131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Úrvinnslugjald.

686. mál
[14:43]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki sannfærð um að þetta séu eingöngu byrjunarörðugleikar. Ég held að hér sé talsvert í húfi fyrir atvinnulífið. Þó að atvinnulífið í orði kveðnu vilji leggjast á sveif með Alþingi í þessum málum, að koma úrgangsmálum í sæmilegt horf og í það horf sem þau eru komin í í nágrannalöndum okkar, eru talsverðir fjárhagslegir hagsmunir undir. Það kemur fram í umsögn um þetta frumvarp frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að bara með þessari fjögurra mánaða frestun muni tekjur og gjöld Úrvinnslusjóðs lækka um tæplega 80 millj. kr. árið 2005. Það eru talsverðar upphæðir þannig að hér eru verulegir fjárhagslegir hagsmunir í húfi fyrir atvinnulífið. Það er auðvitað þess vegna sem það reynir að fresta þessari gildistöku.

Ég bið bara hæstv. umhverfisráðherra áfram að skoða þetta mál í alvöru og athuga hvort ekki þurfi að hleypa fleiri aðilum að þessu borði. Það kann að vera að það komi upp í umhverfisnefndinni þegar við fjöllum um þetta mál þar að úr því að búið er að opna málið enn eina ferðina höfum við tækifæri til þess að skoða skipun stjórnar Úrvinnslusjóðs og þá þeirrar verkefnisstjórnar sem um þetta mál fjallar. Ég áskil mér allan rétt í nefndinni til að skoða hvort þá komi ekki einhverjar frekari breytingartillögur við þetta mál í meðförum þingsins.