131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Úrvinnslugjald.

686. mál
[14:40]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ánægð með að heyra að sama pirrings gæti hjá hæstv. umhverfisráðherra gagnvart þessu eins og hjá okkur þingmönnum sem höfum tjáð okkur um þetta.

Ég vil gjarnan fá svör við þeim spurningum sem komu upp í máli mínu, hvort hæstv. ráðherra sjái það ekki sem ákveðna lausn á þessu vandamáli að hleypa fleirum að borðinu. Nú kemur það fram í skjalinu sem við höfum hér fyrir framan okkur með athugasemdunum með þessu frumvarpi að verkefnisstjórnin er skipuð fulltrúum frá Samtökum verslunar og þjónustu, Félagi íslenskra stórkaupmanna, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Félagi fiskframleiðenda ásamt fulltrúum frá Úrvinnslusjóði, sem er eðlilegt, og svo fulltrúum frá tollmiðlurum og þeim sem annast tollagögn. Hér eru engir aðrir en atvinnulífið í sjálfu sér þannig að það situr hringinn í kringum borðið.

Ég hefði talið að fulltrúar atvinnulífsins yrðu beittir einhverjum þrýstingi við þetta borð ef við hefðum þar aðra aðila sem kæmu úr grasrótarsamtökum eins og ég hef nefnt. Ég vildi því gjarnan að hæstv. umhverfisráðherra legðist á sveifina með okkur í því máli að finna lausnir á því að atvinnulífið komist ekki alltaf upp með það að setja fram kröfur og fá þær samþykktar af því að enginn annar situr við borðið.