131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[15:15]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir talaði fagurlega um samfélagslega þjónustu, samfélagslegt þetta og hitt og að góð fyrirtæki og göfug væru þau sem væru sjálfseignarstofnanir eða eitthvað því um líkt. Hún talaði illa um ágóða og gróða, að það væri eitthvað ljótt sem mætti ekki blanda saman við hið fyrra.

Nú er það svo að læknar starfa í samfélagslegri þjónustu og eru með hvað hæstu launin í landinu. Er ekki óeðlilegt að þeir séu „að græða“ á velferðarkerfinu, á samfélagslegu þjónustunni hjá ríki og sveitarfélögum? Er ekki afleiðingin af því sem hv. þingmaður segir um ljótan gróða og ágóða að setja á hámarkslaun hjá hinum fögru fyrirtækjum í samfélagsþjónustunni? Hvernig er með lífeyrisréttindin? Væri ekki rétt að setja takmörk á þau? Mér finnst hv. þingmaður vera komin dálítið út á hálan ís vegna þess að menn græða á mjög mismunandi hátt, ekki bara með arði af fjármagni.

Ég vil nefna sparisjóðina í þessu sambandi. Þeir eru líka samfélagsleg þjónusta í huga sumra. Á ekki að setja hámark á laun sparisjóðsstjóra og lífeyrisréttindi, kaupréttindi og annað slíkt? Svo vil ég í þessu sambandi nefna mjög merkilegt framtak hjá R-listanum í Reykjavík, sem eru félagsbústaðir Reykjavíkur, þar sem meira að segja leigumarkaðurinn var settur í einkaframkvæmd.