131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[14:50]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. síðasta ræðumanni að lögin um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum renna út í lok þessa árs en hefur verið gert samkomulag við sveitarfélögin um að framlengja þau lög um þrjú ár. Fyrir liggur að lagðar verði í það 200 milljónir árlega á næstu þremur árum. Ég hyggst leggja frumvarp þess efnis fram á haustþingi, það er ljóst að þannig er því varið.

Hvað snertir hins vegar þessa sérstöku breytingu lýtur hún fyrst og fremst að því að sveitarfélögin sitji við sama borð þegar kemur að því að geta notið styrkja samkvæmt þessum lögum. 1. mgr. 1. gr. laganna hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Markmið laga þessara er að stuðla að framkvæmdum við fráveitur sveitarfélaga með styrkveitingum.“