131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi.

698. mál
[14:14]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fær væntanlega gott tækifæri til þess við umfjöllun um málið í þinginu að kynna sér það enn betur en hægt er að skapa skilyrði fyrir í umræðum. Það er þó alveg ljóst að þegar um það er að ræða að veita leyfi er það algild regla að viðkomandi þurfi að uppfylla tiltekin skilyrði. Það hefur verið mat löggjafans og um það gilda lögin í dag að sérstakt leyfi þurfi til að stunda flutningastarfsemi. Flutningastarfsemi er umfangsmikill rekstur.

Það frumvarp sem hér er hins vegar til meðferðar gengur út á það að skýra þessar reglur, skýra þessi skilyrði, gera þetta einfaldara í þeim tilgangi að auðvelda atvinnustarfsemina. Ástæðan fyrir þessum breytingum er að athugasemdir hafa komið fram um framkvæmd á þessari löggjöf.

Það er ekki nein sérstök ástæða til að kalla eftir afstöðu Sjálfstæðisflokksins hvað þetta varðar eins og hv. þingmaður gerði tilraun til. Þetta er löggjöf sem hefur verið afgreidd frá Alþingi og hefur verið í framkvæmd. Sú framkvæmd að fela Vegagerðinni, í þessu tilviki sem stjórnsýslustofnun, framkvæmd á þessari umsýslu og þessu eftirliti var talin mjög til einföldunar í staðinn fyrir það að setja á laggirnar sérstaka stofnun til að hafa eftirlit með fólksflutningum, vöruflutningum og efnisflutningum á landi. Ég tel (Forseti hringir.) fullkomlega eðlilegt að svo öflug og traust stofnun sem Vegagerðin er fái þetta hliðarverkefni.