131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi.

698. mál
[14:16]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það ber að vekja athygli á því að hæstv. ráðherra sá sér ekki fært að svara spurningu um þá sérstöku stöðu sem þessir aðilar eru settir í, þ.e. að hafa eftirlit með sér. Það er mjög sérstakt. Í öðru lagi vil ég taka fram að flutningastarfsemi er ekki endilega umfangsmikil og það er gott að hæstv. ráðherra geri sér grein fyrir því að það eru einnig einyrkjar í þessum rekstri. Þetta er ekki eingöngu umfangsmikill rekstur, eins og hæstv. ráðherra virðist halda. Ef maður skoðar reglur sem hæstv. ráðherra setur mætti halda að hann tryði því að þetta væri mjög umfangsmikið. En þarna eru einyrkjar á ferð og þeir eru náttúrlega gáttaðir á því hversu hamlandi þær reglur eru sem Sjálfstæðisflokkurinn útbýr fyrir þessa starfsemi.

Af hverju eiga menn t.d. að senda til Vegagerðarinnar rekstraráætlun fyrir yfirstandandi og næsta ár og staðfestingu endurskoðanda þar sem farið er yfir hvort forsendur séu réttar? Menn eru auðvitað gáttaðir á þeim vinnubrögðum Sjálfstæðisflokksins að búa til svona reglur. Staðfesting á starfshæfni? Þetta eru í allt sex liðir og það er ótrúlegt að lesa hversu mikið batterí er verið að búa til yfir mjög lítið.

Ég vona að hæstv. samgönguráðherra fari að átta sig á því að þeir sem eru í þessum rekstri eru ekki eingöngu með stórfyrirtæki heldur er einnig um einyrkja að ræða og menn eiga að haga reglum í samræmi við það.