131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Úrvinnslugjald.

686. mál
[14:28]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er ástæða til að taka til máls við 1. umr. um þetta frumvarp sem hæstv. umhverfisráðherra hefur mælt fyrir. Hér eru lagðar til tvenns konar breytingar. Sú fyrri verður náttúrlega að teljast tímabær og eðlileg, þ.e. að vaxtatekjur af úrvinnslugjaldi renni í Úrvinnslusjóð. Þó svo að ljóst sé að lög sem þessi séu ekki afturvirk liggur það líka fyrir að vegna þess hvernig fyrirkomulagið hefur verið og það er hefur ekki bara sjóðurinn heldur þeir sem skipta við hann orðið fyrir einhverri skerðingu. Nú á að breyta því og það er óhætt að styðja það. Ég verð þó vegna tillögunnar í 2. gr. frumvarpsins um að gefa aukinn frest til þess að heimila gjaldtöku á pappírs-, pappa- og plastumbúðum að lýsa undrun minni á því að þessi töf skuli verða.

Verkefnisstjórnin sem gerð er að umræðuefni í greinargerðinni hefur vitað það um allnokkurt skeið — það er nokkuð langt síðan það lá fyrir — að þessar breytingar yrðu gerðar með þeim tímafrestum sem kveðið hefur verið á um í bráðabirgðaákvæðum í lögunum. Það verður að teljast mjög miður, frú forseti, að ekki skuli takast að leiða þetta inn 1. september 2005 eins og til stóð, heldur ekki fyrr en um áramót. Við verðum að vona að ekkert nýtt komi til. Hæstv. ráðherra tók sérstaklega fram að málið væri kannski flóknara en menn hefðu gert sér grein fyrir. Reyndar vissu menn frá upphafi að þetta væri flókið, t.d. vegna tollskýrslna og annars, en þegar svo er þarf náttúrlega meiri undirbúningsvinnu og það þarf að gera sér grein fyrir því við hvaða fresti menn eiga að miða við vinnuna. Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með að þetta skuli sett fram með þessum hætti.

Ég hefði vænst þess líka að í greinargerðinni væru betri skýringar en fram koma um ástæður tafarinnar. Málið er að vísu flókið en nú þegar hafa menn haft þó nokkurn aðlögunartíma til að koma verkinu á koppinn, búa til reglurnar og gera það sem þarf. Ég vil því nota tækifærið og biðja hæstv. ráðherra um frekari skýringar á því hvers vegna lengja þurfi í þessum fresti og ég spyr líka að því, frú forseti, hvort það sé þá alveg öruggt að verkinu verði lokið þannig að þetta geti gengið í gildi um áramótin eins og hér kemur fram.

Það má heldur ekki gleymast í þessu samhengi, eins og kemur fram í umsögn fjármálaráðuneytis, að tekjur og gjöld sjóðsins munu lækka um tæplega 80 millj. kr. á yfirstandandi ári vegna þessarar tafar. Það munar um minna en 80 millj. kr. þannig að við hljótum að spyrja, og ég geri það, hvernig á þessu standi og hvers vegna enn þurfi að fresta þegar menn hafa þó vitað það um missira skeið að þetta stæði til.