131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Úrvinnslugjald.

686. mál
[14:44]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vek athygli á því að væntanlega munu koma inn á hverju ári frumvörp um Úrvinnslusjóð að því er lýtur að gjaldtökunni, þannig að árlega er alltaf í tengslum við fjárlagagerðina slíkt frumvarp í umhverfisnefnd.

Hvað það snertir að breyta samsetningu stjórnar sjóðsins, það eru fimm einstaklingar sem sitja í stjórninni, tilnefndir af ýmsum aðilum, tel ég að það eigi alls ekki að fjölga í þeirri stjórn. Ég mundi miklu frekar vilja sjá að þar væri fækkað ef gerðar yrðu einhverjar breytingar á stjórninni.

Aftur á móti hvað snertir verkefnisstjórnina vil ég líka taka fram að hún er ekki lögbundin. Þarna er verið að reyna að leysa þessi mál á praktískan hátt með því að fá til samráðs þá aðila sem sitja í verkefnisstjórninni sem eru þeir sem vita manna best hvernig og hvort framkvæmdin gengur upp samkvæmt því sem lagt var af stað með í upphafi.