131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Jafnréttismál í landbúnaði.

[13:53]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Á vefritinu bondi.is eru oft lífleg skoðanaskipti. Nú nýverið birtist þar einmitt bréf frá Guðrúnu Lárusdóttur, bónda og húsfreyju í Keldudal, sem ég ætla að leyfa mér að vitna í, með leyfi forseta:

„Tryggingafélagið eða starfsmaður þess neitaði að tryggja mig sem bónda. Ég er sko húsfreyja og mín störf væru ekki nærri því eins hættuleg eins og störf bóndans og ef ég færi að tryggja mig sem bónda þá mundi ég verða að greiða miklu hærri iðgjöld og mundi verða bara óhagkvæmara.

Fasteignamatið sendi snepil þar sem taldir voru upp ábúendur á bænum. Þar voru taldir karlarnir en konurnar vantaði. Ég hringdi og óskaði skýringa á þessu en konan í símanum sagði að hún hefði þessar upplýsingar undirritaðar af bændunum. Sem sagt komið frá mínum manni, en hann hefur nú ekki enn fengist til að viðurkenna að hann hafi gert það. Svo tók hún fram að svona væri þetta oft, en þeir hjá Fasteignamatinu vissu vel að það væru líka oftast einhverjar konur sem byggju á jörðunum en þær væru bara ekki fundnar í Fasteignamatinu.

Lífeyrissjóður bænda flutti allar mínar lífeyrisgreiðslur yfir á eiginmanninn í nokkur ár eða þar til ég rak augun í það á yfirlitinu að sá lífeyrir sem ég greiddi skilaði sér ekki þrátt fyrir það að ég sendi mánaðarlegt yfirlit yfir greiðslur í sjóðinn, sundurliðað eftir greiðendum. Já, þetta var sko mín sök náttúrlega, ekki satt?

Já, það eru einmitt svona mörg atriði sem eru oft einmitt mín sök. Skattstjórar ráðleggja stundum að greiða konum laun frekar en að láta þær vera hluta af búrekstrinum og þá missa þær lífeyrisgreiðslurnar á meðan eða geta átt það á hættu nema þá að passa vel upp á þetta.“ (Forseti hringir.)

Frú forseti. Í mörgum atriðum er einmitt kerfislægt (Forseti hringir.) gengið á rétt kvenna (Forseti hringir.) og þær þurfa að sækja hann og passa upp á hann sjálfar, (Forseti hringir.) frú forseti, eins og þú stýrir fundi vel.

(Forseti (SP): Forseti þakkar góð orð hv. þingmanns.)