti. Það er mikilvægt að kanna hvort starfshættir opinberra stofnana sem ætlað er að styðja við atvinnulífið vinni á einhvern hátt gegn konum eða stuðli að ójöfnuði gegn þeim. Bent hefur verið á eðlislægt vandamál innan stjórnkerfisins, þ.e. að karlar tilnefni karla, og hefur þessu vandamálið verið líkt við andlega samkynhneigð.