131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi.

698. mál
[14:12]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra út í öll þessi leyfi og sérstaklega það sem kemur fram, minnir mig, á bls. 9 í frumvarpinu, þ.e. að „stéttin sjálf hafi eftirlit með sér og tilkynni um aðila sem stunda leyfisskylda starfsemi án tilskilins leyfis“. Mér finnst afar sérstætt að fá frumvarp frá Sjálfstæðisflokknum þar sem stéttin sjálf á að hafa eftirlit, sérstaklega í ljósi þess að ekki fyrir svo löngu var verið að ræða frumvarp um að takmarka aðgang að skattskrám. Það var í ljósi þess að kannski væri ekki eðlilegt að borgararnir hefðu eftirlit hver með öðrum. Þess vegna finnst mér óeðlilegt og undarlegt að þarna eigi ein ákveðin stétt að hafa eftirlit með sjálfri sér og tilkynningarskyldu.

Í öðru lagi finnst mér þurfa að koma fram þegar verið er að setja upp leyfi með hinu og þessu — til hvers eru þessi atvinnuleyfi? Mér finnst að Sjálfstæðisflokkurinn verði að svara því. Til hvers er verið að gefa þessi leyfi? Það er t.d. mjög skrýtið að horfa til þeirra gagna sem bílstjórar verða að leggja fram en þau eru tíunduð í reglugerð sem hæstv. samgönguráðherra samdi árið 2001, reglugerð um vöru- og efnisflutninga á landi. Þar kemur fram í 6. gr. að þeir sem ætla að fá svona leyfi þurfa að leggja fram alls kyns gögn í sex liðum, m.a. áritaðan ársreikning eða staðfest skattframtal og síðan rekstraráætlun og ég veit ekki hvað og hvað. Þarna er Vegagerðin komin í eitthvert eftirlitshlutverk með rekstri einstaklinga. Ég hélt að Vegagerðin væri að fylgjast með vegum en ekki hvort rekstraraðilar hefðu reksturinn sinn í lagi. Mér finnst þetta óneitanlega svolítið sérstakt, frú forseti.